18.12.1972
Neðri deild: 27. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1344 í B-deild Alþingistíðinda. (999)

Umræður utan dagskrár

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég heyrði það, að hv. síðasti ræðumaður sagði sig úr þingflokki SF, hefði þó kunnað betur við, að hann hefði sent úrsögnina réttum aðila, því að hann þurfti ekki að tilkynna Alþ. það sérstaklega, fyrr en þá að gerðum hlut gagnvart sínum réttu aðilum. Hér var lesin upp af honum samþykkt úr félagi SF í Reykjavík. Það er eitt af flokksfélögum okkar samtaka. Ég hef ekkert við það að athuga. Ég tel sjálfsagt og býst við, að það sé í öllum stjórnmálaflokkum svo, að einstök stjórnmálafélög innan þeirra megi taka mál til meðferðar og komast að þeim niðurstöðum, sem meiri hl. þar kveður á um. Þessi samþykkt hefur fengið pláss í ríkisútvarpi og sjónvarpi og nú verið flutt hér á Alþ., og hefur þannig verið gert eins mikið úr henni og hægt er, og minnir það mig á gamla þjóðarréttinn á hungursárunum fyrri, flautirnar. Það er búið að blása þetta út, og það er ekkert við því að segja. Flokksfélögin eru frjáls að því að gera sínar samþykktir. En það breytir engu um það, að þingflokkur SF hefur einróma tekið sínar ákvarðanir um lausn þess vanda, sem hér er um að ræða, og sú niðurstaða, sem hér er fengin, er sameiginleg lausn ríkisstj. allrar, þeirrar sem hv. þm. lýsti yfir, að hann styddi. Ég hef ekki meiru við þetta að bæta. Ég vil þó undirstrika það, að þó að það þyki kannske atburður, að hv. þm. myndar nú sjálfstæðan þingflokk, þá er allt gott, sem endar vel, þar sem hann styður ríkisstj. að þessum verkum sem öðrum.