25.10.1973
Sameinað þing: 8. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í B-deild Alþingistíðinda. (110)

13. mál, útbreiðsla sjónvarps

Flm. (Steingrímur Hermannsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt öðrum þm. Framsfl. að leggja fram till. til þál. um útbreiðslu sjónvarps. Ég skal ekki hafa langt mál um þessa till., enda fáir hv. þm., sem virðast hafa tíma til að sitja þennan fund. Þeir, sem hér eru, þekkja málið vel og eru áreiðanlega áhugamenn þar um.

Þó vil ég geta þess, að þetta mál er flutt — við getum sagt sem þáttur í byggðastefnu- og byggðamálum. Það er rétt, sem hæstv. fjmrh. gat um í sinni ítarlegu ræðu s. l. þriðjudag, að mikið hefur verið gert í byggðamálum. Mikið fjármagn hefur verið veitt til dreifbýlisins, til uppbyggingar atvinnuvega fyrst og fremst, en einnig á nokkrum öðrum sviðum félags- og menningarmála. En e. t. v. er það vegna þessa átaks, sem þarna hefur verið gert, að mönnum hefur smám saman orðið ljóst, að sambærileg lífskjör í dreifbýlinu við þéttbýlið eru ekki eingöngu fólgin í því að hafa þar næga atvinnu og jafnvel það sem nálgast atvinnuþrælkun sums staðar, það verður að tryggja íbúum aðgang að öðrum þáttum nútímalífskjara. Einn af þessum þáttum er sjónvarpið. Hygg ég, að enginn muni andmæla því.

Um sjónvarpið urðu miklar umr. á síðasta Alþ. Þá voru fluttar fsp., bæði um útbreiðslu sjónvarps almennt og um útbreiðslu sjónvarps í einstökum landshlutum. Þá var einnig lögð fram þáltill. um sama efni. Í þeim umr., sem þá urðu, og í svörum við þessum fsp. komu fram ítarlegar upplýsingar. Þar kom m. a. fram, að 471 býli á landinu hefur nú ekki aðgang að sjónvarpsútsendingu eða a. m. k. svo ófullnægjandi, að ónothæft getur talist. Í þessum umr. kom jafnframt fram, að gert væri ráð fyrir því, að sums staðar á landinu, m. a. á Austfjörðum, var gert ráð fyrir því, að sjónvarp kæmist á allmarga sveitabæi, en staðreyndin hefur hins vegar því miður orðið sú, að úr þessum framkvæmdum samkv. framkvæmdaáætlun þeirri, sem Landssíminn hefur gert, hefur ekki orðið. Er þar kennt um fjárskorti. Því mun svo vera, þótt nokkur breyting hafi orðið á fjölda þeirra býla, sem ekki hafa sjónvarp, að fjöldinn mun vera mjög nálægt því, sem um getur í grg. með þessari þáltill. og ég nefndi áðan, eða um 470–471 býli. Báðar tölurnar hafa verið nefndar hér á hinu háa Alþ. Staðreyndin er sú, að sum býli, sem talin voru með sem hafandi sjónvarp, teljast það þó varla. Bæði var það svo, að þá var byggt á áætlun, sem aldrei komst til framkvæmda, og sums staðar hafa skilyrði reynst ófullnægjandi, lakari en ráð var fyrir gert. Ég hirði því ekki að fara að tíunda það hér, hvernig þessi tala er nákvæmlega í dag. Í raun og veru held ég, að það skipti ekki höfuðmáli.

Þau býli, sem eftir eru, eru yfirleitt þannig staðsett, að þau eru út við jaðar okkar byggðar. Þau eru oft á stöðum, sem hafa erfiðar samgöngur, oft lokaðar nálægt því frá umheiminum mánuðum saman, a. m. k. með tilliti til samgangna. Það eru m. ö. o. þau býli, sem ég hygg, að við getum verið sammála um, að einna mesta þörf hafi fyrir sjónvarp.

Ég hef fengið þær upplýsingar, að fé því, sem til útbreiðslu sjónvarps hefur verið notað, er öllu ráðstafað og raunar nokkuð fram í tímann. Hér hefur fyrst og fremst verið um innflutningsgjald af sjónvarpstækjum að ræða, en jafnframt hafa endurvarpsstöðvar verið fjármagnaðar með lánsfé, sem endurgreiðast á með þessum innflutningsgjöldum. Samtals mun lánsféð nema um 120 millj. kr., og afborganir og vextir eru á næstu 3–4 árum hærri en toll- og aðflutningstekjur af sjónvarpstækjum. Jafnframt er upplýst, að vart sé unnt að gera ráð fyrir því, að tekjur af innfluttum sjónvarpstækjum hrökkvi til annars, þegar lánin eru greidd á 3–4 árum en að viðhalda tækjabúnaði sjónvarpsins. Í fyrsta lagi er ljóst, að gera má ráð fyrir því, að þær tolltekjur lækki, þegar flestir hafa náð sér í tæki, og í öðru lagi má mönnum vera ljóst, að þessum búnaði verður að halda við og viðhaldskostnaður er í mörgum tilfellum mikill. Niðurstaðan virðist því vera sú, að ekki megi vænta þess, að af þessum tekjum sé unnt að fjármagna frekari útbreiðslu sjónvarps, a. m. k. svo að nokkru nemi.

Auk þess vil ég leyfa mér að halda því fram, að sjónvarp á þau býli, sem ekki hafa fengið það enn, sé jafnvel fyrst og fremst félagslegt mál. Við teljum okkur, Íslendingar, í þeim flokki þjóða, sem vilja byggja landið á félagslegum grundvelli. Við viljum aðstoða þá, sem ekki geta notið þeirra lífskjara, sem við teljum sjálfsögð.

Ég lít því svo á, að með þennan hala, sem þarna er, verði að fara á nokkurn annan veg en gert hefur verið með útbreiðslu sjónvarps hingað til. Í þessari till. er því lagt til, að gerð verði þriggja ára framkvæmdaáætlun um útbreiðslu sjónvarps og að því stefnt, að sjónvarp verði þá komið til allra býla, sem þess geta notið af tæknilegum ástæðum og með viðráðanlegum stofnkostnaði. Í þessari till. er jafnframt bent á það, að unnt er að koma sjónvarpi til einstakra býla, a. m. k. í mörgum tilfellum, á ódýrari máta en með byggingu endurvarpsstöðva. Tækni leyfir, að kaplar með mögnurum staðsettum á ákveðnu millibili séu lagðir alllanga leið, a. m. k. um 2 km, í sjónvarpsloftnet, þannig að viðunandi móttökuskilyrði fáist. Þetta hefur verið gert á nokkrum bæjum, að vísu ekki svo langa vegalengd, en kostnaður við þetta hefur nýlegt verið áætlaður fyrir tvö býli norður á Ströndum, og er upplýst, að efniskostnaður muni verða um 180 þús. kr. Ég hygg því, að ef málið er skoðað í heild sinni, þá megi finna ýmsar leiðir ódýrari en byggingu endurvarpsstöðva fyrir þá bæi, sem erfiðast er að koma sjónvarpi til.

Í grg. með þessari till. er gerð lausleg tilraun til að áætla kostnað samkv. þeim upplýsingum, sem fram komu á síðasta þingi. Hámarkskostnaður samkv. þeim virðist vera 225 millj. kr. En með öðrum leiðum, eins og ég hef nú nefnt, virðist mér, að áætla megi, að hann geti orðið nokkru minni. Reyndar er rétt að geta þess, að í ræðu á síðasta þingi var einnig áætlað, að kostnaður yrði um 150 millj. kr. Þarna ber því nokkuð á milli, en mér sýnist það ekki skipta neinu máli.

Hér er, eins og ég sagði áðan, fyrst og fremst um þjóðfélagslegt mál að ræða, sem þjóðinni ber allri skylda til að leysa. Hér er einnig um mál að ræða, sem þjóðin getur leyst. Það eru ekki stórar upphæðir, sem við erum að tala um hér. Þetta er í raun og veru dropi í það haf opinberra framkvæmda og þjónustu, sem nú eru í okkar samneysluþjóðfélagi. Mér sýnist því, að þjóðin eigi að taka á þessu máli af myndarskap, gera um það þriggja ára áætlun, eins og hér er lagt til, útvega fjármagn til þeirra framkvæmda og láta bændur og aðra vita, hvenær þeir mega eiga von á sjónvarpi. Ég hygg satt að segja, að slíkur framkvæmdamáti geti haft veruleg áhrif á byggð víða í okkar landi. Þetta er, eins og ég hef reynt að leggja áherslu á hér, mannréttindamál.

Herra forseti. Ég sagðist ekki ætla að hafa um þetta mörg orð og læt þessi orð nægja. Vil ég að svo mæltu mælast til þess, að þessari till. verði vísað til hv. allshn. (Forseti: Mér hefur verið bent á, að hliðstæðar till. í fyrra hafi farið til fjvn., þannig að máske væri eðlilegra, að hún færi þangað, ef hv. frsm, vildi íhuga það.)