06.12.1973
Sameinað þing: 31. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1131 í B-deild Alþingistíðinda. (1024)

103. mál, þjónusta hjá héraðsdómstólum við neytendur

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Varamaður minn hér í haust á hv. Alþ., Bragi Sigurjónsson, ásamt hv. þm. Eðvarð Sigurðssyni, Hannibal Valdimarssyni og Vilhjálmi Hjálmarssyni, flutti till. til þál. um þjónustu fyrir héraðsdómstólum við neytendur. Till, er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að leggja fyrir ríkisstj., að hún láti nú þegar semja frv. til breytinga á lögum og gera aðrar ráðstafanir til undirbúnings því, að komið verði á fót þjónustu við neytendur hjá héraðsdómstólum landsins. Þjónusta þessi verði í því fólgin, að dómari geti ákveðið, að mál, sem höfðuð eru af viðskiptavini verslunar eða þjónustufyrirtækis vegna viðskipta við fyrirtækið, hljóti skjótari og ódýrari afgreiðslu en nú tíðkast. Meðferð þessari megi beita við mál, sem varða vörur og þjónustu, allt að 50 þús. kr. Við þessar breytingar verði slík þjónusta í öðrum löndum höfð til hliðsjónar, en reglur færðar til íslenskra aðstæðna.“

Þessi till. skýrir sig auðvitað að verulegu leyti sjálf. Hér er um það að ræða, að neytendur fái fljótari afgreiðslu tiltekinna mála en nú tíðkast. Mér hefur satt að segja oft fundist, að það sé harla lítið rætt um málefni neytenda hér á hv. Alþ. Neytendasamtökin fá fjölda minni háttar kvartana, og fólki finnst oft hreint ekki taka því að fara að höfða mál út af tilteknum viðskiptum. Þetta er þess vegna fyrst og fremst örlítið spor í þá átt að gera þetta vandamál neytenda dálítið léttara. Þessi aðferð hefur verið reynd í öðrum löndum, eins og í Bandaríkjunum og nú alveg nýlega í Bretlandi, og Svíþjóð og Noregur munu vera að undirbúa löggjöf í þessu efni. Þó að þetta sé lítið spor til þess að létta þennan þátt neytenda, telja flm. þó rétt að freista þess að koma þessu máli áleiðis.

Það er enginn vafi á því varðandi ýmiss konar málefni viðskiptalegs eðlis, sem eru það lítil, að fólki finnst ekki taka því að fara í málaferli með dýrum lögfræðingum og öllu tilheyrandi, að það mundi verða mikill hagur, ef slík séraðstaða kæmist upp hjá dómstólunum, að þessi mál væri hægt að afgreiða án þess, að það þyrfti að standa í löngu og dýru málaþrasi. En hér eru margir lögfræðingar, tveir þeirra sýslumenn, og ég geri ráð fyrir því, eð þeir geti sagt sitt álit í þessum efnum. Flm. hafa talið rétt að hreyfa málinu nú og freista þess að fá um það samstöðu hér.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð að sinni, en legg til, herra forseti, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. allshn.