12.12.1973
Sameinað þing: 35. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1236 í B-deild Alþingistíðinda. (1126)

1. mál, fjárlög 1974

Frsm. 1. minni hl. (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. fjvn., form. n., 10. landsk. þm., tók fram, er starf fjvn. mikið, fundir margir og mikil vinna í undirn., svo að þeir þm., sem þar starfa, hafa meiri samskipti heldur en flestir aðrir þm. alveg frá hausti og fram að jólum. Fer auðvitað ekki hjá því, að í slíkri vinnu kynnast menn betur og mynda vináttubönd, sérstaklega þeir, sem eru búnir að starfa lengi saman, þó að stundum skerist í odda eins og gengur.

Ég vil þakka form. fjvn. fyrir samstarfið í n., eins og jafnan áður, og öðrum nm. Starf undirn. fjvn. hefur verið með svipuðum hætti og áður. En ég held, að fullkomin ástæða sé til að auka starfsemi undirnefnda í fjvn., vegna þess að málaflokkar í flóknara og margslungnara þjóðfélagi eru að verða fleiri, og það er því nauðsynlegt, að þm. stjórnar og stjórnarandstöðu vinni að skiptingu þess fjármagns, en taki ekki við molunum, sem koma af borðum stjórnarherranna. Ég held því, að þar þurfi að breyta um og gera það starf viðtækara en verið hefur. Ég held líka, að vinnubrögðum fjvn. þurfi mjög að breyta. Ég er ekki að gagnrýna núv. form. fyrir það, því að þótt vinnubrögð hafi verið um nokkurt árabil með þessum hætti, þá sjá menn, að það er nauðsynlegt að gera breytingar á alltaf öðru hverju. Ég tel fyrir mitt leyti, að of langur tími fari í upplestur erinda, í upplestur langra bréfa og langdregnar viðræður við menn. Þetta er allt saman æskilegt, en svo er tími orðinn naumur, þegar líður að afgreiðslu fjárlaga til 2. umr., að það er ekki gefinn tími til að fara yfir óskir og aths. manna og þær teknar til umr. í n. í mörgum tilfellum, heldur er sá háttur hafður á og þó sérstaklega áberandi núna, að erindalistar eru seint teknir upp. Þegar búið er að vinna að skiptingu fjármagns til hinna helstu málaflokka, sem undirn. starfa í, þá er ekki farið yfir listana og yfir öll erindin, valið úr, hvað á að afgreiða og hverju á ekki að sinna, heldur er skammtað á borð nm. í fjvn. það, sem finnur náð fyrir augum stjórnarherranna, og kemst í gegn á fjölskyldufundum meiri hl. fjvn.- manna. Þessu tel ég, að þurfi að breyta, ef á að viðhalda því samstarfi, sem nauðsynlegt er að halda og hafa á hverjum tíma á milli stjórnar og stjórnarandstöðu.

Í þeim málaflokkum, sem undirn. hafa starfað í, hefur náðst mjög viðunandi samkomulag umskiptingu fjármagnsins, en það er skoðun mín, að ef stranglega hefði verið farið eftir lögum um greiðslu ríkisins til hinna ýmsu framkvæmda, eins og skólakostnaðarl., þá hefði mun hærri upphæð þurft að vera í fjárlagafrv. en till. fjvn. gera ráð fyrir. En stjórnarandstaðan telur ekki þörf á að spenna bogann meira en gert hefur verið, og þess vegna sættir hún sig við þessar upphæðir, vegna þess að það er nú um ábyrga stjórnarandstöðu að ræða, en það er meira en hægt var að segja oft og tíðum á árum áður.

Meiri hl. fjvn. ræður sér vart fyrir gleði yfir því, hve honum hefur tekist að stjórna landinu vel og þenja ríkisútgjöldin upp úr öllu valdi, eins og fram kemur í nál. þeirra, sem virðist samið og undirritað í sæluvímu óðaverðbólgunnar.

Það sama kom raunar fram hjá hv. form. fjvn., sem hér var að ljúka máli sínu áðan, en þó grunar mig, að innra sé hann ekki ánægður, því að maðurinn er bæði skynsamur og raunsær, og hann veit, að í flestum efnum er farið rangt að og engin samstaða er um hjá ríkisstj. og stuðningsliði hennar að hverfa frá eyðslu og ábyrgðarleysi og taka upp ábyrga efnahagsstefnu. Þess vegna kom það mér á óvart, þegar form. fjvn. sagði hér áðan, að ríkisstj. hygðist halda áfram þessari stefnu. Hvaða manni dettur í hug að væna núv. ríkisstj. um, að hún hafi stefnu. Þetta er stefnulaust rekald í öllum málum, sem engum manni dettur í hug að nefna að hafi stefnu. Það verður síðar komið að þessari ræðu og kannske mörgum öðrum ræðum hér á eftir. Ég ætla svo síðar að víkja að nál. minna ágætu félaga og vina í meiri hl., en það vakti hjá mér nokkra kátínu við fyrsta lestur, en þegar ég hugsaði um efni þessa nál. og boðskap, þá breyttist kátínan í meðaumkun með þessum ágætu félögum mínum í nefndinni.

Þegar núv. stjórnarflokkar voru í stjórnarandstöðu, gagnrýndu þeir harðlega hækkun fjárlaga, þeir gagnrýndu ofþenslu í ríkiskerfinu, fjölgun ríkisstarfsmanna, þeir gagnrýndu verðbólguna, sífellt hækkandi verðbólgu í landinu, og þeir áttu þá ráð undir hverju rifi. Þeir sögðu, að það þyrfti aðeins að gera eitt, og það væri að skipta um ríkisstj. og breyta um efnahagsstefnu. Þegar það hefði verið gert, mundi verða tekin upp festa og skipulag í meðferð fjármála. En við skulum líta á, hvernig þróun fjármálanna hefur verið, frá því að þessi ríkisstj. tók við völdum.

Í fjárlögum fyrir árið 1971, sem voru síðustu fjárlög fyrrv. ríkisstj., voru tekjur áætlaðar 11 milljarðar 54.7 millj. kr., en gjöld 11 milljarðar 23.3 millj. kr. Greiðsluafgangur það ár var áætlaður 270.4 millj. kr.

Á fjárlögum 1972, fyrstu fjárlögum núv. ríkisstj., voru áætlaðar tekjur 16 milljarðar 898.8 millj. kr., en gjöld 16 milljarðar 549.5 millj., kr. Greiðsluafgangur var þá áætlaður 87.5 millj. kr. Fjárlög yfirstandandi árs eru tekjur áætlaðar 21 milljarður 970.3 millj. kr., en gjöld 21 milljarður 457.2 millj. kr. Greiðsluafgangur í ár er áætlaður 24.4 millj. kr.

Í fjárlagafrv. fyrir næsta ár, árið 1974, sem við erum að ræða hér nú, er gert ráð fyrir því, að tekjur verði 27 milljarðar 343.4 millj. kr., og gjöld 27 milljarðar 437.3 millj. kr. Greiðsluafgangur er áætlaður 103.7 millj. kr. Niðurstöðutala fjárlaga, frá því að þessi ríkisstj. tók við, hefur því hækkað sem hér segir: 1971–1972 um 5 milljarða 526.2 millj. kr., eða 50.13%. 1972–1973 um 4 milljarða 907.7 millj. kr., eða 29.65%. Útgjaldaaukning frá síðasta fjárlagafrv. er áætluð 5 milljarðar 980.1 millj. kr. Og nú við 2. umr. liggja fyrir brtt. frá fjvn. til hækkunar á gjöldum að upphæð 648 millj. 407 þús. kr. Hækkun gjalda nemur því 6 milljörðum 628.5 millj. kr. frá fjárlögum yfirstandandi árs.

Skylt er að geta þess, að hluta þeirra gjalda, sem áður hafa verið á framkvæmdaáætlun, er nú bætt við rekstrarútgjöldin, en þar er um 690 millj. kr. að ræða. Mér finnst rétt að geta þess, að það hefur oft áður verið rætt um hækkun fjárlaga, og sumir menn þreyttust ekki á því í 12 ár að hneykslast yfir, hvað fjárlögin hækkuðu. Þar hafa fáir gengið lengra og verið duglegri að hneykslast en núv. hæstv. fjmrh., en hann sagði 9. des. 1970 við 2. umr. fjárlagafrv., að heildarniðurstöður á tekjuhlið fjárlagafrv. væru 11 milljarðar 536 millj. kr., og hann bætti við: „Hér er um stórfelldari hækkun að ræða en nokkru sinni fyrr á fjárlagafrv., þar sem hækkunin ein nemur 3 milljörðum 139 millj. kr. Á undanförnum þingum hafa hv. alþm. og þ. á m. ég gert að umtalsefni þær hækkanir, sem hafa orðið á fjárlagafrv., en verð nú að viðurkenna það, að allt, sem hefur gerst um þá hluti á undanförnum árum, eru smámunir einir, samanborið við það, sem nú er að gerast.

Þá má geta þess, að árið 1965, eða fyrir 6 árum“, sagði núv. hæstv. fjmrh„ „voru niðurstöður fjárlagafrv. 3 milljarðar 529 millj., eða 380 millj. kr. hærri tala en hækkunin ein er nú. Þá má einnig geta þess, að þegar gengið var til kosninga 1967, voru niðurstöður fjárlagafrv. 4 milljarðar og 700 millj. kr. Það þykir nú ekki mikið að hækka um þá upphæð núna. Hækkunin nemur 2/3 af heildarupphæð fjárlaganna fyrir fjórum árum. Þessi þróun er a. m. k. greinileg, svo að ekki verður um deilt, að hraustlega er að staðið í hækkun fjárlagafrv.

Það má vel vera, að að dómi þeirra, sem að þessu standa, sé hér vel gert og rétt stefnt, þó að okkur hinum sýnist, að svo sé ekki“, sagði hæstv. fjmrh. þá. Og hann sagði jafnframt: „Mér varð að orði í sambandi við 1. umr. fjárlagafrv. núna á yfirstandandi hausti, að fjárlögin væru spegilmynd af þeirri stjórnarstefnu, sem fylgt væri, og ennfremur, að stjórnarstefnan hefði áhrif á efnahagsmál þjóðarinnar og hækkun verðbólgunnar í landinu.“ Þetta sagði nú sá vísi maður þá. Og hann auðvitað ætlaði að taka við og breyta um stefnu, eins og hann lofaði. Hann komst í ráðherrastól og hans flokkur. En hvernig hefur stefnubreytingin orðið? Fjárlagahækkanir voru miklar, sem hann nefndi í þessari ræðu sinni, en þær eru barnaleikur á við það, sem hefur skeð síðan hann og hans félagar tóku við völdum í þessu landi, og er ekkert lát á.

Það var talað um á þeim árum, að það ætti að fækka ríkisstarfsmönnum mjög verulega, því að ríkisbáknið væri þanið út og það væri alveg taumlaust, hvernig það gengi fyrir sig, og ef þeir kæmust að, þá yrði nú sannarlega tekið til hendinni og hreinsað alvarlega til. Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1972 voru fastráðnir ríkisstarfsmenn, miðað við júlímánuð 1971 eða einmitt á sama tíma og núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum, 6798, en í fjárlagafrv. fyrir árið 1973 eru þeir, miðað við júlímánuð þess árs, orðnir 7244, og voru þeir taldir í des. s. l. ár 7383 samkv. upplýsingum þeim, sem fjárlaga- og hagsýslustofnunin útvegaði að okkar beiðni. Fastráðnum starfsmönnum hafði því fjölgað um 585 á valdatímabili núv. ríkisstj., frá 1. júlí 1971 til des. 1972. Nú bregður svo kynlega við, að skrá yfir ríkisstarfsmenn hverfur úr fjárlagafrv., hún dettur hreinlega upp fyrir. Hún er búin að vera í fjárlagafrv. í mörg ár, en í fjárlagafrv., sem lagt var fram hér í þingbyrjun, er skráin horfin.

En af hverju er hún horfin? Ég spyr hæstv. fjmrh. að því: Hvers vegna hvarf starfsmannaskráin með fjárlagafrv. fyrir árið 1974, án þess að nokkur skýring væri á því gefin? Ég bað fjárlaga- og hagsýslustofnunina um upplýsingar nú um starfsmannafjöldann, en ég fékk þær ekki. Þeir sögðust ekki vita það. Það væri ekki hægt að telja í þessum stóra og mikla frumskógi ríkisstj. starfsmenn ríkisins. Það er ekki hægt að festa lengur tölur á ríkisstarfsmönnunum að dómi þeirra, sem landinu stjórna. Skráin hverfur, og það er ekki einu sinni hægt að telja, hvað ríkisstarfsmennirnir eru margir. Þetta eru upplýsingarnar, sem Alþ. fær nú við 2. umr. fjárlaga. Þetta þykja góð vinnubrögð nú. Hvaða skýringu gefur hæstv. fjmrh. og ríkisstj. á þessum tiltektum? Hvað eru fastráðnir starfsmenn margir, og hvað eru þeir margir lausráðnir? Væri kannske hægt að fá talningu í þessum frumskógi, fá upplýsingar um það, áður en afgreiðslu fjárlaga lýkur endanlega?

Þetta voru nokkur sýnishorn af nýju stefnunni, sem kölluð var og form. fjvn. sagði að ætti að vera óbreytt.

Hvernig hefur svo tekist að sýna aðhald í ríkisrekstrinum? Hefur kostnaður rn. lækkað? Hefur verið fylgt kostnaði fjárlaganna í reynd í sambandi við rn.? Það væri ekki ónýtt að líta aðeins á smáyfirlit yfir æðstu stjórn ríkisins. Það er ekki á milli ára, mér dettur ekki í hug að fara svo ógætilega að jafnviðkvæmri ríkisstj. og nú situr að völdum. Ég ætla aðeins að bera saman lítillega nokkur rn. við fjárlög og ríkisreikning á fyrsta heila ári núv. ríkisstj. Það gekk svo vel til, að kostnaður við æðstu stjórn ríkisins var 68 millj. kr. hærri í ríkisreikningnum heldur en hann var ákvarðaður í fjárlögunum. Sum rn. tóku stór stökk, enda góðir íþróttamenn margir í þeim stjórnarrn. Iðnrn. átti metið í hástökkinu, það stökk upp fyrir fjárlögin um 73.41%. Þar næst kom heilbr: og trmrn. með 64.9%, en það skal tekið fram, að hástökkvarinn er sami maður. Hann fékk hæði gull- og silfurverðlaunin. Utanrrn. er þriðja í röðinni. Þar átti nú aldeilis að lækka útgjöldin, þegar þeir komust að, en það fær ekki nema bronsverðlaunin og ekki nema 45% stökk. Önnur rn. fá minna, og er leitt til þess að vita, að jafngóður íþróttamaður og mikill garpur og sjútvrh. er nær ekki nema 34.94%. Ég ætla að láta þetta nægja.

Í málefnasamningi ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar frá 14, júlí 1971, sem ég er búinn að lesa oft og mörgum sinnum, þótt ekki sé nema fyrir þau orð aðalhöfundarins. Þar segir um kjaramál, að ríkisstj. „mun leitast við að tryggja, að hækkun verðlags hér á landi verði ekki meiri en í helstu nágranna- og viðskiptalöndum. Í því skyni mun hún beita aðgerðum í peninga- og fjárfestingarmálum og ströngu verðlagseftirliti. Til þess að ná þessu marki, vill stjórnin hafa sem nánast samstarf við samtök launafólks og atvinnurekenda um ráðstafanir í efnahagsmálum. Ríkisstj. mun ekki beita gengislækkunum gegn vanda, sem við er að glíma í efnahagsmálum, en halda áfram verðstöðvun, þar til nýjar ráðstafanir til að hamla gegn óeðlilegri verðlagsþróun verða gerðar.“

Þetta sagði ríkisstj. í sínum málefnasamningi, sem Bjarni Guðnason, sem var að kalla fram í hér áðan, hefur nú til skamms tíma trúað á, en er nú genginn af trúnni. Hvernig hefur nú til tekist að standa við þetta gefna fyrirheit?

Á þessu ári hefur kaupgreiðsluvísitalan hækkað úr 117 stigum í 149.89 stig, eða um 28%. Framfærsluvísitalan hefur hækkað á sama tíma úr 176 stigum í 226 stig eða um 28.41%, — en þá tek ég almanaksárið, væri meira, ef ég tæki frá 1. nóv. til 1. nóv. Byggingarvísitalan hefur hækkað á sama tíma úr 689 stigum í 913 stig, eða um 32.6%. Til samanburðar má geta þess, að byggingarvísitala hækkaði á 12 ára valdaferli fyrrv. ríkisstj. um 403 stig eða um 33 stig á ári að meðaltali.

Síðan núv. ríkisstj. tók við, hefur byggingarvísitalan hækkað um 378 stig á 2½ ári eða um 152 stig að meðaltali á ári, en ríkisstj. lofaði líka í málefnasamningi sínum að hugsa fyrir húsnæðismálunum og draga úr óhóflega miklum byggingarkostnaði, sem þá var. Segir í pésanum þeirra, að hún ætli að gera ráðstafanir til að lækka óhóflegan byggingarkostnað almennings, m. a. með lækkun byggingarkostnaðar, hagstæðari lánum og afnámi vísitölubindingar húsnæðislána“. Og hún hefur staðið heldur betur við fyrirheit sitt og lækkað byggingarkostnaðinn, þegar hún hefur nú á einu ári hækkað byggingarvísitöluna um 32.6%, og á tveggja og hálfs árs valdatíma hefur byggingarvísitalan, eins og ég sagði áðan, hækkað um 378 stig. Þannig hefur verið staðið við þetta fyrirheit.

Það verður því ekki sagt, að núv. ríkisstj. hafi staðið vel við það fyrirheit sitt að halda verðbólgunni í skefjum. Bera þessar verðhækkanir ríkisstj. fagurt vitni um skelegga baráttu við verðbólguna? Ég spyr talsmenn stjórnarinnar.

Mig langar líka til þess að nefna hér nokkur atriði um verðhækkanir, sem hafa átt sér stað á hinum algengustu vörum, frá því að núv. ríkisstj. tók við, og ég miða það við verð á vöru í júlíbyrjun 1971 og nú við verð á vöru 10. des. 1973. Og þá ætla ég að minna á örfá atriði.

1 kg. af súpukjöti kostaði þá 124.60 kr., en kostar núna 256.00 kr., hækkun 105%. Vel af sér vikið að halda dýrtíðinni niðri. Lítri mjólkur 12.60 kr. 1971, núna 25.30 kr., 100% hækkun. Bensínlítrinn kostaði 16 kr., er nú kominn í 26 kr. Það er bara smáhækkun, ekki nema 62%. Það er von á góðu mjög fljótlega eftir áramótin. Olíulítrinn kostaði 1. júlí 4.39 kr., en lækkaði, eftir að núv. ríkisstj. tók við völdum, vegna þess að hún afnam söluskatt af olíu, sem var mjög sanngjarnt og eðlilegt af þeim að gera, og þá lækkaði olíulítrinn niður í 3.90 kr., en nú er olían komin í 7.70 kr., en miðað við verð, sem var 1. júlí, hefur orðið 75% hækkun á olíu. Ekki skal ég álasa ríkisstj. fyrir það, sem á eftir að koma í þeim efnum, því að það eru áhrif, sem hún ræður ekki við. Nógar eru sakir hennar, þótt ekki sé verið að bæta á hana því, sem hún ræður ekki við og á ekki skilið. Hveiti kostaði 22.90 kr., er komið í 44 kr., eða 92% hækkun. Strásykur kostaði 25.50 kr., er kominn í 53 kr., 107% hækkun þar. Smjörið var í 130 kr., komið í 356 kr., 173% hækkun þar. Vel af sér vikið. Fóðurbætir, kúablanda, tonnið kostaði þá 9 310 kr., það er komið núna í 18622 kr., 100% hækkun þar. Þetta eru örfá sýnishorn af því, sem hefur áunnist, síðan þessi ríkisstj. tók við völdum, sem átti ráð undir hverju rifi, áður en þeir komu í valdastólana, og sagðist ætla að berjast skeleggri baráttu við verðbólguna, hvernig henni hefur fatast flugið.

Eru stjórnarliðar ánægðir með ríkisstj. sína? Þeir voru 32 í upphafi valdatíma núv. ríkisstj. Nú hefur einn, eins og ég sagði áðan, gengið af trúnni. Honum hefur ofboðið, hvernig allt er komið, og hann hefur sagt skilið við þessa fjölskyldu og vill ekki eiga mjög mikið samneyti við hana síðan, að hann hefur sjálfur sagt að undanförnu, hvað sem kann í að skerast, ég skal láta það ósagt.

En eigum við að líta á, hvað annar stjórnarþm. hefur að segja um stefnu ríkisstj. Það eru ekki eftir nema 31, og ef hann er líka orðinn veikur í trúnni, þá fara ekki að vera eftir nema 30. Og þeir ætla að ganga af trúnni í stafrófsröð, eins og allt bendir til. Bjarni Guðnason er genginn af trúnni. En sá, sem ég ætla nú að vitna hér til, er gáfaðasti maður Framsfl., Björn Pálsson, maður, sem hefur meira fjármálavit en hinir 16 í Framsfl. til samans, það fer ekki á milli mála og öll þjóðin trúir og veit, að það er satt og rétt. Hann skrifaði ríkisstj. sinni bréf 30. nóv. 1972, og hann segir í þessu bréfi, að líkur séu á, að fjárlög muni hækka um ca. 100% á tveimur árum, ef engar ráðstafanir verði gerðar til lækkunar, segir þessi gáfaðasti þm. Framsfl. Og hann bætir við: „Fólkið óttast gengislækkun, og eyðslan eykst.“ En ekki hefur nú skriðan orðið minni, síðan hann skrifaði þetta bréf.

Og hann segir: „Ég álít, að stjórnarskútunni verði siglt á sker, ef eigi er breytt um stefnu.“ Enda er hún löngu komin á sker. Það er ekki nokkur leið að hreyfa hana. Það var ekki breytt um neina stefnu og engin stefna til. En hann var ekki kominn lengra á þroskabrautinni, blessaður, en það fyrir ári að hann segir: „Ég hef eigi áhuga fyrir stjórnarskiptum nú og leyfi mér því að benda stjórninni á nokkur atriði, sem mundu og gætu valdið breyttri stefnu“. Það er ekki að spyrja að tryggðinni hjá honum, enda hefur þetta verið einhver tryggasti maður hæstv. forsrh, og staðið best við bakið á honum, og þess vegna vildi hann nú leiðrétta áttavitann hjá stjórninni fyrir ári og kemur þar með ákveðnar hendingar, en svo hefur honum verið þungt niðri fyrir, að eftir að hann skrifaði þetta bréf, fór hann litlu síðar norður til búa sinna og tók ekki þátt í afgreiðslu fjárlaga. Hann lagði til að lækka fjárlögin um ca. 5 milljarða. Hann lagði til að lækka tekjuskatt þannig, að persónufrádráttur yrði ca. 500 þús. kr. fyrir hjón með 2–3 börn, og hafa heildartekjuskatt eigi yfir 30% á venjulegar vinnutekjur. Hins vegar segir hann: „að skattleggja mætti allt að 70% af nettótekjum þeirra, sem hafa margar millj. án mikils erfiðis.“ En hann fer ekki nánar út í það, hvernig breytingin átti að vera á skattstiganum og hvað erfiðið ætti að vera mikið. Látum það liggja á milli hluta.

En hann kom með mjög athyglisverða till. í þessu bréfi til ríkisstj. Þeir hafa sennilega allir geymt bréfið, ég trúi því ekki, að þeir hafi kastað bréfinu. Hann kemur með þá till., að launþegum yrði boðin tekjuskattslækkun gegn því, að þeir féllu frá umsamdri kauphækkun 1. mars, en í ljós kemur við hlutlausa athugun, að atvinnuvegirnir gætu eigi greitt hærri laun, en að öðrum kosti verði 40 stunda vinnuvika gerð raunhæf, þannig að kaffitími verði eigi reiknaður sem vinnutími og unnið verði til hádegis á laugardögum, nema 1–2 mánuði að sumrinu. Það segir hann, og er skarplega athugað, að muni draga úr víndrykkju á föstudagskvöldum og skapa betri þjónustu. En lækkun tekjuskatts þarf að vera það mikil, að launþegar græði að mun á slíkum samningum.

En hún var nú ekki aldeilis á því, ríkisstjórnin, að vilja draga úr víndrykkju, því að þeir byggja alltaf meira og meira á tekjum af brennivínssölu. En það vantar ekki hræsnina í suma stjórnarþm. og jafnvel fleiri. Þeir flytja till. um að draga úr vínveitingum og öðru slíku, en rétta svo upp höndina eins og hún mögulega kemst til að auka tekjur ríkisins af brennivínssölu og að hafa aðra fulla.

Hinn gáfaði þm. Framsfl. segir: „Ríkisstj. á svo að snúa sér til þjóðarinnar og biðja fólkið að draga úr eyðslu.“ En hefur ríkisstj. gert það? Nei, hún hefur farið alveg öfugt að við ráðleggingar Björns á Löngumýri. Hún hefur sjálf eytt meiru heldur en nokkru sinni fyrr. Hún hefur sjálf kvatt beint og óbeint þjóðina að herða á eyðslunni, og það hefur sannarlega verið gert. Þannig lítur þetta út.

Skal ég nú ekki hafa um þetta fleiri orð. Við gerð fjárlaga haustið 1971, þá boðaði ríkisstj. gagngerar breyt. í skattamálum. Við sjálfstæðismenn (Forseti: Hv. þm., ég var búinn að lofa því, að fundarhlé yrði klukkan 4, kannske hv. þm. fyndist þarna góð kaflaskil í ræðunni?) Já, þetta væri ágætt. Ég þigg að fá kaffi líka. Ég á mikið eftir. — (Fundarhlé.)

Herra forseti. Við gerð fjárlaga haustið 1971 boðaði ríkisstj. gagngerar breyt. í skattamálum. Við sjálfstæðismenn vöruðum við þeim áformum, sem ríkisstj. hafði uppi í þeim efnum, þar sem við töldum slíkar aðgerðir í efnahagsmálum gera hvort tveggja í senn að hækka fjárlögin geigvænlega og verða á þann hátt hættulega virkur verðbólguvaldur í þjóðfélaginu og mundi sú skattahækkun höggva háskalega nærri getu skattborgaranna, einkum þeirra, sem minna mættu sín.

Þessi illi grunur okkar hefur fullkomlega verið staðfestur síðan. Kröfur launþegasamtakanna beinast nú fyrst og fremst að því að lina skattpíningu síðustu ára, fremur en hækka launataxta, og skal engan undra það, þegar borin er saman skattgreiðsla einstaklinga og félaga árið 1971 og síðan. Þegar skattafrv. ríkisstj. voru lögð fram haustið 1971, héldu ráðh. því fram, að hér væri um skattalækkanir að ræða. Reyndin hefur orðið önnur, og er rétt að láta staðreyndir tala. En þegar við látum staðreyndir tala, þá á ég við það að gefa yfirlit yfir, hvað voru álagðir skattar á árinu 1971 og hverjir voru álagðir skattar árin 1972 og 1973.

Samtals var álagður tekju- og eignarskattur á öllu landinu á árinu 1971, síðasta ári viðreisnarstjórnarinnar, 1 milljarður 525 millj. kr. Þessi skattaupphæð hækkaði á fyrsta ári þessarar ríkisstj. upp í 4 milljarða 449 millj. kr., og á yfirstandandi ári fór hún upp í 5 milljarða 759 millj. kr. Hækkun tekju- og eignarskattsins hefur því orðið á tveggja ára tímabili þessarar ríkisstj. hvorki meira né minna en 377.7%. Það eru smámunir hækkanirnar á vöruverðinu á við hækkanir, skattanna eins og ég hef nú skýrt frá. En það er líka eftirtektarvert við þessar skattaálögur, hvað munurinn er mikill eftir því, í hvaða skattumdæmum þær eru, hvað þær koma hart niður sérstaklega á héruðum, þar sem fiskvinnsla og sjómennska er allsráðandi og raunar höfuðatvinnuvegurinn. Þar hafa tekjurnar hækkað, og þar hefur ríkissjóður seilst einna dýpst í vasa þess fólks.

Á Reykjavíkursvæðinu, skattumdæmi Reykjavíkur, hefur hækkunin orðið 367.4% eða aðeins neðan við meðallag, en skattaupphæð Reykvíkinga hefur hækkað úr 779 millj. kr. í 2862 millj. Í Vesturlandsumdæmi hefur hækkunin orðið 447.6%, og í Vestfjarðaumdæmi er hækkunin mest, eða 504%, í Norðurlandi vestra er hún 468%, í Norðurlandi eystra 368%, á Austfjörðum 400%, í Suðurlandsskattumdæmi 480%, í Vestmannaeyjum 300%, en það er eðlilegt, að þeir séu lægstir, vegna þeirra ráðstafana, sem gerðar voru á þessu ári, og í Reykjanesumdæmi 357%. Það má því segja, að þar hafi skattahækkunin orðið minnst og í Reykjavíkurskattumdæmi.

Í málefnasamningi ríkisstj. margumrædda eru fyrirheit gefin um, að nú skuli breytt um stefnu í skattamálum með valdatöku þessarar ríkisstj. og skattabyrðin koma réttlátar niður, þ. e. að láta breiðu bökin bera skattana. En hverjar eru svo staðreyndir í þessum málum? Allt stefnir í sömu átt og komið var hjá hinni fyrri vinstri stjórn, sem sat að völdum á árunum 1956–1958. Hver hefur svo þróunin orðið?

Á árinu 1959 voru 61900 skattgreiðendur, eða 79.2% af skattgreiðendum, sem greiddu skatt, en þeir, sem engan skatt greiddu, voru 16261, eða 20.8%. 1969 voru skattgreiðendur 15080, eða 20.84%, en 63620, eða 79.16%, greiddu engan skatt. Nú er þessu öllu breytt, eins og þetta var á dögum vinstri stjórnarinnar sálugu. Nú á þessu ári, 1973, eru 57987 skattgreiðendur, sem greiða 57.5%, en 42855, sem greiða engan skatt, eða 42.5%. M. ö. o. : þegar viðreisnarstjórnin réð, voru 20.84%, sem greiddu skattana, en 79.16%, sem greiddu enga skatta. Þetta sýnir, að þá voru ekki skattlagðar hinar almennu tekjur launþega í landinu. En nú er breytingin orðin sú, að í stað 20.84%, sem greiddu skattana, greiða nú 57.5% skattana, en 42.5% greiða nú enga skatta á móti 79.16%, eftir að viðreisnin hafði farið höndum um skattalögin. Þetta er nú munurinn á þessum slæmu kapítalistum, sem frsm. meirihl. var að ræða um áðan, og þessum kapítalistum, sem nú stjórna í ríkisstj., þannig hafa þeir búið að skattamálum almennings. Þetta er staðreynd, sem liggur ljós fyrir, og þýðir hvorki fyrir einn né annan ráðherranna eða annað stuðningslið ríkisstj. að mæla á móti. En það er ekki furða, þó að sumir menn séu ánægðir og fari á kostum í nál.

Skattalöggjöf núv. ríkisstj. var vanhugsuð. Breyt., sem gerðar voru frá fyrri löggjöf, voru ekki gerðar vegna þess, að gagngerra breytinga var þörf, heldur af því og eingöngu af því, að það mátti ekki styðjast við skattalöggjöf fyrrv. ríkisstj. og meta og vega á skynsamlegan hátt, hvernig hún þróaðist, og gera á henni eðlilegar breytingar, eftir því sem reynsla og þekking teldi eðlilegt. Það er eftirtektarvert, að horfið var frá því að leyfa einstaklingum að draga frá tekjum sínum viðhald húseigna, eins og gert var með þeirri nýju skattalöggjöf, heldur afmarka ákveðna prósentu sem leyfilegan frádrátt. Þetta hefur það í för með sér, að þeir, sem halda eignum sínum vel við, fá engan frádrátt umfram þá prósentu, sem hæstv. fjmrh. og ríkisstj. skammtar af rausn sinni hverju sinni. Þetta hefur leitt til þess, að það er hætt í verulegum mæli að gefa upp þau útgjöld, sem fasteignaeigendur verða fyrir, þannig að skatturinn getur ekki haft eftirlit með því, hverjum er greitt fyrir viðhald fasteigna í landinu vegna þess, að fasteignaeigendur sjá enga ástæðu til og hafa engan áhuga fyrir að gefa upp þessa launamiða fyrst þeir fá ekki að njóta þess við álagningu skatta. Ég held, að þetta dæmi sanni og sýni, hvað vanhugsaðar voru flestar aðgerðir núv. ríkisstj. í skattamálum. Þetta hefur skaðað ríkissjóð að mínum dómi um gífurlegar upphæðir í sköttum. Þetta er staðreynd líka, sem ekki þýðir að mæla á móti, og það var frámunalega aulalega að staðið að gera þessa breytingu í sambandi við skattalögin, ein og margt fleira, sem ég ætla ekki að koma inn á hér, vegna þess að það þarf að komast yfir það mikið efni. Það er ekki heldur úr vegi í þessu sambandi að geta þess, hvað kostar að leggja skattana á, hvað ríkið verður að borga fyrir að leggja skattana á. Hvað kosta embætti allra skattstofa á landinu, ríkisskattanefnd, Gjaldheimtan í Reykjavík og embætti ríkisskattstjóra? Þessar stofnanir kostuðu á árinu 1971 82 millj. 666 þús., á árinu 1972 fór þessi kostnaður upp í 108 millj. 923 þús., og á þessu ári er hann talinn 147 millj. 979 þús. samkv. fjárl., og hann er áætlaður nú í fjárlagafrv. 183 millj. 827 þús. kr. M. ö. o., álagning skattsins og vinnan við skattana og kostnaðurinn hefur hækkað um 102–103% frá árinu 1971 til þess fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir. Þetta eru engar smáupphæðir. Þar fyrir utan er auðvitað allur kostnaðurinn við innheimtu skattanna, nema Gjaldheimtunnar í Reykjavík. Ég held, að þarna hafi ekki verið tekinn upp sparnaður eða dregið úr útgjöldum frá því, sem þau voru, áður en þessir herrar komu í ríkisstj., sem núna situr.

Allar aðgerðir stjórnvalda síðasta hálft þriðja ár hafa miðað að því, að ríkið er sífellt að taka meira af þjóðarframleiðslunni í sínar þarfir. Á árinu 1965 var þjóðarframleiðsla á markaðsverði, verð þjóðarframleiðslu 21 milljarður 257 millj., kr., en tekjur samkv. A-hluta ríkisreiknings 3 milljarðar 690 millj. kr., en hlutfall ríkisins í þjóðarframleiðslunni var þá 17.4%.

Á árinu 1970, hækkaði þjóðarframleiðslan í 42 milljarða 833 millj., en tekjur samkv. ríkisreikningi 9800 millj., og hlutfallið fór úr 17.4% í 22.9%.

1971 hækkar þjóðarframleiðslan upp í 53 milljarða 210 millj. kr. og tekjur á ríkisreikningi í 13 milljarða 258 millj., en hlutfallið fer þá upp í 24.9% Þá er líka komin vinstri stjórn.

Á árinu 1972 er þjóðarframleiðslan komin í 65 milljarða 450 millj. kr., en tekjur samkv. ríkisreikningi 17 milljarðar 837 millj., og þá fer hlutfallið í 27.2% Það eru engin smástökk, sem þetta hlutfall tekur frá árinu 1970 til 1972, þrátt fyrir gífurlega hækkun á þjóðarframleiðslunni. Og á þessu ári er þjóðarframleiðslan talin munu nema 89 milljörðum og 100 millj. kr., en ég hef leyft mér að áætla tekjur á ríkisreikningi eftir fund með forstjóra og starfsmanni hagrannsóknadeildarinnar 23 milljarða 970 millj. kr., þannig að hlutfallið verður um það bil 27%.

Útgjöld fjárlagafrv. eru nú komin í nálega 28.1 milljarð, ef miðað er við, að till. fjvn., sem hér liggja fyrir við þessa umr., verði allar samþ. Það er sjáanlegt, að við 3. umr. fjárl. eiga þau eftir að hækka stórkostlega frá því, sem þau nú liggja fyrir.

Lífeyristryggingar og sjúkratryggingar eiga eftir að hækka um nokkur hundruð millj. Ef bætur eru hækkaðar hjá lífeyristryggingum um 7.4%, þ. e. samsvarandi kaupgreiðsluvísitöluhækkun sept.-des. 1973, yrði dæmið þannig, að heildarlífeyristryggingar eru samkv. fjárlfrv. 3 milljarðar 887.5 millj. kr., 86% af því eru hluti ríkissjóðs, en þá mundu lífeyristryggingarnar nema 3 milljörðum 343.3 millj. kr., og með 7.4% hækkun vísitölunnar frá sept. til des. mundi fjárlagafrv. hækka sem lífeyristryggingu nemur um 247.4 millj. kr.

Sjúkratryggingarnar hækka líka verulega, en útgjöld vegna sjúkratrygginga í frv. eru 3987.9 millj. kr., en þá er gert ráð fyrir 13%–14% hækkun daggjalda frá september-verðlagi þessa árs, en þá voru í gildi daggjöld, þegar frv. var samið, sem ákveðin voru 1. júlí á þessu ári.

Launaliðir fjárlagafrv. eiga eftir að hækka mikið, því að þeir eru í A-hluta frv. miðaðir við vísitölu septembermánaðar, en heildarlaun í A-hluta frv. nema 5 milljörðum 809.6 millj. kr., en miðað við kaupgreiðsluvísitölu 1. des., 149.89 stig, hækka launin á næsta ári vegna þessa um 430 millj. kr.

Í B-hluta frv. eru launaliðir ýmist miðaðir við kaupgreiðsluvísitölu eins og hún var í marsmánuði eða í septembermánuði, en þá þurfa launin í þessum hluta fjárlagafrv, að hækka um hvorki meira né minna en 560 millj. kr., en heildarlaunin í B-hlutanum eru 360 millj. kr.. Þar af eru 138.7 millj. kr. miðaðar við laun í sept. 1973, en 228.2 millj. kr. við laun í mars 1973. Ef færa á þessi laun í des: laun yrði hækkunin þannig, að 1384.7 millj. hækkuðu í um 7.4%, um 102.5 millj. kr., en 2218.2 millj. hækka hvorki meira né minna en um 20.6%, eða um 456.9 millj. kr. Samtals er því hækkunin 559.4 millj. kr. samkv. þessum útreikningum.

Þá er vitað, að samningar við opinbera starfsmenn koma til með að auka verulega útgjöld ríkissjóðs á næsta ári, en sú stærðargráða er enn óþekkt.

Auk þessa, sem ég hef nefnt, eru mörg mál og erindi, sem send hafa verið, óafgreidd. Ég vil t. d. í þessu sambandi nefna eitt erindi, sem ekki hefur fengið afgreiðslu og form. fjvn. nefndi ekki í sinni ræðu, þegar hann talaði um óafgreidd erindi, enda var það ekki tæmandi upptalning, sem hann gerði, en það sýnir, hvað mikið ber á milli, frá því að viðkomandi rn. og fjárlaga- og hagsýslustofnun hafa farið höndum um till. hinna ýmsu stofnana og gengið frá fjárlagafrv., að í till. Hafrannsóknastofnunarinnar og fjárlagafrv. ber hvorki meira né minna en um 63 millj. kr. á milli.

Nú er ég ekki með þessum orðum að segja, að það sé heilög skylda að taka hverja tölu inn, sem stofnun fer fram á. En hitt er heilög skylda, að fara ítarlega ofan í það, sem berst, meira en að hlusta á eða taka við bréfum stofnananna, heldur meta það og vega, hvað er hægt að fara í, hverju er hægt að sleppa, til þess að fjárlagafrv. fari ekki upp úr öllu valdi. Þar er ekki nóg að gera kröfur á hendur stofnunum almennt ef það á svo jafnframt að skera niður það, sem þær telja, að þurfi að framkvæma á viðkomandi fjárlagaári. Hitt verður svo að vera ákvörðunarvald Alþ. og þá fjvn., hvað skuli leyft á hverjum tíma, og skera það af, sem hægt er að komast hjá í hverju tilfelli, til þess að lækka útgjöld á viðkomandi fjárlagaári.

Þá eru komnar fram kröfur heildarsamtaka Alþýðusambands Íslands um miklar kauphækkanir, og má búast við verulegum kauphækkunum, sem munu hafa áhrif á fjárlögin og atvinnureksturinn í landinu. Sjómannasamtökin hafa sett fram sínar kröfur um hækkun skiptaprósentu og hækkun á lágmarkskaupi. Sjómannasamtökin leggja fram kröfur um miklar hækkanir á kauptryggingu. Sem dæmi má nefna, að 1. vélstjóri, sem nú, miðað við kaupgjaldsvísitölu 1. des., er með kauptryggingu 58564 kr., þá er farið fram á 54 þús. grunnlaun á mánuði, sem munu þá verða um 75600 kr. Hásetar krefjast 36 þús. kr. kauptryggingar í grunnlaun, sem munu nema í kringum 50400 kr. á mánuði, miðað við núv. vísitölu, en þeir hafa nú frá 1. des. kauptryggingu 39042 kr. Þá er krafist hækkunar mikillar á skiptaprósentu, og sömuleiðis má segja, að við lauslegt mat á sameiginlegum kröfum heildarsamtaka Alþýðusambands Íslands, eingöngu miðað við byrjunarlaun, þá má áætla, að velflestir launþegar, sem taka kaupgjald samkv. samningum Verkamannasambands Íslands, krefjist 40.9% hækkunar. Einu undantekningarnar frá því eru nokkrir taxtar, sem skipta ekki mjög miklu máli. En miðað við samanreiknaðar tölur starfsaldurshækkana kauptaxta nokkurra verkalýðsfélaga í Reykjavík er krafan, að laun undir 31 þús. kr. Á mánuði hækki um 11223 kr. að meðaltali, og krafist er, að laun hærri en 31 þús. kr. hækki öll um 12676 kr. á mánuði. Þá er krafist 15% hækkunar á alla fiskvinnu og leggja þá 15% ofan á 40.9% hækkunina. Krafan um hækkun í þessari vinnu nemur því hvorki meira né minna en 62%. Auk þessa eru gerðar margar aðrar kröfur. Það lítur því ekki beint vel út með þróun kaupgjalds og verðlagsmála, og það er ekki margt, sem bendir til þess, að það dragi úr brotsjó óðaverðbólgunnar á næstunni. Hvar eru nú öll úrræðin, sem núv. ríkisstj, átti, þegar þessir sömu menn voru í stjórnarandstöðu? Nú finnst mér vera kominn tími til, að þeir láti eitthvað heyra frá sér af öllum þeim úrræðum, sem þeir áttu þá í handraðanum.

Hvernig kaup- og kjarasamningar kunna að verða til lykta leiddir, skal hér ósagt látið. En eitt má fullvíst telja, að verulegar hækkanir verða á öllu kaupgjaldi, sem mun hafa í för með sér vaxandi tilkostnað við atvinnureksturinn. Tvær höfuðástæður fyrir nýrri kröfugerð launastéttanna eru algert aðgerðarleysi ríkisstj. til að koma í veg fyrir þá háskalegu verðlagsþróun, sem á sér stað í efnahagsmálum og leitt hefur til þeirrar mestu óðaverðbólgu, sem nú flæðir yfir þjóðina. Hin ástæðan er gengdarlaus skattpíningarstefna, sem launþegasamtökin í landinu stynja undir. Ég skal taka fram til þess að fyrirbyggja allan misskilning, að í þeirri prósentu, sem ég nefndi í sambandi við kröfur aðildarsamtaka ASÍ, þá er í launakröfum þeirra talið, við lauslegt mat, eingöngu miðað við byrjunarlaun á nokkrum sameiginlegum kröfum þeirra, sem gerir auðvitað hækkunarprósentuna hærri en ella.

Þá ætla ég að koma nokkuð að byggðamálum eða byggðastefnunni.

Í athugasemdum við fjárlfrv. segir, að með fjárlfrv. sé hafinn nýr áfangi í framkvæmd byggðastefnu þeirrar, sem ríkisstj. markaði við upphaf valdatöku sinnar, með ákvörðun um lagasetningu á síðasta Alþingi um að efla stofnlánasjóði atvinnuveganna, svo sem Stofnlánadeild landbúnaðarins, Fiskveiðasjóð og sjóði iðnaðarins, með hækkuðu framlagi. Framlag til Byggðasjóðs hefur verið óbreytt nú um hríð, 100 millj. kr. En í þessu frv. hækkar hluti til sjóðsins af árgjaldi, sem Álverksmiðjan í Straumsvík greiðir, um hvorki meira né minna en 1900 þús. Það er eina hækkunin, sem á sér stað til Byggðasjóðs á þessu ári, eða þá á s. l. ári, í þeirri dýrtíðaröldu, sem átt hefur sér stað, þegar allir vita, að framkvæmdamáttur kemur til með og hefur minnkað mjög verulega, frá því að þessi upphæð var upphaflega ákveðin. Þetta virðist ekki vera stórkostlegur áhugi á því að auka framlög til byggðamálanna, ekki a. m. k, í framkvæmd. En áhuginn er mjög mikill í orði hjá mörgum af stuðningsmönnum ríkisstj. Einu sinni höfðu menn mikinn áhuga á að efla Byggðasjóðinn og það mjög myndarlega. Það var borið fram hér á Alþ. frv. til l. um stofnun Byggðajafnvægissjóðs ríkisins og ráðstafanir til að stuðla að verndun og eflingu landsbyggðar og koma í veg fyrir eyðingu lífvænlegra byggða. Þetta var nú bara fyrirsögnin á frv. Fyrsti flm. þessa frv. var ágætur baráttumaður fyrir byggðajafnrétti, nýlátinn þm. og vinur okkar, Gísli heitinn Guðmundsson. En enn þá eru flm. þessa frv. nokkrir á Alþ. S. flm. frv. er ekki alveg áhrifalaus maður nú, því að það er sjálfur Halldór E. Sigurðsson fjmrh., og 4. flm. frv. er ágætur vinur okkar í fjvn., Vilhjálmur Hjálmarsson, mikill áhugamaður um byggðamál. Og 5. flm. frv. er Ágúst Þorvaldsson, líka fjvn., maður og vel hugsandi í byggðamálum og stór og stæðilegur að auki. Þessir menn fluttu þetta frv. á sínum tíma, höfðu mikinn áhuga á því, og þá voru slæmir menn, sem vísuðu þessu frv. til ríkisstj. og það náði ekki fram að ganga. Í 9. gr. þessa frv. segir: „Tekjur Byggðajafnvægissjóðs eru 2% af árlegum tekjum ríkissjóðs samkv. ríkisreikningi, í fyrsta sinn af tekjum ársins 1972, sem greiðist sjóðnum í byrjun hvers mánaðar af innheimtum tekjum næsta mánaðar á undan, í fyrsta sinn í byrjun febrúarmánaðar 1972.“ Þannig mundi láta nærri, að þessar tekjur væru nú komnar yfir 500 millj., ef þetta frv. þeirra félaga hefði náð fram að ganga á sínum tíma. En það hefur líka verið tækifæri til þess að láta þessi ákvæði taka gildi, þó að fyrrv. stjórnarflokkar hafi ekki viljað það, því að nú eru þessir menn hæstráðandi hér á Alþ., og hefði því verið mjög létt verk að fá þessu framgengt. Ég skal minna hv. flm, á það, að við 1. þm. Reykn. tókum upp þessa till. óbreytta á fyrsta þingi þessarar ríkisstj. um það, að framlag úr ríkissjóði skuli vera 2% af árlegum tekjum ríkissjóðs, alveg óbreytt úr frv. þeirra framsóknarmanna. Þessa till. tókum við upp í sambandi við brtt. við frv. til l. um Framkvæmdastofnun ríkisins, og þá fengu flm., flokksbræður þeirra og aðrir hollvinir byggðastefnu og strjálbýlis tækifæri til þess að koma þessu fram og tryggja Byggðasjóði verulegt fjármagn. En þá skeði það, að þegar þessi till. okkar nafnanna kemur til atkv., þá er viðhaft nafnakall og þá greiða allir stjórnarliðar, allir sem einn, atkvæði gegn þessari till., gegn þessu afkvæmi þessara ágætu manna, sem ég var að tala um áðan, og till. var strádrepin. Það var einn framsóknarmaður, sem ekki greiddi atkv. gegn till. Það var Gísli heitinn Guðmundsson. Hann greiddi ekki atkv. Hinir drápu allir sitt eigið afkvæmi, og þar við situr.

Svo eru þeir að furða sig á því, þó að ungir framsóknarmenn og Möðruvallahreyfingin séu ekki ánægð með framlagið til byggðamála. Að vísu er Möðruvallahreyfingin nokkuð hátt stemmd í þessu. En það má eitthvað vera á milli að standa við fyrri gerðir og tillögur eða ganga til móts við Möðruvallahreyfinguna varðandi framlag til byggðamála. Ég vil nú mjög eindregið hvetja hæstv. fjmrh. og flm. þessa frv. að taka það nú upp úr pússi sínu og sjá, hvort þeir geti ekki sætt sig við að taka upp aftur þetta áhugamál sitt, en láta það ekki liggja í þagnargildi, þegar þeir ráða ferðinni í fjármálum og við stjórn landsins.

Ég held, að það sé ekki of mikið, sem Byggðasjóður hefur yfir að ráða. Að vísu tók hann við eignum og tekjum Atvinnujöfnunarsjóðs með gildistöku l. um Framkvæmdastofnun ríkisins, um Byggðasjóð, og á s. l. ári, 1972, voru veittar 480.4 millj. kr. úr Byggðasjóði, en af þeirri upphæð voru hvorki meira né minna en 297.7 millj. kr. lánaðar til nýsmíði fiskiskipa og kaupa á notuðum skipum samkv. sjálfvirkum reglum Byggðasjóðs, sem giltu það ár. Annað fjármagn, sem kom til skiptanna, nam því ekki nema 182.7 millj. kr., sem má segja, að hafi verið hin raunverulegu byggðalán, því að hitt voru sjálfvirkar reglur, sem allir fengu lánað eftir, hvar sem þeir voru staðsettir á landinu. En byggðalánin skiptust eftir landssvæðum þannig, að Vesturland fékk 24.3 millj., Vestfirðir 23.3, Norðurl. v. 30.5, Norðurl. e. 41 millj., Austfirðir 48.7 millj. og Suðurland 14.8 mill,j. Þetta sýnir nú út af fyrir sig, að það er fullkomin ástæða til þess að gera átak í sambandi við byggðamálin vegna óðaverðbólgunnar, sem tröllríður íslensku efnahagslífi, því að lán Byggðasjóðs fara sífellt minnkandi hennar vegna.

Það er mikið talað um það, hvað gert hafi verið fyrir landsbyggðina og hvað atvinnuleysið hafi gersamlega horfið úr landinu, og það hafi nú verið einhver munur eða á tímabili viðreisnarstjórnarinnar. Sá, sem þetta sagði hér áðan, gat þess ekki, hefur sennilega ekki haft tíma til þess, — ekki hefur það verið af því, að hann hafi ekki viljað láta það koma fram, — hvað hafði skeð í íslensku efnahagslífi, þegar verðfall varð á velflestum útflutningsafurðum okkar á árunum 1966–1967. Það hafði þær afleiðingar, að atvinnuleysi var víða í okkar landi og ekkert síður hér í þéttbýlinu en víðast hvar annars staðar. Sumir staðir úti um land voru blessunarlega lausir við atvinnuleysi á þessum árum. Staðir eins og t. d. Vestmannaeyjar, velflestir staðir á Vestfjörðum, velflestir útgerðarstaðir hér á Reykjanesinu sluppu að mestu eða jafnvel öllu leyti við atvinnuleysi á þessum tíma. En það rétti fljótt við, og þá voru gerðar ráðstafanir í efnahagsmálum. Það rétti fljótt við sala á sjávarafurðum. En ef við ætluðum að bera þessi tvö ár saman við það, sem núna er, og þær aðstæður, sem við búum núna við, þá þolir það engan samanburð, vegna þess að afurðaverðið á velflestum afurðum okkar hefur aldrei verið hærra en nú á síðustu árum. Þess vegna er svo mikil vinna, en það er líka vandi, þegar mikil vinna er og mikil spenna myndast í þjóðfélaginu, að gæta þá að sér og gera þessa spennu ekki meiri en ástæða er til, því að ef hún er gerð meiri, ef boginn er þaninn jafngeigvænlega og gert hefur verið, þá er það mesti verðbólguvaldur, sem við er að glíma, og það er það, sem liggur fyrir.

Ég skal játa það, að framkvæmdir á dögum eða árum viðreisnarstjórnarinnar hafa verið ákaflega mismunandi eftir því, hvar hefur verið á landinu. Á sumum stöðum voru framkvæmdir sáralitlar, og ég hefði þess vegna haldið, að þegar fór að batna verulega um, og það var þegar byrjað á því að sjá góðan bata á velflestum stöðum upp úr árinu 1970, yrði því haldið áfram og þess yrði vandlega gætt að ýta heldur undir framkvæmdir, þar sem framkvæmdir hafa verið litlar á undanförnum árum. Ég skal játa það, að núv. ríkisstj. og raunar fyrrv. ríkisstj. líka gerðu margt í þessum efnum, og núv. ríkisstj. hefur gert margt vel í þessum efnum. En það er ýmislegt, sem hún hefur vanrækt og mig langar til, þó að það sé ekki stórt mál, að minnast hér á eitt mál, hvernig kerfið getur hagað sér og staðið í vegi fyrir nauðsynlegum, sjálfsögðum og eðlilegum framkvæmdum í litlu og fátæku byggðarlagi, þar sem ekkert hefur verið byggt í fjöldamörg undanfarin ár. Á fjárl. ársins 1971 var veitt smáupphæð á fjárl. til undirbúnings byggingar læknisbústaðar norður á Hólmavík í Strandasýslu, en þar hafði ekki verið byggt íbúðarhús um nokkurt skeið. Undirbúningur átti sér stað hjá heimamönnum, og fjvn. lagði til árið eftir að veita í þennan læknisbústað 1500 þús. kr., í fjárl. ársins 1973 voru enn veittar 1500 þús. kr. og í fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir, eru einu sinni enn veittar 1500 þús. kr. M. ö. o.: með þessu fjárlagafrv. verður búið að veita í þennan læknisbústað á 4 árum 4.7 millj. kr. En það hefur staðið á kerfi, sem var sett á, lögum um skipan opinberra framkvæmda, sem voru sett á valdatíma viðreisnarstjórnarinnar, en það frv. hlaut alveg sérstaka náð hjá talsmönnum stjórnarandstöðunnar á þeim tíma, en hafði aftur lítið og takmarkað fylgi hjá okkur sumum stjórnarþm. á þeim tíma. Ég greiddi t. d. ekki atkv. og var á móti þessu frv., en núv. hæstv. fjmrh. mælti með því hér í Nd. og hæstv. forsrh. sem talsmaður Framsfl. í Ed. fagnaði mjög tilkomu þessa eftirlits. Nú eru þessi lög undir stjórn hæstv. fjmrh., og þeim hefur verið beitt þannig gagnvart þessu litla byggðarlagi, að þessi læknisbústaður hefur ekki fengist byggður enn þá. Það má ekki enn byrja, og samstarfsnefndin um opinberar framkvæmdir hefur hvorki meira né minna en tekið þetta stórmál fyrir á 16 fundum. Það væri fróðlegt að gefa hér út útdrátt úr fundargerðum samstarfsnefndarinnar um opinberar framkvæmdir um gang þessara mála. (Forseti: Viltu ekki gera það?) Ég skal gera það, forseti, ég er búinn að taka þetta saman úr fundargerðum n. Ég skal gera það og láta þm. hafa gang málanna, hvernig þessi mál geta orðið að skrípi.

Í fundargerð, sem byggingarnefnd heima fyrir í þessu byggðarlagi hélt á árinu 1972 eða 24. okt., þá segja þeir í bréfi til þessarar n.:

„Eftir athugun á 5 teikningum af læknabústöðum, sem heilbr.- og trmrn. lét okkur í té, þá virðist okkur, að teikning sú, sem áður var gerð af arkitektum, sem þeir völdu og samþykkt af yður, heilbr.- og trmrn., og nefndin telur, miðað við áður umrædda lóð og aðstæður, sé sú æskilegasta, sem um sé að ræða, og uppfyllti best þær kröfur, sem gera verður til slíkrar byggingar, svo sem að tveir bílskúrar tilheyri læknisbústaðnum og geymsla fyrir sjúkratæki. Hvað viðkemur stærðarmun á áðurnefndum teikningum og hinum síðarnefndu, sem eru 58 fermetrar, þá kemur þar á móti bílskúr, tækjageymsla og gestaherbergi á jarðhæð, er við teljum nauðsyn á að hafa. Væntum vér þess, að hið háa rn. og samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir sjái sér fært að fallast á þessi sjónarmið okkar með því að leyfa framkvæmdir samkv. framansögðu. Öllum er það ljóst, hvílík nauðsyn það er þessu byggðarlagi, að hér sé starfandi læknir, svo að byggð haldist.“

Það má segja, að þetta bréf og þessi samþykkt sé mjög í kansellí-stíl, og það var sagt, að Danir hefðu verið seinir á sér að sinna heiðnum Íslendinga hér fyrr á árum, en lítið hefur gengið betur hjá hinu nýja kansellíi undir stjórn fjmrn. í þessu efni. En 25. maí greinir einn af nm. samstarfsnefndarinnar frá því á fundi, að undirbúningi teikninga eftir allt saman sé mjög áfátt, og var þeim sama manni falið að ýta á málið og aðstoða byggingarnefndina. Síðan hefur ekkert gerst. Þetta er nú gangur kerfisins. Það er ekki svona kerfi, sem við þurfum að byggja upp og hlaða undir. Ef svona kerfi er notað til þess að halda í skefjum framkvæmdum í þeim byggðarlögum, þar sem litlar sem engar framkvæmdir eru, þá vil ég afnema svona kerfi, afnema þessi lög með einu og öllu og ekki hafa þetta kerfi lengur.

Ég ætla nú að koma að nál. vina minna í meiri hl. fjvn. Nál. þetta er ein lofgerðarrolla um ríkisstj. Það er að vísu viðurkennt, að útgjöld hafi hækkað, en það er ekki minnst á þann mikla vanda, sem við er að etja, óðaverðbólguna. Það er ekki minnst á skattabyrðina á öllum sviðum, sem allt er að sliga, og þau áhrif, sem hún hefur á þjóðfélagið og hafa orðið hvati og orsök stórfelldra krafna um hærri laun, heldur fara þeir nm. að leita að tilteknum atriðum innan ákveðinna málaflokka, þar sem finna má miklar hækkanir að krónutölu, og þeir verða svo glaðir við að finna á þennan hátt 6–8 atriði, að þeir hoppa á öðrum fæti yfir nál. og syngja hástöfum: Allt í lagi alls staðar, enda eru raddmenn miklir meðal þeirra félaga.

Einn þeirra málaflokka, sem nefndur er með miklum fögnuði, eru hafnamálin, sem formaður fjvn. gerði nokkuð að umræðuefni hér áðan. Ég skal fúslega játa það og gleðjast yfir því, að framlög til hafnamála hækka verulega með þessu fjárlagafrv. frá því, sem verið hefur. Þeir félagar segja í nál., að verja skuli 838 millj. kr. til hafnarframkvæmda og 53.3 millj. í Hafnabótasjóð. Og þeir segja jafnframt, að 394 millj. kr. af þeirri upphæð fari til framkvæmda í þremur tilteknum höfnum, Þorlákshöfn, Grindavík og svo er smásletta, 25 millj., í Höfn í Hornafirði. Af þessari upphæð tekur þjóðfélagið að láni til framkvæmda á þessu ári í þessu augnamiði, hjá Alþjóðabankanum, 290 millj. kr. á næsta ári. En þeir segja, að það sé ætlunin að fjármagna eða veita fé með beinni fjárveitingu á móti þessum framkvæmdum, sem Alþjóðabankinn lánar til, 164 millj. kr. Og þeir eru kátir og glaðir, karlarnir, yfir því, að þetta fjármagn sé nú veitt af fjárl. En við skulum huga svolítið nánar að þessu fjármagni til þessara þriggja hafna á móti Alþjóðabankaláninu,en þar er að finna skýringu á því í 32. lið í heimildagr. fjárl., sem á að koma til afgreiðslu við 3. umr. Þar segir:

Ríkisstj. er heimilt að ráðstafa því fé, sem inn kemur af aðflutningsgjöldum og söluskatti af tilbúnum húsum, sem Viðlagasjóður flytur inn til tímabundinna nota fyrir Vestmanneyinga, til greiðslu á hluta ríkissjóðs í framkvæmdakostnaði við hafnir í Grindavík, Þorlákshöfn og Höfn í Hornafirði, sem er mótframlag á móti láni Alþjóðabankans.“

Nú spyr ég: Hefði nokkur maður, sem gegnt hefði embætti fjmrh., hefði nokkur ríkisstj., tekið toll af innfluttum húsum til Viðlagasjóðs fyrir Vestmanneyinga eftir þá atburði, sem þar skeðu? Hefði nokkur ríkisstjórn treyst sér til annars en að gefa þessar tolltekjur eftir? Ég svara því alveg hiklaust neitandi. Nei, það hefði engin ríkisstj. treyst sér til þess. En þessi ætlar að finna 40% á móti Alþjóðabankaláninu, og hún fann út það patent að hirða tollinn af Viðlagasjóðshúsunum. Viðlagasjóður á að borga toll af húsunum, síðan ætlar fjmrh. af höfðingsskap sínum og ríkisstj. að greiða þessar sömu upphæðir fyrir hafnargerð í Þorlákshöfn, Grindavík og Höfn í Hornafirði sem mótframlag á móti láni Alþjóðabankans. Þetta er alveg einstakur höfðingsskapur, sem mun lengi verða í minnum hafður.

Svo kem ég að hinu. Það var upplýst hér í umr. fyrir nokkru í sambandi við frv. um staðfestingu á brbl. um verklegar framkvæmdir, þar sem þessum hafnamálum var þrýst inn í við 2. umr., að Alþjóðabankinn hefði verið algerlega ófáanlegur að lána til nokkurra annarra hafna en þessara þriggja. Þetta hafi eiginlega verið ákvörðun Alþjóðabankans, ríkisstj. væri alsaklaus af því að hafa tekið ákvörðun um aðeins þessar þrjár hafnarframkvæmdir, sem þó eru auðvitað ekki nema tvær aðallega. Er það þó þakkarvert hjá hæstv. ríkisstj., þó að hún taki við láni hjá Alþjóðabankanum til þessara þriggja hafna. Ber það vott um lofsverðan áhuga fyrir hafnamálum, ef alþjóðalánastofnun kemur og býður hér stórar upphæðir að láni til þessara þriggja tilteknu framkvæmda? Ég held, að það þurfi ekki að sæma þá neinum heiðursmerkjum, ráðh., fyrir að hafa tekið þessu tilboði.

En ég skal líka minna mína ágætu félaga í fjvn. og ríkisstj. á það, að núv. ríkisstj. hafði ekki frumkvæði um endurskoðun hafnal., það var fyrrv. ríkisstj., sem gerði það. Á valdatíma fyrrv. ríkisstj. voru sett ný hafnalög, sem þá voru mikil framför frá hafnalögum þar á undan. En það kom hrátt í ljós, að kröfurnar mögnuðust, rétt eftir að sú löggjöf tók gildi, um að fara í miklu dýrari hafnargerðir en áður var. Áður létu smástaðir sér nægja trébryggjur, en krafan kom rétt eftir að sú löggjöf varð að veruleika, um hafnargerðir á velflestum stöðum á landinu. Þetta hafði í för með sér stórfellda hækkun á framkvæmdakostnaði, og það kom brátt í ljós, að sú hafnalöggjöf var að verða úrelt af þessum ástæðum og fleirum. Ég ásamt fleiri þm. Sjálfstfl. fluttum þáltill. um að endurskoða hafnalöggjöfina á þinginu 1971. Sú till. náði ekki fram að ganga vegna tímaskorts, ekki vegna andstöðu í þingi, en þáv. samgrh. skipaði n. til þess að undirbúa löggjöf um nýja hafnalöggjöf, og fyrri samgrh. í núv. ríkisstj. hætti tveimur mönnum í þessa n. Ég var einn af þeim mönnum, sem áttu sæti í þessari n., og þekki þessi mál því mjög vel, og við skiluðum mjög fljótlega þessu frv. eða sendum ríkisstj. okkar nál. Ríkisstj. lagði svo frv. fram á þingi 1972 og var ætlunin að lögfesta það þá, en það náði ekki fram að ganga. Það var lagt fram aftur haustið 1972, það náði ekki fram að ganga fyrir afgreiðslu fjárl., en var aftur lögfest seint á síðasta þingi. Þessi lög eiga að taka gildi 1. jan. 1974, svo að ég veit eiginlega ekki, hverjir það eru, sem þurfa að gorta sérstaklega af því, hver eigi frumkvæðið eða heiðurinn af því, að þessi löggjöf varð til.

Á þessu hausti, eftir að þessi tilmæli komu fram frá hæstv. fjmrh. að taka þessar þrjár hafnargerðir inn, mætti hann ásamt núv. hæstv. samgrh. á fundi fjh.- og viðskn. Nd. Þar spurðum við nm. þá um ýmislegt varðandi hafnarframkvæmdir, og ég hygg, að það hafi ekki farið milli mála, að við lögðum mjög hart að þeim ráðh. báðum að auka mjög fjárframlög til hafnargerða og sömuleiðis að halda áfram þeirri viðleitni, sem ákveðin var við afgreiðslu síðustu fjárl. að taka inn á heimildagr. 40 mill,j. kr. til þess að létta greiðslubyrði hafna, sem formaður fjvn. gerði hér að umræðuefni, og ég þarf ekki að bæta þar neinu við. Það var ekkert tekið inn í þetta fjárlagafrv. til þess að halda þessari viðleitni áfram, og það hefur verið fram undir það, að þessi mál komu til umr., fremur hljótt um viðbrögð í þessum efnum, en fjmrh. tók loks um daginn nokkuð jákvætt undir þetta, og mér er kunnugt um það, að hæstv. samgrh. hafði og hefur mikinn hug á því og formaður fjvn. staðfesti það hér í ræðu sinni áðan, að það eigi að taka hér inn upphæð við 3. umr.

Ég furða mig nokkuð á því, hvers vegna mínir ágætu félagar, meiri hl. fjvn., skuli ekki minnast einu orði á stærsta liðinn til verklegra framkvæmda í fjárlagafrv., en það er stofnkostnaður skyldunámsskólanna, sem sýnir, að framlög til þeirra hafa ekki breyst eins og skyldi frá árinu 1970. En mér finnst rétt að minna á það, að á árinu 1970 voru framlög til byggingar skyldunámsskóla 206.9 millj. kr. Þau hækkuðu á árinu 1971 upp í 288.1 millj. kr. eða um 39% á þessu eina ári. Á fyrsta ári núv. ríkisstj. hækkuðu þessi framlög uppi 394.7 millj. kr. eða um 37%. Á yfirstandandi ári hækkuðu þau í 477.5 millj. kr. eða um 20%. Og í frv., þegar tekið er tillit til þeirra till., sem liggja fyrir frá fjvn., verður þessi upphæð 658.4 millj., kr. og hækkunin frá því árið á undan er 37% á móti 39, sem hún var 1970–1971. En það er annað, sem þarf að bæta við þetta. Það er eftirtektarvert, að á sama tíma og það varð loks 37% hækkun, þá hækkar byggingarvísitalan miðað við 1. nóv. hvers árs frá árinu 1970–1971 um aðeins 2.1%, en þá hækka framlögin um hvorki meira né minna en 39%, þegar vísitalan hækkar um 2.1%, en á árinu 1972 hækkar hún um 28.7%, en þá hækka framlögin um 37%, og á árinu 1973 hækkar byggingarvísitalan um 32.6%, þegar hækkunin verður 20%. Þetta er nú allur höfðingsskapurinn, sem hér er um að ræða í langstærsta liðnum til verklegra framkvæmda. En þetta sáu þeir ekki, mínir ágætu vinir og félagar í meiri hl. fjvn. og gerðu þetta ekki á nokkurn hátt að umræðuefni. Ég held, að það hafi ekki verið af því, að þeir hafi gleymt þessum lið, heldur af því, að þeir hafi talið betur henta að reyna að þegja hann í hel.

Um framlög til skólamála sagði okkar ágæti fjmrh. árið 1969 um þessi atriði, þegar rætt var þá um framlög til skólabygginga, að hann hefði tekið eftir því í umr. af hálfu hæstv. menntmrh., sem þá var Gylfi Þ. Gíslason, að hann hefði vitnað í tölur í þessu sambandi, m. a. talað um samtímatölur, þ. e. tölur, sem væru jafngildar því, sem hann vitnaði til. Nú er mér kunnugt um það, hvernig sá útreikningur er fundinn. En hv. 2. þm. Vesturl. vitnaði hins vegar í byggingarvísitölu í þessu sambandi, hann taldi, að þessar fjárveitingar ættu að fylgja byggingarvísitölunni til að minnka ekki framkvæmdamáttinn. En núv. hæstv. fjmrh sagði þá: „Byggingarvísitalan er ekki einhlít um þetta, því að fleiri samanburðaratriði koma þar til greina. Stundum hef ég leyft mér að vitna í hækkun fjárl., sem hefur orðið veruleg á þessu tímabili, og þess er líka að geta, að fólksfjölgunin í landinu hefur orðið veruleg á þessum árum, sem vitnað er til svo að það verður að taka inn í þann samanburð líka til þess að gera þetta hliðstætt.“ Og hann bætti við: „Við megum heldur ekki gleyma því, að við lifum á öld hraðans. Það er allmikil breyting orðin á okkar veröld og okkar landi á 10–12 síðustu árum. Þessi öld, sem er oft kölluð atómöld, hefur krafist mikils í sambandi við skóla og menntun, og okkar þjóð frekar en aðrar þjóðir kemst ekki hjá því að taka tillit til þess.“

Þetta voru orð núv. hæstv. fjmrh., en þá var hann talsmaður Framsfl. við fjárlagaumr. En nú þarf ekki einu sinni að taka tillit til byggingarvísitölunnar, hvað þá heldur að taka tillit til hraðans og að hann lifir á atómöldinni. Nú skiptir það engu máli, og nú skiptir engu máli, að fólksfjölgun á sér stað í landinu. Sennilega er reiknað með, að hún hætti þá alveg, ef fóstureyðingarfrv. fer í gegn. Ég veit það ekki.

Það hefur nú komið fram loks 7. des. 1973 í bréfi frá fjmrn., þar sem segir:

„Af gefnu tilefni vill rn. staðfesta, að það hefur ákveðið að nota ekki heimild þá, sem veitt er í 6. gr. fjárlaga 1973 til 15% niðurskurðar fjárveitinga gagnvart fjárveitingum til framkvæmda 1973.“

Loksins 7. des. kemur þessi yfirlýsing til fjvn., og ég verð nú að segja það, að mér finnst ekki beint ástæða til að skera niðúr smáframlög, sem eru í fjárl. til framkvæmda, en láta allt, sem er stórt og skiptir tugum og hundruðum millj., eiga sig, þegar þess er gætt, að tekjur ríkissjóðs hafa farið um 2000 millj. fram úr fjárlagaáætlun. Þá sé ég ekki beint ástæðu til að ráðast á garðinn, þar sem hann er lægstur, og skera niður þessi 15%. En eitthvað hefur þetta staðið lengi í ríkisstj., það er margt annað, sem stendur minna í henni, að hún hefur ekki tekið ákvörðun um þetta fyrr en nú rétt fyrir 2. umr. fjárl. Ég vil spyrja hv. ríkisstj. að því, hvort hún sé ákveðin í því að skera niður um 15% rekstrarframlög samkv. fjárl. samkv. þessari sömu heimild og hvort hún telji það brýna nauðsyn í slíku árferði sem þessu. Þegar mörgum þeim aðilum, sem hafa orðið þar fyrir barðinu, hefur verið haldið niðri með að tryggja sér auknar tekjur, þá finnst mér það ekki vera hægt, að sami aðili, ríkisstj., sem meinar tilteknum aðilum að hækka tekjur sínar eða fá hærri tekjur, skuli skera niður þau framlög, sem eiga að vera til rekstrarstyrks þeirra fyrirtækja. Mér þætti fróðlegt, ef hæstv. fjmrh. gæfi þinginu upplýsingar um þetta atriði.

Á 12 ára valdatíma viðreisnarstjórnarinnar áttu nokkrir þm. þáv. stjórnarandstöðu nokkur uppáhaldsmál, sem entust þeim flestum að tala um í 12 ár og gagnrýna þáv. ríkisstj. fyrir. Hv. 1. þm. Austf. var mjög hugleikið að ræða um vaxtaokrið, og hann fékk mjög dygga aðstoð síns ágæta vinar og samherja, 2. þm. Austf., Lúðvíks Jósepssonar, í þeim efnum, og þetta uppáhaldsumræðuefni entist þeim alveg út stjórnarandstöðutímabilið. Núv. formaður þingflokks Framsfl., hv. 4. þm. Reykv., átti líka sitt uppáhaldsumræðuefni, en hann hafði sérstaka unun af því að ræða um sparifjárbindinguna, sem hann taldi óhóflega og óhæfa í alla staði. Eftir að hann komst í stjórnaraðstöðu, hefur hann lítið talað, sem frægt er orðið, en hann hefur varast í þessi fáu skipti, sem hann hefur komið hér í ræðustól, að minnast á sparifjárbindingu. Það hefur verið eins og að nefna snöru í hengds í manns húsi að nefna sparifjárbindingu síðan. Þriðja uppáhaldsumræðuefni þessara manna og fleiri var hin stórkostlega skuldaaukning þjóðarinnar, sem þeir töldu, að ætti sér stað á þessum árum. Um öll þessi þrjú uppáhaldsumræðuefni hefur verið furðuhljótt í þessum herbúðum að undanförnu. Það er hætt að tala um vaxtahækkunina, eftir að vextirnir voru hækkaðir á þessu ári. Það er hætt að tala um að afnema sparifjárbindinguna, eftir að þessir sömu menn juku bindinguna. Skuldir þess opinbera ræða þeir ekki óneyddir. En þrátt fyrir það, ætla ég þó að gera þau mál nokkuð að umræðuefni.

Þrátt fyrir það, að afurðaverð á flestöllum útflutningsvörum okkar hefur verið hagstæðara en nokkurn gat grunað, hafa erlendar lántökur aukist stórlega. Gengdarlausar fjárfestingar hafa átt sér stað, sem hafa leitt til kapphlaups um vinnuafl og ýtt undir og magnað óðaverðbólguna, sem nú tröllríður íslensku efnahagslífi. Hinar stórfelldu erlendu lántökur valda öllum hugsandi mönnum áhyggjum, og er nauðsynlegt að hugleiða í alvöru þá alvarlegu þróun, sem þar á sér stað. Þannig hafa erlend lán þjóðarinnar, sem hafa verið tekin til langs tíma, hækkað frá árinu 1965 úr 3926 millj. kr. til ársins 1973 í ca. 20 milljarða 670 millj. kr. En frá árinu 1970 hafa skuldir þjóðarinnar við útlönd hækkað úr 11 milljörðum 95 millj. í 20 milljarða 670 millj. kr. Ef við lítum á samanburð áranna, þá hækka erlendu skuldirnar á tímabilinu 1971–1973 úr 14 milljörðum 445 millj. kr. í 17 milljarða 246 millj. á árinu 1972 og svo nú í ca. 20 milljarða 670 millj. Þá skulum við líka hafa í huga, að 1972 er dollarinn á 87.12 kr. og er nú enn á árinu 1973 á 84 kr., svo að ekki er það vegna gengisbreytinga, sem þessi stóru stökk eru stigin.

Afborganir og vextir af erlendum lánum hafa farið sífellt hækkandi á þessum árum. Á árinu 1970 voru afborganir af erlendum lánum 1645.1 millj. kr., en eru áætlaðar á árinu 1974 2 milljarðar 797 millj. kr. Stökkið í vöxtunum hefur þó orðið enn meira og geigvænlegra, því að það hefur farið frá árinu 1970 úr 731.8 millj. kr. í áætlaða vexti á næsta ári 1710 millj. kr. Samkv. þessu hafa árlegar afborganir og vextir erlendra lána hækkað frá árinu 1970 úr 2376.9 millj. kr. í 4568 millj. kr., sem áætlað er, að það verði á næsta ári. Greiðslubyrði í hlutfalli við gjaldeyristekjur af vörum og þjónustu er því orðin geigvænleg. Hún var á árinu 1970 11.2%, en er 1972 11.4% og það er spáð, að greiðslubyrðin á næsta ári, þrátt fyrir þessi hagstæðu ár í útflutningi, muni nema um 11.4%

Það kom oft fyrir, að fyrrv. stjórnarandstæðingar, núv. stjórnarsinnar, höfðu hér mörg orð um það, hvað það væri óskaplegur glannaháttur af fyrrv. ríkisstj. að taka lán til framkvæmda, og þeir áttu ekki til orð til að lýsa áhyggjum sínum yfir því, hvað hér væri gálauslega að farið. Í blaði framsóknarmanna í Suðurlandskjördæmi, sem Þjóðólfur heitir og kom út rétt fyrir kosningar 1971, segir, að Ingólfur Jónsson hafi gengið um í sínu kjördæmi til þess að hæla sér af vegaframkvæmdum þar, og blaðið segir, að Ingólfur haldi mjög á lofti hinum nýju vegaköflum á Suðurlandi, sem eru loksins orðnir ökufærir. Síðan segir:

„Ingólfur tekur lán á lán ofan og veltir þannig áhyggjubyrðinni yfir á þá, sem eiga að erfa landið. Vilt þú, kjósandi góður, styðja mann, sem leggur slíkar skuldir á fólk framtíðarinnar? Ef svo er, þá kýst þú íhaldið. Ef þú vilt Ísland í dag Fyrir Íslendinga í dag, en ekki Ísland á morgun fyrir Íslendinga í dag, þá kýst þú Framsfl. Þitt er valið.“

Og auðvitað hefur þessi kosið Ágúst Þorvaldsson. Nú skyldum við ætla, að þegar þessi stefna, sem vill Ísland í dag fyrir Íslendinga í dag, en ekki Ísland á morgun fyrir Íslendinga í dag, hafi hætt þessum lántökum vegna vegaframkvæmda og hafi hugsað um að borga skuldirnar hans Ingólfs, en ekki hengja baggana á þá, sem eiga að erfa landið. En því miður eru upplýsingarnar ekki á þann veg, að skuldirnar hafi neitt lækkað. Skuldir Vegagerðarinnar og ríkissjóðs vegna vegaframkvæmda hafa aukist, frá því að þessi Þjóðólfsgrein kom, úr 1211.8 millj. kr. á árinu 1971 í 1722.9 millj. kr., og á þessu ári er talið fullvíst, að þær verði ekki undir 2000 millj. kr., svo að nú má stofna til skulda fyrir þá, sem eiga að erfa landið, og ekki fyrir Íslendinga í dag, heldur sennilega fyrir Íslendinga á morgun, því að það verður ekki sagt um þá framsóknarmenn, að þeir séu ekki góðir fimleikamenn. (Gripið fram í: og gáfumenn.) Það er nú aðallega einn.

Framkvæmdir verða að vera í hverju þjóðfélagi á öllum tímum. Framkvæmdir eru undirstaða framfara, og arðsemisframkvæmdir eru undirstaða bættrar lífsafkomu þegnanna. Framkvæmdum verður að raða eftir mikilvægi þeirra og missa ekki sjónar á þeim arði, sem þær kunna að skapa þjóðfélaginu og létta undir með þegnunum. En svo eru einnig aðrar framkvæmdir, sem eru óumflýjanlegar í menningarþjóðfélagi, sem ekki skapa beint arð, framkvæmdir í heilbrigðismálum, framkvæmdir í skólum, þær skapa ekki beinan arð, en óbeinan. En það verður að gæta þess að stilla framkvæmdum í hóf og láta tekjumöguleikana ráða hverju sinni, hvað hægt er að fara í viðamiklar framkvæmdir á hverjum tíma, og gera þar allmikinn greinarmun á, hvað eru beinar arðsemisframkvæmdir og hvað eru aðrar framkvæmdir. Arðsemisframkvæmdirnar verða að verulegu leyti að sitja fyrir og undir flestum kringumstæðum, og þær framkvæmdir, sem ég leyfi mér að halda fram, að eigi að hafa forgang fram yfir allar aðrar framkvæmdir nú á þessum tímum, eru hitaveituframkvæmdir og framkvæmdir í raforkumálum með tilliti til þess, að það þarf að auka stórkostlega rafhitun húsa, sem ekki koma til með að fá hitaveitu, á þeim svæðum, þar sem hitaveita verður ekki lögð. Í þriðja lagi álít ég, að forgang þurfi að hafa framkvæmdir í hafnamálum, sem eru auðvitað um leið atvinnumál og undirstaða þess, að sjávarútvegur og fiskveiðar geti gengið.

Það gleður mig, eins og ég sagði áðan, að það eru auknar framkvæmdir til hafnarmála, en hins vegar hryggir mig mjög, að þegar farið er út í þær miklu framkvæmdir, skuli ekki liggja fyrir jafnframt, á hvern hátt eigi að stuðla að almennri uppbyggingu í hafnamálum, ekki endilega á næsta ári, heldur næstu 2–3 árum, þannig að menn geti séð það og vitað, hvenær röðin kemur að þeim til framkvæmda. Þetta skiptir höfuðmáli. Ástandið í olíumálunum í heiminum er með þeim hætti, að við þurfum að taka þar mjög mikinn kipp til að auka þær framkvæmdir, þó að það sé mikil spenna í þjóðfélaginu, en við verðum einnig að draga úr öðrum. Ef hæstv. ríkisstj. vill taka upp þessi vinnubrögð, þá þori ég að lýsa því yfir fyrir hönd Sjálfstfl., að þó að hann sé í stjórnarandstöðu, þá er hann reiðubúinn til viðræðna, vinsamlegra viðræðna um þessi mál, til þess að koma þarna á betra skipulagi en nú er ríkjandi. Ég tel það frámunalega kjánalega stefnu, sem hefur verið viðhöfð í sambandi við gjöld til Hitaveitu Reykjavíkur og í sambandi við gjöld Rafmagnsveitunnar, að vegna þess að þessi útgjöld eru inni í vísitölunni, þá skuli vera neitað um hækkanir, þó að sannanlegt sé, að þessi fyrirtæki séu rekin með ofboðslegum halla, sem ekki nær nokkurri átt. Einmitt þessi fyrirtæki eiga að hafa fjármagn úr að spila til þess að geta haldið framkvæmdum áfram, og það er mjög eftirtektarverð áætlun, sem send var frá Hitaveitu Reykjavíkur, þar sem gerð var áætlun um, hvað kostaði olíukynding. Olía, sem er miðuð við 40 þús. kwst. og miðað við 5.80 kr. lítirinn, kostar 36560 kr., vextir og fyrningar af stofnkostnaði 10%, 13600 kr., rafmagn, gæsla og viðhald 6 þús. kr. Það var áætlað, að það kostaði að kynda þetta hús 56100 kr. Sambærileg áætlun að kynda þetta sama hús með vatni frá Hitaveitu Reykjavíkur á því verði, sem hér er nú ráðandi, er 21056 kr., á móti 56100 kr.

Annað dæmi var gert með áætlun um sama hús, og þar er reiknað með því olíuverði, sem líklegt er talið, að brátt muni taka gildi, og vatnsverðið samkv. fjárhagsáætlun Hitaveitu Reykjavíkur fyrir árið 1974. Og með því verði á olíu, sem reiknað er með, að hún fari í, eða 11 kr. lítrinn, þá er ætlað, að það kosti 88920 kr. að kynda þetta hús með olíu, en með heitu vatni frá Hitaveitu Reykjavíkur aðeins 26996 kr., þ. e. innan við 1/3 miðað við það að kynda með olíu.

Þetta dæmi og mörg önnur sýna, hvað það er í raun og veru röng fjármálastefna að herja höfðinu við steininn og halda þessum gjöldum niðri í jafnmikilvægum málum og orkumálin og upphitunarmálin eru. Ég held, að ríkisstj. ætti að taka þetta mál til alvarlegrar athugunar og láta ekki lengur bíða að afgreiða með sómasamlegum hætti þessi mikilvægu mál.

Um B-hluta fjárl. er lítið rætt hér við fjárlagaumr., og enn minna hefur verið rætt um þau fyrirtæki, sem þar eru, í fjvn. Hins vegar minntist formaður fjvn. á það hér áðan, að það þyrfti að athuga nánar um Ríkisútvarpið, sem er í B-hlutanum. Það getur nú ekki gengið mörg ár í senn að afgreiða fjárlög með þessar stóru, miklu stofnanir þannig, að þær séu reknar með stórfelldum halla allar. En í fjárlagafrv. eru gjöld umfram tekjur hljóðvarpsins 44 millj. 445 þús. kr. og gjöld umfram tekjur hjá sjónvarpinu 44 millj. 220 þús. kr., m. ö. o., eins og uppsetningin er þar, þá eru gjöldin 88.7 millj. kr. Þar við bætist, að launaliðir hafa hækkað gífurlega mikið, frá því að þessi fjárlagagerð þessara stofnana fór fram, svo að þessi halli er orðinn margfalt meiri nú en hann sýnist vera í fjárlagafrv.

Sama má segja um stærstu sjálfstæðu stofnun ríkisins, Póst og síma. Þar er byggt á annarri vísitölu en nú er. Það á eftir að hækka mjög verulega útgjöld þessarar stofnunar. En þar sem þetta hefur ekki verið tekið fyrir endanlega í fjvn. og ekkert liggur fyrir um það, hvað á að gera í sambandi við þessar stofnanir, þá ætla ég mér að geyma að ræða þessi atriði frekar við 3. umr.

Ef við ætlum að halda fjárl. niðri og ef við ætlum að koma í veg fyrir óhóflega hækkun fjárl., þá verðum við að breyta um vinnuaðferð. Þá verðum við fyrst og fremst að gera okkur fyrir fram grein fyrir því, hvað við treystum okkur á hverjum tíma til þess að leggja á þjóðina í sköttum og þá með hvaða hætti við ætlum að innheimta þessa skatta, hvort við ætlum að innheimta þá í vaxandi mæli í beinum sköttum eða óbeinum. En fyrst og fremst verðum við að gera okkur grein fyrir því, hvað við teljum hæfilegt að leggja háa skatta á, svo að það verði ekki til þess að draga úr viðleitni manna að afla sér tekna. Í öðru lagi verður að gera sér grein fyrir því, hvernig við ætlum að skipta hinum sameiginlegu útgjöldum og þörfum þjóðfélagsins á hina ýmsu málaflokka og sömuleiðis innan hinna ýmsu málaflokka. Þegar við höfum á þann hátt myndað þak á hverjum málaflokki, þá verðum við að snúa okkur að því verkefni að skipta því fjármagni, sem er fyrir hendi, en ákveða ekki fyrir fram þessa framkvæmd og hina, sem kallar á auknar kröfur frá öðrum. Ef þetta byggðarlag er ekki með í því dæmi, þá hrópar það á auknar kröfur, þannig að þá verður alltaf að bæta við. Það er þessi aðferð, sem hefur verið notuð að undanförnu, og þess vegna kannske hafa fjárl. hækkað meir en ella.

Ég hefði kosið að ræða miklu nánar um efnishlið fjárlagafrv. en ég hef gert, en ég hef nú orðið nokkuð langorður, svo að ég ætla að fara að stytta mál mitt. Það eru miklir annmarkar á því að gera þessu máli fullkomin skil við þær aðstæður, sem við er að búa. Það vantar allar upplýsingar um tekjuhlið fjárlagafrv. að öðru leyti en því að lýst er yfir, að 2% söluskattur til viðlagasjóðs falli niður 1. mars n. k. Þá er gert ráð fyrir í tekjuöflun frv., að söluskattur hækki úr 11% í 13% frá næstu áramótum. Ekkert frv. er enn komið fram um hækkun söluskatts til þess að staðfesta þessi áform, sem lýst er yfir í fjárlagafrv. Hefur ríkisstj. þingstyrk til að koma þessu frv. fram? Á að afgreiða fjárlög án þess að vita, hvort hægt er að ná samkomulagi um afgreiðslu laga, sem miða að skattlagningu til þess að standa undir útgjöldum fjárl.? Ekkert af þessu liggur fyrir. Ég spyr hæstv. ríkisstj.: Hvað hugsar hún sér að gera í þessum efnum? Á ekki að bíða og sjá til, hvað er að gerast í kaupgjaldsmálunum, hvað raunverulega þarf? Á að ganga frá afgreiðslu fjárl. eins og sé um pappírsfjárlög að ræða? Er þetta ætlun ríkisstj.? Hún ræður auðvitað ferðinni í þessum efnum. Ég hygg, að skynsamlegra hefði verið að leita samstarfs við stjórnarandstöðuna, hvernig sé hægt að leysa þessi mál. Þessi ríkisstj. hangir á bláþræði hvað styrkleika snertir hér á Alþ., og hún má ekki vera svo forstokkuð að reyna ekki samkomulagsleiðir við stjórnarandstöðu til þess að ná skynsamlegri afgreiðslu fjári., jafnvel þó að það komi til með að taka nokkrar vikur.

Ég hef áður vakið athygli á því, hversu stórkostleg hækkun hefur orðið á fjárl. í heild í tíð núv. ríkisstj. Sýnt hefur verið fram á, að sú hækkun stafar í stórum mæli af ört vaxandi ríkisbákni og ríkisafskiptum, en hefur ekki að sama skapi orðið vegna verklegra framkvæmda, enda hafa þær í heild ekki aukist að magni til. Skattheimtustefna ríkisstj. hefur verið þannig í framkvæmd, að allur almenningur stynur undan og undrast og þá ekki síst þeir, sem byggja þau héruð, sem erfiðasta baráttu heyja varðandi búsetuskilyrði fólksins, félagsleg réttindi þess og afkomuöryggi. Þetta er illa farið, og er stefnt í óefni, ef svo heldur fram.

Við sjálfstæðismenn leggjum þunga áherslu á, að algerlega verði breytt um stefnu í efnahagsmálum. Sköttum verði að stilla í hóf. Ríkisstj. og Alþ. verða að gera sér grein fyrir því, hversu stóran skatt er hollt og nauðsynlegt að taka til sameiginlegra þarfa þegnanna og gera síðan áætlanir um skiptingu þeirrar upphæðar milli efnisþátta fjárl., eins og ég sagði áðan. Að því loknu getur fjvn. með ábyrgum hætti gengið frá endanlegum till. um ráðstöfun ríkisfjár til hinna ýmsu staða á landinu. Sú ríkisstj., sem nú situr hér að völdum og taldi landsmönnum trú um, að hún mundi taka upp áætlanagerð um alla þætti ríkisbúskaparins, hefur gengið á svig við þau fyrirheit og horfið frá því að fela Framkvæmdastofnun ríkisins heildaráætlanir og röðun framkvæmda, en leyft liðsmönnum sínum að bítast um fjármagnið til einstakra framkvæmda og vissra staða og gengið að því búnu í það að telja saman bitana. Þá kemur í ljós, að niðurstöðutölur fjárl. hafa hækkað meira en áætlað var. Þá eru góð ráð dýr og ekki önnur fyrir hendi en að teygja tekjudálkinn og leggja hærri álögur í formi skatta á þjóðina. Stefnunni verður að breyta og starfsaðferðum við fjárlagagerð, til þess að Alþ. tapi ekki tökum á fjármálum ríkisins og stjórnun þess.

Með tilvísun til þess, sem ég hef um þetta sagt, teljum við sjálfstæðismenn, að þessar breytingar séu meðal hinna mikilvægustu, sem gera þarf: Dregið verði stórlega úr ríkisafskiptum og miðstjórnarvaldi ríkisins settar skorður, m. a. með því að skipa verkefnum þannig, að verksvið sveitarfélaganna verði aukið verulega frá því, sem nú er, og valdsvið ríkisins fært saman að sama skapi. Sú valddreifing mundi strax koma fram í lækkandi kostnaði við opinberar framkvæmdir byggðarlaganna og verða um leið raunhæfasta leiðin til að framkvæma þá byggðastefnu, sem tekur mið af getu almennings og nánustu vandamálum borgaranna. Fyrir gerð fjárl. teljum við nauðsynlegt að hverfa meir að áætlunum til lengri tíma, bæði um verklegar framkvæmdir ríkisins og fjárlagaáætlanir.

Brtt. fjvn. leiða til 648.4 millj. kr. hækkunar fjárl. Við fulltrúar Sjálfstfl. í fjvn. berum ekki ábyrgð á þeim till., sem gerðar eru um heildarfjárhæðir til einstakra þátta, svo sem hafna, sjúkrahúsa ríkisins, sveitarfélaga og einstaklinga, menntaskóla, héraðsskóla og hvers kyns annarra skólamannvirkja, fyrirhleðslna, svo og til hinna ýmsu ríkisfyrirtækja, þar sem þær virðast hafa ákvarðast í megindráttum án tillits til þess, að um fasta fjármagnsáætlun hafi verið að ræða. Þá hefðum við staðið að skiptingu þess fjármagns. Sama má segja um aðrar brtt., sem n. flytur í greindu þskj., að um nokkrar þeirra var full samstaða. Þó teljum við, eins og ég sagði í upphafi máls míns, að skipulegri vinnubrögð hefði þurft að viðhafa við afgreiðslu hinna ýmsu erinda, sem til n. bárust, til þess að viðhlítandi samræmis gætti um afgreiðslu þeirra. Því áskiljum við okkur rétt til að hafa óbundnar hendur um afstöðu til hinna einstöku till.

Í nál. okkar sjálfstæðismanna bendum við á þá óhæfu starfsaðstöðu fyrir fjvn. að ætla henni að fjalla um útgjaldabeiðnir, sem skipta hundruðum millj., þegar ekki bólar á neinum viðunandi till. stjórnvalda um tekjuöflunarleiðir. Við munum því ekki flytja frekari brtt. við þessa umr. Ég hef sýnt fram á það, að ríkisfjármálin verður að taka allt öðrum og fastari tökum en gert hefur verið á valdatíma þessarar ríkisstj., svo að með ábyrgum hætti verði lokið gerð fjárl. fyrir næsta ár. Efnahagsmálin horfa þannig við, að hinn almenni borgari er uggandi um sinn hag, og öryggi hans er teflt í tvísýnu. Það leiðir af stjórn ríkisfjármálanna, sem er laus og fálmandi, að ekki er hægt að taka með ábyrgum hætti afstöðu til þess, hversu langt megi ganga í fjárveitingum án þess að ofbjóða getu almennings með skattaálögum.