06.12.1973
Sameinað þing: 31. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1123 í B-deild Alþingistíðinda. (1020)

48. mál, bættar vetrarsamgöngur

Flm. (Lárus Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. þm. Sverri Hermannssyni, Matthíasi Bjarnasyni, Halldóri Blöndal og Gunnari Gíslasyni leyft mér að flytja till. til þál. á þskj. 50 um bættar vetrarsamgöngur í snjóþungum byggðarlögum. Till. er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að endurskoða reglur, sem gilda um snjóruðning af vegum, með það í huga að bæta vetrarsamgöngur í snjóþungum byggðarlögum, auka öryggi sjúkraflutninga, auðvelda flutninga barna í skóla auk mann- og vöruflutninga í þessum byggðarlögum. Ríkisstj. er falið að kanna hagkvæmni þess að afla nýtískulegra og öflugra tækja, sem tíðkast í öðrum löndum, til þess að koma þessari stefnu í framkvæmd.“

Reglur um snjóruðning af vegum hafa gilt svo til óbreytt í nær áratug, og litlar breytingar hafa orðið á aðferðum og tækjum til snjóruðnings vega síðustu áratugi. Rétt er að undirstrika strax í upphafi, þegar þessi mál eru rædd, að það er að mörgu leyti eðlilegt, að gætt sé aðhalds, þegar fjármagni er varið til slíkrar þjónustu, sem er snjóruðningur vega. Á því máli eru þó margar hliðar. Það er staðreynd, að vegna legu landsins á hnettinum og staðhátta verður þörf á stórbættri þjónustu í vetrarviðhaldi, þótt vegirnir verði smám saman bættir og byggðir upp, þ. e. a. s. ef viðkomandi byggðarlög eiga að heita byggileg nútímafólki. Enda er það svo, að aðhaldssemi í snjóruðningi vega hefur oft og tíðum orðið þjóðfélaginu óhemju kostnaðarsöm að mínu mati og verður enn þá kostnaðarsamari, eftir því sem tímar líða, ef menn hugsa ekki stefnuna upp á nýtt í þessum efnum og miða hana við þær breyttu þjóðfélagsaðstæður, sem eru augljósar. Þessi misskilda aðhaldssemi hefur nú þegar valdið því að mínu mati, að byggðir hafa verið of margir óhemju dýrir heimavistarskólar, þar sem unnt hefði verið að koma við heimanakstri barna með bættum vetrarsamgöngum. Þá hefur víða skapast af framangreindum sökum öngþveiti í heilsugæslumálum á stórum landssvæðum, og allir vita, að góð heilsa verður ekki metin til fjár. Þessu til viðbótar hafa aðrar félagslegar kröfur fólks farið mjög vaxandi á undangengnum áratug og munu færast stórkostlega í aukana á næstu árum. Til þess að mæta þessum kröfum eru góðar og umfram allt tryggar samgöngur á landi milli byggðarlaga algert grundvallarskilyrði. Þessar vaxandi ófullnægðu kröfur hafa þegar orðið til þess að ýta undir fólksflótta úr heilum landshlutum til þéttbýlisins hér á Suðvesturlandi, en að mínu mati eru þeir fólksflutningar með allra dýrustu fjárfestingu, sem þjóðin ræðst í. Það er því engum blöðum um það að fletta, að það fé, sem nú sparast vegna of mikils og misskilins aðhalds um snjóruðninga vega, þurfum við að gjalda margfalt í öðrum verðmætum og meira að segja í mörgum tilvikum margfalt í krónum og aurum.

Ég hef oft hugleitt það, að kerfi yfirstjórnar fjármála ríkisins sé ekki ósvipað sérfræðingakerfinu í læknamálum. Það er alkunna, að flestir læknar eru orðnir sérfræðingar í að lækna ýmsa líkamshluta okkar, en sárafáir hirða um líkamann sem heild. Í fjármálum ríkisins er sífellt að færast í vöxt, að sérstofnanir á hinum ýmsu sviðum taki áhrifavaldið úr höndum Alþ. í skiptingu framkvæmdafjár: Vegamálaskrifstofan í vegamálum, heilbrrn. í heilbrigðismálum, menntmrn. í menntamálum o. s. frv. Með vaxandi áhrifum þessara aðila á einstakar fjárveitingar til framkvæmda er það minna haft í huga, hvernig viðkomandi byggðarlag stendur sig sem samfélagsleg heild, þegar í viðkomandi framkvæmd hefur verið ráðist. Sem dæmi mætti nefna, að Vegagerð ríkisins tekur ekki mið af því, þegar hún er að gera till. til fjárveitinga til vegaframkvæmda í byggðarlagi eða þegar hún setur reglur um snjómokstur hverju sinni, hvort unnt væri að komast hjá byggingu heimavistar við tiltekinn skóla með bættum samgöngum. Ég er þeirrar skoðunar, að þetta þurfi Alþ. að láta athuga betur, og er í þessari till. gert ráð fyrir, að svo verði gert, að því er þetta mál varðar, sem hér um ræðir.

Reglur um snjóruðning vega, sem nú gilda, munu flestar nálægt áratugs gamlar eins og ég sagði áðan. Þær miðast víðast við, að rutt sé snjó af vegum á ákveðnum fyrirframgerðum tímum. Þó eru mikilvægir vegir hér í þéttbýlinu ruddir eftir þörfum. Á hinn bóginn er það svo sums staðar á mikilvægum millibyggðavegum á landsbyggðinni, að reglurnar kveða svo á að þá vegi skuli ekki ryðja oftar en einu sinni í mánuði, og marga vegi ber einungis að ryðja hálfsmánaðarlega, þ. á m. mætti nefna veginn frá Húsavík til Þórshafnar og milli Vopnafjarðar og Þórshafnar. Veginn milli Húsavíkur og Akureyrar ber að ryðja aðeins einu sinni í viku, og er sömu sögu að segja um veginn fyrir Ólafsfjarðarmúla.

Steininn tekur þó úr, þegar litið er á vegina í sveitum landsins, en þá mokar Vegagerð ríkisins á sinn kostnað einungis haust og vor, en ef þörf er á ruðningi þeirra vega um vetur, þurfa bændur eða viðkomandi sveitarfélög að kosta helming þess verks, þátt þeir aðilar hafi á hinn bóginn engin úrslitaáhrif á, hvenær eða hvernig framkvæmdinni er háttað.

Þótt slíkar reglur hafi einhvern tíma verið settar af illri nauðsyn, held ég, að engum geti blandast hugur um, að við þær aðstæður og kröfur, sem gerðar eru í dag, verði ekki unnt að komast hjá því að gera á þeim gagngerar breytingar. Byggðir hafa verið fjölmargir skólar í strjálbýlinu, sem mörg sveitarfélög standa að, og eru margir þeirra, sem betur fer heimanakstursskólar. Ný viðhorf blasa einnig við í heilsugæslumálum. Í stað gamla héraðslæknakerfisins með lækni í hverju byggðarlagi er nú gert ráð fyrir að þjóna heilum héruðum frá heilsugæslustöðvum. Augljóst er, að þessi nýju viðhorf krefjast tryggari samgangna á landi en verið hefur og þar með aukinnar þjónustu við snjóruðning vega. En engar sérreglur gilda um þetta nú.

Í þessu sambandi minnist ég þess, að fyrir nokkrum árum var ég formaður fræðsluráðs í afskekktu byggðarlagi. Ég hringdi þá til Vegagerðar ríkisins og óskaði eftir því, að vegur, sem börn þurftu að komast um til skóla, yrði ruddur. Ég fékk það svar, að viðkomandi vegur yrði ekki ruddur fyrir skólabörn. Samkv. reglum yrði hann aðeins ruddur, væri nauðsyn á vegna mjólkurflutninga. Þetta þótti mér heldur köld svör. En ég veit ekki betur en þessar reglur gildi enn óbreyttar í strjálbýlinu, þrátt fyrir þá þróun, sem átt hefur sér stað í skólamálum og heilbrigðismálum á undangengnum árum.

Auk þessara röksemda, sem ég hef hér tíundað fyrir brýnni nauðsyn á endurskoðun reglna um snjóruðning vega sakir nýrra viðhorfa í skóla- og heilbrigðismálum strjálbýlisins, er það deginum ljósara, að heil héruð, sem búa við þær samgöngur á landi, að einungis sé gert ráð fyrir, að vegir séu færir einu sinni í viku, hálfum mánuði eða mánuði, bjóða hreinlega ekki upp á aðstöðu til nútímabúskaparhátta. Það er því tómt mál að tala um eðlilega þróun þeirra eða jafnrétti þeirra þegna, sem þau byggja, nema til komi bætt þjónusta á þessu sviði. Öruggar og greiðar samgöngur eru slíkar lífæðar nútímamannlífs, og þarf naumast að brýna slíkt fyrir þingheimi.

Ég þykist hér hafa fært óyggjandi rök fyrir því, að bæta þurfi verulega um til þess að tryggja vetrarsamgöngur á landi, þar sem ófærð myndast á vegum sakir snjóa, jafnvel þótt vegirnir séu vel úr garði gerðir. Þar koma til ný viðhorf í skólamálum, heilbrigðismálum og svo önnur félagsleg og efnahagsleg atriði. Engum blöðum er um það að fletta, að verja þarf meira fé til þessarar félagslegu þjónustu en verið hefur. Á hinn bóginn kemur mjög til álita að minni hyggju, hvort ekki væri unnt að auka þessa þjónustu fyrst og fremst með bættu skipulagi og tækjakosti. Nú er snjó rutt af vegum að langmestu leyti með jarðýtum og vegheflum. Nokkrir snjóblásarar eru til í landinu og hafa reynst vel, þar sem þeir hafa verið notaðir. Mér er tjáð, að aðrar þjóðir, t. d. Norðmenn, noti snjóblásara í miklu ríkari mæli en við hér á landi og skipuleggi þessa þjónustu öðruvísi en við. Mestu kostir snjóblásara eru, að þeir eru miklu hraðvirkari en önnur snjóruðningstæki og skilja ekki eftir sig ruðninga á vegköntum, sem mynda gildru fyrir enn þá meira snjómagn á viðkomandi vegi en var fyrir. Það hlýtur því að koma mjög til álita, þegar við blasir, að stórauka þurfi þjónustu á þessu sviði, hvort ekki væri unnt að læra af frændum okkar og nágrönnum í þessum efnum, skipuleggja þessa þjónustu á nýjan leik og draga þannig úr óhjákvæmilega stórauknum kostnaði, sem annars er nauðugur kostur að mínu mati að leggja í á þessu sviði.

Herra forseti. Ég tel óþarft að rökstyðja þessa till. nánar. Öllum þm., a. m. k, sem búa á landsbyggðinni, er eflaust ljóst, að mikil þörf er á efnislegri framkvæmd þessarar till. Ég vænti því þess fastlega, að henni verði vel tekið og legg til, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. allshn.