13.12.1973
Neðri deild: 40. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1416 í B-deild Alþingistíðinda. (1207)

160. mál, almannatryggingar

Flm. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér frv. til l. um breyt. á almannatryggingalögunum, og er efni þess það, að maður, sem hefur valið sér sjómennsku að ævistarfi og hefur gegnt sjómennsku í 35 ár, þ. e. a. s. meginhluta starfsævi sinnar, öðlist rétt til ellilífeyris, þegar hann verður 60 ára. Almenna reglan um 67 ára aldur, sem gefur rétt til ellilífeyristöku, er látin haldast, en undantekning gerð um þá menn, sem hafa helgað sig sjómannsstarfinu. Þetta er eitt meginatriði frv. Þá segir enn fremur í þessu frv., að ef maður hefur stundað sjómennsku sem aðalstarf í 40 ár, þá á hann rétt á tvöföldum ellilífeyri, þegar hann fyllir 60 ára aldurinn. Þá er þriðja efnisatriði þessa frv. það, að ellilífeyri beri einnig að greiða ekkjum, er þær verða 60 ára. En að öðru leyti er lagt til, að 67 ára aldursmarkið haldist, eins og það hefur haldist frá setningu almannatryggingalaga hér á landi.

Það er vitað mál, að það er ekkert lögmál, að þessi aldursmörk skuli vera við 67 ára aldurinn, það gæti alveg eins verið við 65 ára aldurinn, sums staðar er það svo. Enn fremur er ekki sjálfgefið, að aldursmörkin þurfi að gilda um allar starfsstéttir jafnt. Það hafa verið í öðrum löndum gerðar undantekningar. T. d. er mér kunnugt um, að námumenn njóta fyllri tryggingaréttinda í ýmsum löndum en samkv. almennri reglu, og ég tel, að okkar sjómannastétt megi í þessum skilningi teljast sem hliðstæða við námumennina. Hér er um að ræða eins konar viðurkenningu á sjómannsstarfinu. Þessir menn hafa valið sér okkar hættulegasta atvinnuveg og þjónað honum, undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar, og tekið á sig margs konar óþægindi, sem því starfi fylgja, eru langdvölum frá sínum fjölskyldum og fleira, sem sjómannslífinu og starfinu fylgir, sem ég tel, að sé þess eðlis, að eðlilegt sé, að þessi stétt sé tekin út úr og njóti annarra og fyllri réttinda en almenningur að því er snertir tryggingar, þegar þeir menn koma á land.

Ég hef kynnst öldruðum sjómönnum, sem hafa haft sjómennsku að aðalævistarfi um áratugi, og ég veit, að þeir eru nálega eins og fiskur á þurru landi, þegar þeir koma í land. Þeir hafa ekki vanist störfum vinnumarkaðarins almennt og eiga oft og tíðum erfitt með að komast inn á hann. Það kynni að ganga núna, þegar boðið er í hverja hönd, sem fáanleg er til starfa. En á erfiðleikaárum um atvinnu var það ekkert sældarbrauð, sem beið sjómannsins, þegar hann á sjötugsaldri kom í land og ætlaði að leita sér atvinnu á hinum almenna vinnumarkaði. Það var í raun og veru ömurlegt, að þjóðfélagið skyldi þá ekki svara sjómönnunum með neinu, sem gæti létt þeim þá áhættu, sem þeir lentu í, að vera kannske um langan tíma atvinnulausir.

Ég veit, að það væri hægt að segja við mig að það sé minni nauðsyn á þessari lagabreytingu nú en oft áður. En þeir tímar geta því miður komið aftur, að það verði erfiðara um vik fyrir aldraðan sjómann að fá vinnu í landi en nú er, og löggjöf á auðvitað ekki að miðast við það sérstaka ástand, sem nú ríkir á vinnumarkaði.

Ég held, að þetta mundi ekki kosta of fjár. Þeir eru ekkert mjög margir, sem hafa sjómannsferil lengri en 35 ár að baki, og sjálfsagt eru þeir mjög fáir, sem hafa meira en 40 ára starfsferil á bak við sig á sjónum. Það þýðir í raun og veru, að þeir hljóta að hafa byrjað sjómennsku innan við tvitugt og verið samfellt við sjómennsku, þangað til þeir verða sextugir, til þess að þeir nái þeim fríðindum, sem frv. gerir ráð fyrir, að öðlast rétt til tvöfalds ellilífeyris.

Um ekkjurnar þarf ekki að fara mörgum orðum. Ég hygg, að flestir viðurkenni, að þegar kona er orðin sextug og verður ekkja, þá á hún erfitt með að fá störf við sitt hæfi á hinum almenna vinnumarkaði, og þá er ekkert of vel gert við þær, þó að þær öðluðust þá rétt til ellilífeyris, þegar þær eru orðnar sextugar og byrja sjötugsaldurinn.

Ég tel, að efni þessa frv. sé viðurkenning á sjómannastéttinni, viðurkenning, sem okkur beri að veita henni, sérstaklega því fólki, sem þjónað hefur samfélaginu svo lengi sem greinir í þessu frv. við okkar áhættusömu framleiðslustörf.

Það er ekkert torskilið í þessu frv. og ég hef flutt það áður fyrir nokkrum árum. Samt sem áður hefur þetta ekki verið tekið til greina, þegar almannatryggingalögin hafa verið endurskoðuð, en endurskoðun hefur farið fram á þeim oftlega, síðan ég flutti þetta mál í fyrsta sinn. Ég tel því, að það sé tímabært að minna þá, sem vinna að endurskoðun almannatryggingalaganna, á, að þarna sé atriði, sem væri sómi fyrir Íslendinga sem þjóð að lögleiða jafnvel á undan öðrum þjóðum.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að umr. lokinni látið ganga til heilbr.- og trmn., en þangað verður þetta frv. sjálfsagt að fara.