10.12.1973
Neðri deild: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1171 í B-deild Alþingistíðinda. (1065)

135. mál, umboðsmaður Alþingis

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að fagna því, að þetta frv. skuli komið fram. Málið sjálft er ekki nýtt fyrir okkur hér á hv. Alþ., það á sér töluverðan aðdraganda, að þetta frv. var samið. Á þinginu 1964–1965 var það, sem þáv. varaþm. Framsfl., Kristján Thorlacius, flutti þáltill. um, að Alþ. ályktaði að skipa nefnd til að semja frv. þessa efnis. Hann endurflutti þessa till. sína tvisvar síðar, 1966 og 1967, en þá átti hann í bæði skiptin sæti stuttan tíma hér á Alþ.

Ég tók síðan till. upp á þinginu 1970 og flutti hana einnig á næsta þingi á eftir, þinginu 1971–1972, var hún samþ. hér á Alþ., En hún var nokkuð frábrugðin till. Kristjáns. Ég lagði til, að ríkisstj. væri falið að láta undirbúa löggjöf um embætti umboðsmanns Alþingis, og auk þess valdi ég það orðalag yfir þennan væntanlega embættismann, umboðsmannsheitið, en Kristján Thorlacius hafði verið með till. uppi um, að hann bæri nafnið lögsögumaður.

Ég skal ekki ræða frv. efnislega núna, enda tek ég alveg undir orð hæstv. dómsmrh. um, að þingið eigi að gefa sér góðan tíma til þess að athuga frv. Hér er mikið og merkilegt mál á ferðinni. Hann bendir réttilegu á, að þessu muni fylgja töluverður kostnaður. Ég geri ráð fyrir því, að ekki aðeins hann, heldur og aðrir hv. alþm. vilji taka til greina aðvaranir hans um þennan lið, sem frv. fylgir, kostnaðarliðinn, ekki síst, ef litið er á, hvernig ástatt er og horfur eru í okkar fjármálum.

En ég vil aðeins endurtaka þakkir mínar fyrir, að frv. skuli komið fram, og tek undir þá skoðun hæstv. ráðh., að þingið gefi sér góðan tíma til að athuga það.