12.12.1973
Sameinað þing: 35. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1279 í B-deild Alþingistíðinda. (1130)

1. mál, fjárlög 1974

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það var ekki ætlun mín að þessu sinni að ræða almennt um fjárlagafrv. við þessa umr., en ég get ekki stillt mig í upphafi máls míns að minnast hér á ummæli hæstv. ráðh., sem hann viðhafði hér um, að þetta frv. einkenndist af því, að um þróttmikla byggðastefnu væri að ræða af hálfu núv. ríkisstj. Ég ræddi þetta mál ítarlega við 1. umr. fjárlagafrv. Ég man ekki til þess, að hæstv. ráðh. svaraði efnislega þeim rökum, sem ég tíndi þar fram ótalmörg til þess að afsanna þessa fullyrðingu hans, en hann taldi aðeins eitt núna fram sem röksemd fyrir sínu máli, og það var, að rekstrarútgjöld þessa fjárlagafrv. væru hlutfallslega lægri en fjárl. frá 1971. Ég veit ekki almennilega, hvernig hæstv. ráðh. getur fullyrt þetta, því að eins og hv. þm. er kunnugt, liggja rekstrarútgjöld fjárlagafrv. alls ekki fyrir fyrir árið 1974, þannig að ég veit ekki, hvernig prósentureikning hæstv. ráðh. notar til þess að finna það út, að hlutfall rekstrarútgjaldanna sé minna núna en á fjárl. 1971.

Það var meining mín að ræða hér aðallega nokkur atriði við þessa umr., sem varða fjárveitingar til þess kjördæmis, sem ég á sæti fyrir á hv. Alþ. Aðallega vildi ég þó ræða einn málaflokk í þeim efnum, þ. e. u. s. heilbrigðismálin.

Þá er þar fyrst til máls að taka, að af þessu fjárlagafrv. og þeim till. frá hv. fjvn., sem liggja fyrir um það efni, verður ekki annað séð en að ríkisstj. hafi gerbreytt um stefnu að því er varðar byggingarmál Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Ég hef gert þetta mál nokkuð að umræðuefni hér undanfarið og þarf að leggja orð í belg frekar um það hér nú. Till. fjvn. í þessu skyni til nýbyggingar Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri eru 23.1 millj. kr. Mér hefur verið tjáð, að þessar till. séu byggðar á því, að geymt fé sé 6.9 millj., og því verði um 30 millj. kr. til ráðstöfunar á næsta ári í þessu skyni. Það er mál út af fyrir sig, sem ég skal ekki fullyrða um hér, að margir, sem gerst þekkja, telja, að þessar 6.9 millj. séu ekki eins auðfundnar og menn vilja vera láta, sem búið hafa þessar tölur til, en það er mál, sem kemur síðar í ljós. En ég vil í sambandi við þetta benda á það, hvað hér er um breytta stefnu að ræða frá því, að hæstv. heilbrrh. svaraði mér hér á hv. Alþ. um fjárveitingatill. heilbrrn. í þessu skyni. Hann sagði þá, með leyfi hæstv. forseta:

„Rn. hefur látið gera framkvæmdaáætlun og fjármögnunaráætlun fyrir bygginguna, nýbyggingu Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, og er þar gert ráð fyrir, að framkvæmdinni ljúki allri á þessum áratug. Við þetta eru till. rn. um fjárveitingar á næsta ári miðaðar, og eigi að fylgja áætlun, þarf 34 millj. miðað við verðlag í júlí s. l. og 85% þátttöku ríkisins, eins og gert hefur verið ráð fyrir samkv. nýjum lögum.“

Nú skulum við gera ráð fyrir því, að byggingarvísitalan hækki svipuð á næsta ári og hún hefur hækkað á þessu ári, og þá er það ekki minna en 43 millj., sem mun þurfa til þess, að þessum áfanga verði náð, sem hæstv. heilbrrh. taldi, að væru till. hans, hinn 13. nóv. s. l. Það verður ekki betur séð en að sú tala, sem á fjárlagafrv. er, 23.1 millj. kr., sé því alger handahófstala, sem miðast ekki við neinn tæknilegan áfanga, t. d. svonefndan þjónustukjarna, sem byrja á samkv. áætlunum heilbrrn. og heimamanna og er mikil bygging, 18300 rúmmetrar, — það virðist ekki vera um að sæða neinn heppilegan áfanga, sem geti náðst fyrir þetta fé, þannig að það lítur helst út fyrir, að steypa eigi grunn að þessari byggingu og kannske einn eða tvo veggi, þannig að það verður ekki séð, að að þessu máli sé staðið á neinn þann hátt, sem eðlilegur getur talist. Það er þess vegna von til þess, að menn séu uggandi um þetta mál og spyrji, hvað hangi á spýtunni. Ég hef aflað mér upplýsinga um það, það mun vera ætlun fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar að draga verulega úr framkvæmdaáformum við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og stefna eingöngu að byggingu þjónustukjarna sjúkrahússins fyrir 1978, en þá skyldi allri byggingunni nær lokið samkv. áætlun heilbrrn. og heimamanna. Þar með væri frestað fram yfir 1980, að teknar yrðu í notkun tvær leguálmur við sjúkrahúsið, samtals að rúmtaki 33800 rúmmetrar með 190 legurúmum. Sjúkrarými byggist því ekki fyrr en einhvern tíma eftir 1980 og yrði svo til óbreytt frá því, sem nú er. Ég vildi því í þessu sambandi spyrja hæstv. fjmrh., hvort þetta sé eðlilegur byggingarhraði, en hann svaraði mér þannig til hér á hv. Alþ., að að þessu máli yrði staðið þannig, að um eðlilegan byggingarhraða yrði að ræða. Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðh., hvort hann viti, hvað í raun og veru verði uppi á teningnum, ef þessari stefnu, sem hann virðist nú hafa tekið upp, verði fram haldið. Vonandi veit hann það ekki og endurskoðar afstöðu sína, þegar hann hefur kynnt sér málið. Hann hlýtur að skilja, að margra ára frestun á 190 sjúkrarúmum á spítala eins og Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri er meira alvörumál en svo, að sú ákvörðun, sem fjárlaga- og hagsýslustofnunin virðist hafa tekið að lítt athuguðu máli, sé óskelkul, enda verður að vænta þess, að slíka ákvörðun verði að taka í nánu samráði við heilbrigðisyfirvöld landsins og heimamenn.

Í framhaldi af því, sem ég hef áður gert hér á hv. Alþ., vil ég freista þess enn einu sinni að lýsa aðstöðunni á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, stefnu forráðamanna þess um byggingarframkvæmdir og þeim nýju viðhorfum, sem mér sýnist blasa nú við, ef sú stefna verður ofan á, sem nú virðist upp tekin af hálfu hæstv. fjmrh. og fjárveitingavaldsins. Ég hef undir höndum margar grg. lækna og forráðamanna Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri um það ástand, sem nú hefur skapast þar vegna þrengsla og aðbúnaðar. Ég vil leyfa mér að lesa hér stuttan kafla úr einni grg., sem saminn er af Gauta Arnórssyni yfirlækni, með leyfi hæstv. forseta, en þar segir svo:

„Húsnæði það, sem Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri ræður yfir, er nálega aldarfjórðungsgamalt og er allsendis ófullnægjandi. Á þeim tíma, sem liðinn er síðan sjúkrahúsið var byggt, hafa breytingar á starfsháttum handlækninga og útþensla á handlækningagreinum orðið gífurleg. Við fleiri og þyngri sjúkdóma er nú beitt handlækningaaðgerðum, og eldri og hjúkrunarfrekari aldursflokkar eru nú teknir til skurðaðgerða en áður var. Meðferðin er flóknari og við hana beitt þyngri og fjölbreyttari útbúnaði til lækninga og gæslu en gegnumstreymi sjúklinga um handlækningadeildir hefur orðið hraðara vegna áherslu á endurhæfingu og fyrirbyggingu fylgikvilla. Að sjálfsögðu hefur starfsemi handlækningadeildar Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri þanist út og þróast á sama hátt og handlækningadeildarstarfsemi á öðrum sjúkrahúsum hérlendis og erlendis, eins og drepið er á hér að ofan. Nýir þættir og nýjar sjálfstæðar handlækningagreinar hafa verið teknar upp við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Skipulögð göngudeild með röðuðum tíma hefur verið starfrækt við handlækningadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri síðan 1971. Háls-, nef- og eyrnalækningar hafa verið teknar upp sem sjálfstæð grein. Augnlækningar, kvensjúkdómar og fæðingarhjálp hafa einnig fengið starfsaðstöðu sem sjálfstæðar þjónustugreinar á sjúkrahúsinu. Aðsókn að Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri hefur aukist til muna og gegnum streymi orðið hraðara. Jafnframt hefur þjónusta við hvern sjúkling og þjónusta á legudag aukist verulega.“

Síðan nefnir hann um þetta nokkrar tölur, sem ég tel mjög athyglisverðar. Í fyrsta lagi nefnir hann, að sjúklingafjöldi á handlækningadeild hafi verið 1969 583, 1971 966 og 1972 1203. Hann nefnir í öðru lagi, að aðgerðir á skurðstofum hafi verið 630 1969, 888 1971 og 1076 1972, og í þriðja lagi, að nýir sjúklingar á slysavarðstofu og göngudeild hafi orðið 1750, en sú starfsemi var tekin upp fyrst 1972. Ég held, að það sé óþarfi að lesa frekar upp úr þessari grg. hér, en ég hef aðeins lesið hér nokkurn kafla, sem lýsir vel því ástandi, sem þarna er að skapast, og ég hef hér margar fleiri grg., sem ég tel óþarfa að tefja tíma hv. Alþ. með að lesa. En ég vænti þess, að menn geri sér nánari grein fyrir því, hvaða vandamál er við að stríða vegna stóraukinnar þjónustu Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri á allra síðustu árum og þess 25 ára gamla húsnæðis, sem það starfar nú í.

En þegar hér er komið, er kannske rétt að rifja það upp, að fyrrv. ríkisstj., bæði þáv. heilbrrh., Eggert G. Þorsteinsson, og fjmrh., Magnús Jónsson, sendu stjórn Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri bréf, sem lýsti meginstefnu fyrrv. ríkisstj. varðandi Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Þar er m. a. svo komist að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri gegnir fyrst og fremst þessu þríþætta hlutverki:

a) að vera almennt sjúkrahús fyrir Akureyri og nærsveitir,

b) að vera sérdeildasjúkrahús fyrir Norðurland, Norðausturland og Austfirði að hluta,

c) að vera aðalvarasjúkrahús landsins utan höfuðborgarsvæðisins með tilliti til almannavarna.

Á næstu 8 árum, 1972–1980, verði sjúkrahúsið stækkað svo, að í því verði alls 240–250 legurúm. Viðbygging verði reist í tveim áföngum, sem áætlað er, að taki um 4 ár að fullgera hvorn fyrir sig.“

Á grundvelli þessa bréfs hefur verið unnið að undirbúningi nýbyggingar, og stóðu vonir til þess, að hægt væri að hefjast handa á þessu ári. Við afgreiðslu fjárl. fyrir yfirstandandi ár var því hins vegar borið við, að tæknilegur undirbúningur væri ekki kominn svo langt á veg, að unnt væri að veita fé til framkvæmda, og var á þeim forsendum felld brtt. frá mér um að veita 20 millj. kr. til byggingarinnar í ár. Í ljós kom þó, að öll gögn voru komin frá heilbrrn. til fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar í ágúst s. l. sumar, þannig að fjármagn skorti einungis til að framkvæma á þessu ári það, sem heimamenn höfðu hug á, þ. e. a. s. að ráðast í grunn byggingarinnar, og till. mín því felld á sannanlega fölskum forsendum á síðasta þingi. En enn skal vegið í sama knérunn.

En nú er spurningin: Hver er afsökunin nú? Ég vil biðja hæstv. fjmrh. um skýringu á því. Í því sambandi tek ég það fram, að haldi ráðh., að gert hafi verið samkomulag við forráðamenn Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri um þessa tilhögun, þá er það alger misskilningur. Ég hef rætt við þá forráðamenn, sem ræddu víð samstarfsnefndina um opinberar framkvæmdir. Þeir telja allir, að þeir hafi ekki samþykkt eina eða aðra áætlun um framkvæmdir við nýbygginguna á þeim fundi, sem hefur hér verið rætt um og mér er tjáð, að formaður fjvn. hafi bent á, en þeir telja sig ekki hafa samþykkt á þeim fundi neina áætlun, sem gengi skemmra en till. heilbrrn.

Til þess að þjóna því hlutverki, sem skilgreint er í áður tilvitnuðu bréfi og núv. heilbrrh. hefur bréflega staðfest, að rn. hans stefni einnig að, eru byggingaráform Fjórðungssjúkrahússins mikil. En ég vil vekja athygli á því, eð hér er um óumflýjanlega lífsnauðsyn að ræða til þess að bæta úr brýnustu þörfinni og einnig til þess, að sjúkrahúsið geti þjónað því hlutverki að vera aðalvarasjúkrahús landsins, svo sem það á að vera. Áfangaskiptingu byggingarinnar er þannig hagað á rökréttan hátt miðað við þessar þarfir. Fyrst er ætlunin að byggja þjónustukjarna, en þar fæst fyrst og fremst aukið starfsrými fyrir starfsfólk. Þar verður slysavarðstofa, göngudeild, röntgendeild, skurðdeild og gjörgæsludeild. Þegar frá eru skilin 8 rúm á gjörgæsludeild, fæst þó ekki aukið legurými með þessari byggingu, þannig að sé stefnt að því, að hún rísi ein fyrir 1979, er ekki annað að sjá en stjórnvöld geri ráð fyrir því, að fólki fækki á Norðurlandi, því að augljóst er, að stóraukin legurýmisþörf hlýtur að verða við allar eðlilegar aðstæður á þessu árabili. Í því sambandi má geta þess, að þessi háskalega frestun hlýtur að bitna á mörgum byggðarlögum, því að nú er um það bil helmingur legudaga á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri í þágu Akureyringa og helmingur i þágu annarra byggðarlaga.

Ég vil þá láta útrætt um þetta mál að sinni í þeirri von, að forráðamenn fjárveitingavalds og heilbrigðismála setjist niður og endurskoði áætlanir um nýbyggingu Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri í ljósi þeirra staðreynda, sem ég hef bent hér á.

Ég veit, að það er í mörg horn að líta í fjármálum ríkisins, en ég veit ekki um margar framkvæmdir, sem ættu að eiga forgang fyrir nýbyggingu Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri í þeim málaflokki, sem um ræðir, þ. e. a. s. í samræmi við áætlanir heimamanna og heilbrrn. A. m. k. þori ég að fullyrða, að það er mikill ábyrgðarhluti að taka sjúkrahús við bæjardyr Reykjavíkur fram fyrir nýbyggingu Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, þegar rætt er um forgangsröð i slíkum verkefnum, en vonandi kannast hæstv. ráðh. við, að það þarf stundum að raða framkvæmdum.

Þá vil ég víkja að tölum, sem mér virðast vera ósýnilegar í fjárlagafrv. og í brtt. hv. fjvn. Það vill svo til að hér er einnig um heilbrigðismál að ræða. Í l. nr. 56 frá 1973, um heilbrigðisþjónustu segir svo, með leyfi hæstv. forseta, í 35. gr.:

„Ráðh. lætur gera áætlun um heilbrigðisstofnanir, samkv. 16. og 26. gr. Gera skal áætlun til 10 ára í senn og endurskoða hana á 2 ára fresti. Leita skal umsagnar landlæknis um áætlunina. Þau umdæmi, þar sem erfitt er að halda uppi heilsugæslu, skulu hafa forgang um byggingu heilsugæslustöðvar. Framkvæmdaáætlun byggð á heildaráætlun skal árlega lögð fyrir Alþ. við gerð fjárlaga.“

Ég vil fyrst varpa þeirri spurningu fram við hæstv. ráðh., hvort væntanleg sé slík framkvæmdaáætlun fyrir framkvæmdir á sviði heilbrigðismála 10 ár fram í tímann við þessa fjárlagaafgreiðslu eða þótt ekki vari nema hluti af slíkri áætlun.

Þá vil ég einnig varpa fram þeirri spurningu, hvar sé að finna stafkrók i þessu frv. og brtt. við það, sem bendi til þess, að fjárveitingarvaldið hyggist framfylgja þessum l. gagnvart þeim byggðarlögum, sem verst eru sett á Norðurl. e. varðandi þessa þjónustu, þ. e. a. s. þar sem heilsugæslustöðvar eiga að rísa. Í því sambandi vil ég benda á viðtal, sem birt er í dag í Morgunblaðinu við landlækni, en þar segir svo með leyfi forseta:

„Hann sagði, að ýmis byggðarlög ættu það sameiginlegt, að allar leiðir í lofti og á landi lokuðust í langan tíma yfir veturinn. Nefndi hann í því sambandi Reykhóla Þingeyri, Flateyri, Bolungarvík, Hólmavík, Ólafsfjörð, Kópasker, Þórshöfn og Raufarhöfn, Vopnafjörð, Seyðisfjörð, Djúpavog og Kirkjubæjarklaustur. Flestir væru þessir staðir fremur illa búnir tækjum og þjónustu eftir því, enda reynslan sú, að erfitt reynist að fá lækna til starfa þar. Lagði landlæknir áherslu á, að brýna nauðsyn bæri til þess þegar í stað að bæta aðstöðuna á þessum stöðum, enda væri skýrt tekið fram í l. um heilbrigðisþjónustu, gr. 35, sem tækju gildi 1. janúar 1974, að slíkir staðir skyldu sitja í fyrirrúmi um byggingu heilsugæslustöðva.“

Í þessu frv. er þó ekki að finna, eins og ég sagði áðan, stafkrók um það, að heilbrrn. og fjármálavaldið í landinu hyggist undirbúa byggingu heilsugæslustöðvar t.d. á Þórshöfn, Kópaskeri eða Ólafsfirði.

Mér er ekki grunlaust, að hæstv. fjmrh. freistist til þess að verja hendur sínar út af því, sem ég hef hér vakið máls á, með því að benda á, að ég vilji með þessum málflutningi hækka fjárlög, sem við stjórnarandstæðingar gagnrýnum, að séu þegar allt of há og hækki í risastökkum. Í því sambandi vil ég benda hæstv. ráðh. á, að ég hef hér fyrst og fremst vakið máls á framkv., sem hefðu átt að njóta forgangs, bæði í samræmi við nýgerð lög, sem hann og allir hv. þm. samþ., og einnig vegna sérstöðu sjúkrahússins á Akureyri. Ég sagði áðan, að hæstv. ráðh. hlyti að kannast við það, að menn hefðu stundum talað um það, að raða þyrfti framkvæmdum, og það er þetta, sem ég á við, þegar ég er að ræða þetta, að ég fæ ekki betur séð en að fjárveitingar til heilbrigðismála á Norðurl. e. hafi ekki verið veittar með þetta gullna hugtak í huga, að raða þurfi framkvæmdum eftir forgangsröð.

Að lokum vil ég spyrja hæstv. ráðh. um tvennt, sem mér er sérstök forvitni á að vita um, hvernig tökum menn hyggjast taka við afgreiðslu þessara fjárlaga. Hið fyrra er að vita, hvernig ríkisstj. hyggst standa að fjáröflun til hafnagerðar, þ. e. a. s. hugsanlegrar lántöku til hlutdeildar sveitarfélaga. Eins og kunnugt er, hefur verið séð fyrir lántöku til hluta sveitarfélaga í þeim samgönguáætlunum á sviði hafna, sem gerðar hafa verið, sbr. Vestfjarðaáætlun og Norðurlandsáætlun á síðasta ári. En hvernig er ætlunin að standa að þessu nú, þegar framkvæmdaáætlun og fjáröflunaráætlun hefur verið tekin að hluta inn í fjárlög? Verður ekki um neina slíka fyrirgreiðslu að ræða? Ef svo er, þá tel ég, að sú stefnubreyting geti haft það í för með sér, að sum sveitarfélög ráði ekki við framkvæmdir, jafnvel þótt 75% kostnaðarhlutdeild komi til.

Það seinna, sem ég vildi spyrjast fyrir um, var það, hvort hæstv. ráðh. sé fallinn frá því að taka inn á fjárlög fjárveitingu til þess að veita sérstök örvunarlán á landsbyggðinni til íbúðabygginga. Í milliþn. i byggðamálum hefur þetta mál verið rætt, og hafði n. ástæðu til að ætla, að 60 millj. kr. yrðu teknar inn á fjárlög að þessu sinni í því skyni. Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða, sem ég býst við að hv. þm. hafi allir forvitni á að vita og ekki síst það fólk, sem þetta skiptir mestu, þ. e. a. s. fólk sem byggir enn byggðarlög utan þéttbýlisins.