13.12.1973
Efri deild: 34. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1350 í B-deild Alþingistíðinda. (1158)

101. mál, þörungavinnsla við Breiðafjörð

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vestf. sagði, að heimamenn hefðu lagt áherslu á það, að ríkið eigi meiri hluta í fyrirtækinu. Ég veit fullkomlega eins vel og hv. 1. þm. Vestf., hvað heimamenn vilja í þessu efni. En það, sem hann sagði um þetta, breytir í engu því, sem ég legg til með minni brtt. Auðvitað ráða heimamenn því á hverjum tíma, hvort sveitarfélögin gerast aðilar að þessu framleiðslufélagi, þörungavinnslunni, þeir ráða því. Það er enginn ágreiningur um það. Og till. mín breytir engu um það. Hún aðeins opnar möguleika, ef menn vilja í framtíðinni láta sveitarfélögin gerast aðila. Þetta hélt ég, að væri fullkomlega ljóst, og við hv. 1. þm. Vestf. þurfum ekki að deila um svo augljósa hluti sem þessa.

Hann sagði, að það hefði farið í taugarnar á mér, hvað hann hefði haldið langa ræðu. Það var nú síður en svo. Ég þakkaði honum fyrir ræðuna og benti á það, að þetta hefði verið þriðja eða fjórða yfirlitsræðan, sem hann hefði haldið um sama efni á þessu ári, og ég mundi sakna þess, þegar málið væri komið í höfn, því að þá gæti hann ekki haldið þessum ræðuflutningi áfram.

En ég held, að þetta hafi farið í taugarnar á hv. 1, þm. Vestf. sjálfum, því að hann sagði, að ég ætti áreiðanlega met í því að halda langar og leiðinlegar ræður. Nú ætla ég ekkert að fullyrða um það, hver okkar hv. þm. heldur lengri eða leiðinlegri ræður. Ég ætla ekki að gerast dómari í því efni, eins og hv. 1. þm. Vestf. taldi sér öruggara að gera. Ég ætla óhræddur að leggja þetta undir dóm hv. þm. í deildinni.