13.12.1973
Neðri deild: 40. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1421 í B-deild Alþingistíðinda. (1215)

37. mál, Landhelgisgæsla Íslands

Frsm. minni hl. (Ólafar G. Einarsson):

Herra forseti. A þskj. 192 er nál. minni hl. allshn., okkar fulltrúa Sjálfstfl. og Alþfl. í hv. n. Eins og þar kemur fram, leggjum við til, að frv. þetta verði samþykkt óbreytt. Meiri hl. n., fulltrúar stjórnarflokkanna, leggur hins vegar til, að frv. verði vísað til ríkisstj.

Ég held, að ég komist ekki hjá því að fara örfáum orðum um þá meðferð, sem þetta mál hefur fengið á undanförnum þingum. Það var fyrst flutt á fyrsta þingi þessa kjörtímabils. Að vísu var þá gert ráð fyrir lægri upphæð en nú til Landhelgissjóðs. Á því þingi kom frv. ekki úr n. Látum það nú vera, þar sem frv. kom seint fram á þinginu. En á síðasta þingi var það endurflutt og þá á fyrstu dögum þingsins, en þá kom það hins vegar ekki úr n. fyrr en í lok mars og þá með sömu afgreiðslu af hálfu stjórnarþm. og nú, þ. e. að frv. yrði vísað til ríkisstj. Þá var rökstuðningurinn fyrir þeirri till. sá, að ekki lægju fyrir neinar upplýsingar um, hver yrði smíðakostnaður nýs varðskips eða hver kostnaður yrði við að búa Landhelgisgæslunni aðstöðu í landi, þess vegna væru allar fjárhæðir ágiskunartölur einar, ríkisstj. hefði líka tekið svo myndarlega á málum Landhelgisgæslunnar, að henni væri vel treystandi áfram fyrir þessum málum. Minni hl. n., fulltrúar Sjálfstfl. og Alþfl., lagði hins vegar til, að frv. yrði samþykkt. Málið kom hins vegar aldrei til atkvgr., vegna þess að það var ætíð tekið út af dagskrá þessa síðustu daga þingsins.

Núna, þegar þetta frv. er flutt í þriðja sinn, að mestu óbreytt, nema hvað reynt er að halda í við verðbólguna með till. um hærri fjárhæð en áður, þá bregður svo við, að málið er afgreitt úr n. með — við skulum segja: eðlilegum hraða. Hins vegar er það þó það seint á ferð, að ég held, að það sé varla við því að búast, að það verði afgr. fyrir þinghlé í gegnum báðar deildir, en það er auðvitað nauðsynlegt, til þess, að tekið verði tillit til ákvæða þess við afgreiðslu fjárlaga.

Meiri hl. n. vill enn vísa frv, til ríkisstj., en nú ganga ekki alveg sömu rökin og á síðasta þingi, þar sem gerður hefur verið samningur um smíði nýs varðskips og fjárþörfin ætti að því leyti að vera ljós. Rökin fyrir frávísuninni eru þau, að aldrei hafi staðið á fjárveitingum til Landhelgisgæslunnar í tíð núv. hæstv. ríkisstj., eins og kom fram í ræðu hv. frsm. meiri hl. n. áðan. Það kom fram í máli forstjóra Landhelgisgæslunnar, þegar hann mætti á fundi n., þetta, sem hér var sagt, að Landhelgisgæslan hefði fengið það fé, sem hún hefði farið fram á, en hann bætti því við, að það hefði ætíð verið svo og þó sérstaklega á tímum sem þessum, þegar mikið væri í húfi. Það er þess vegna ekkert nýtt, að Landhelgisgæslan hafi á tímum sem þessum fengið það fé, sem hún hefur talið sig þurfa.

Minni hl. n. leggur sem sagt til. að frv. verði samþ., og fyrir því eru sömu rök og áður, það er nauðsynin á eflingu Landhelgissjóðs vegna vaxandi verkefna, sem Landhelgisgæslunni er ætlað að sinna, og ekki síður hin brýna þörf Landhelgisgæslunnar fyrir, að henni verði búin góð aðstaða í landi. Það er augljóst mál, að þessi verkefni kosta mikið fé, og það er þess vegna fyllilega tímabært að fara að safna í sjóð. Öruggur tekjustofn er forsenda fyrir því, að hægt sé að gera skynsamlegar áætlanir um uppbyggingu Landhelgisgæslunnar í framtíðinni. Eins og við segjum í nál. okkar, dugir ekki að treysta á óviss framlög. Það er líka ljóst, að sektarfé vegna landhelgisbrota mun að mestu hverfa sem tekjustofn Landhelgissjóðs. Það sektarfé, sem komið hefur í Landhelgissjóð á undanförnum árum, hefur að langmestu leyti komið í sjóðinn vegna landhelgisbrota breskra togara. Það kom fram hjá forstjóra Landhelgisgæslunnar á áður nefndum fundi allshn. En vegna hins nýgerða samnings við Breta um veiðar þeirra innan 50 mílna landhelginnar verður ekki um sektir að ræða, ef þeir brjóta þann samning.

Ég vil minna á þær undirtektir, sem þetta mál fékk í fyrra hjá hæstv. dómsmrh. Við 1. umr. frv. lét hann þau orð falla, að það væri vissulega rétt, sem fram kæmi í frv., að tekjustofnar landhelgissjóðs væru óvissir, væru það í eðli sínu, og það væri vissulega ekki gott að hyggja á slíkum óvissum og breytilegum tekjustofnum, sem gætu gefið góða upphæð eitt árið, en litla upphæð annað ár. Vegna þessa fagnaði hann þeirri hugsun, sem fram kæmi í frv., að það skuli hundið í l., að Landhelgissjóði skuli alltaf tryggð tiltekin lágmarksfjárhæð, og hann sagði, að það væri aðalatriðið að festa ákveðinn tekjustofn. Það hefur að vísu ekkert heyrst nú á þessu þingi frá hæstv. dómsmrh. um þetta efni. Ég veit ekki, hvort hann hefur skipt um skoðun. En við leggjum sem sagt til, að frv. verði samþykkt, og teljum, að það sé ekki minni ástæða til þess nú en áður.