11.12.1973
Sameinað þing: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1187 í B-deild Alþingistíðinda. (1082)

Umræður utan dagskrár

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin. Ég þóttist skilja af þeim, að ríkisstj. reyndi að leggja sig fram til að leysa þennan vanda, enda segir sig sjálft, að hér er um vanda allrar þjóðarinnar að ræða og í raun og veru ópólitískt mál. Hitt, er okkur líka öllum ljóst, að eftir því sem tíminn líður aukast erfiðleikarnir og vandinn verður enn torleystari.

Grundvallaratriðið, ef svo mætti segja, í sambandi við þessa kjaradeilu, hlýtur að vera það, að láglaunafólkið fái verulegar kaupbætur, og þá verða þeir, sem betur mega í þjóðfélaginu, að láta sér lynda að bera skarðari hlut frá borði í þessum samningum. Ég hygg, að allir þm. séu sammála um þetta atriði. Láglaunafólkið verður að fá verulegar tekjubætur.