18.12.1972
Efri deild: 28. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1340 í B-deild Alþingistíðinda. (991)

131. mál, vegalög

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég held, að ég megi þakka sæmilegar undirtektir undir frv. Ég heyrði ekki betur en að hv. 2. þm. Reykv. tæki ekki afstöðu til málsins og veitti því þannig enga mótspyrnu, og er ég honum þakklátur fyrir það. Ég gat ekki reiknað með meiru af hans hendi eða hans flokks í sambandi við frv., sem sannarlega er frv. um skattálögur á þegnana. En hins vegar varðandi þá afstöðu hans, að það væri verið að sýna Alþingi óvirðingu að bera fram frv. núna rétt fyrir jólin, vil ég segja það, að það væri þá mikil siðabót, sem orðin er á Alþingi Íslendinga, ef jólavikan eða páskavikan væri friðuð fyrir frv.-flutningi. Það hefur ekki tíðkazt hingað til á þessum bæ, svo að ég viti, ekki heldur hjá þeim, sem hér réðu húsum áður. Það var sannarlega ös á Alþingi í jólavikunni vegna flutnings stórra mála hjá fyrrv. ríkisstj., hefur alltaf verið og verður alltaf. Nei, það er enga óvirðingu verið að sýna Alþingi með því að flytja frv. jafnt í jólavikunni sem öðrum vikum. Þetta er auðvitað mikil starfsvika og hefur alla tíð verið, og eins fyrir páska og þingslit. Þetta eru hápunktar vertíðarinnar hjá okkur alþm.

Þeir hafa talað hér 2 hv. þm. Alþfl., og ég heyrði ekki betur en að hv. 5. þm. Reykn. talaði um hina miklu nauðsyn fjáröflunar vegna vegamála í ræðu sinni. Þetta frv. er eingöngu um það, það er eingöngu um fjáröflun til framkvæmda í vegamálum. Hann segir, að þörfin sé þar mikil, og vitanlega er hann sammála mér um það, að til þess þarf peninga, ef ekki á að verða samdráttur í þeim framkvæmdum. Hann taldi líka, að komast ætti hjá erlendum lántökum til vegamála, og þetta frv. leggur því sjónarmiði einnig lið. Ég held, að ekki gangi vel að koma inn í vegamálafrv. breytingum varðandi verðlag á bílum og öðru slíku. Það yrði eitthvert hnoð, held ég, ef farið yrði inn á þá braut. Ég held þess vegna, að við verðum að bíða með það til annaðhvort sérstaks frv: flutnings eða a.m.k. að koma því inn í annað frv. en frv. um breyt. á vegalögum.

Hv. 1. landsk. þm. ræddi líka um málið og vildi fá upplýsingar um, hverjar breytingar yrðu á fargjöldum með almenningsvögnum. Það er engin leið að koma neinu um það inn í þetta frv. heldur. Það mál lá fyrir, þó að þetta frv. væri ekki flutt, og verður áreiðanlega að gefa réttum aðilum svar við því. En það hefur engin áhrif á ákvörðun um fargjöld með strætisvögnum, hvort þetta frv. verður samþ. eða ekki. Vandinn er fyrir hendi. Það er vaxandi dýrtið í landinu, það hefur enginn neitað því, og þá er eðlilegt, að þeir sem hafa með rekstur að gera, fari fram á, að rekstur þeirra sé tryggður með verðhækkunum.

Ég held, að þetta mál liggi alveg ljóst fyrir, og ég hef ekki heyrt nein rök gegn því. Þvert á móti hafa allir tekið undir, að vegasjóður verði að fá sitt til þess að mæta auknum kostnaði við framkvæmdir og komast hjá stórfelldum erlendum lántökum. Þá er auðvitað það eitt fyrir hendi að taka afstöðu til þess, hvort menn viðurkenna þau rök og þá ríku nauðsyn, sem fyrir því sé. Fleiru geta menn, held ég, ekki blandað inn í þetta mál. Það er ofur einfalt og fjallar um hækkun á benzíni, á gúmmívörum til bifreiða og hækkun á þungaskatti og nemur samtals um 220–225 millj. kr. eftir nákvæmustu áætlun þeirra, sem bezt þekkja til.

Ég hef aldrei lofað kjósendum mínum því, að bifreiðar skuli ekki hækka í verði, og er ég ekki neinn svikari við þá, þó að svo kunni að fara, að bifreiðar hækki í verði sem annað. En það má vera, að þessir hv. þm. hafi lofað sínum kjósendum því ásamt fleiru.