14.12.1973
Neðri deild: 41. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1452 í B-deild Alþingistíðinda. (1283)

131. mál, útvarpslög

Flm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Lárusi Jónssyni, að flytja frv. til l. um breyt. á útvarpslögum, sem fram kemur á þskj. 164 og felur það í sér að heimila Ríkisútvarpinu að veita landshlutasamtökum og/eða einstökum sveitarfélögum heimild til að reka sjálfstæðar, en staðbundnar útvarpsstöðvar. Áður en ég geri grein fyrir frv., vil ég víkja nokkrum orðum almennt að Ríkisútvarpinu.

Ríkisútvarpið hefur löngum valdið nokkrum deilum hér á landi. Til þess hafa legið ýmsar ástæður, bæði menningarlegar, stjórnunarlegar og stjórnmálalegar. Þó er það ætlan mín, að mikilvægasta ástæðan sé einfaldlega sú, að þessi stofnun er með einum eða öðrum hætti nákomin öllum almenningi, útvarpið er daglegur gestur á hverju heimili og því fæstum óviðkomandi, hvað það aðhefst eða lætur frá sér fara. Þess vegna eru deilur um útvarpið og efni þess ekki veikleiki, heldur vaxtar- og þroskamerki. Ég tel það sönnun þess, að þjóðinni er annt um þessa stofnun og hefur tilfinningu fyrir því, að útvarp er að verulegu leyti rödd þess sjálfs, spegilmynd af þjóðlífinu frá degi til dags. Því er áríðandi, að útvarpið sé í takt við tíðarandann og þá strauma sem með þjóðinni hrærast hverju sinni.

Ég er þeirrar skoðunar, að þegar yfir langan tíma er litið, hafi útvarpinu verið stjórnað af hyggindum og jafnræði, ekki síst vegna þess, að því hefur allvel tekist að þræða meðalhófið. Þeir, sem þar hafa haldið um stjórnvölinn, hafa kunnað skil á hlutverki sínu. Á þessu hefur því miður orðið misbrestur nú síðustu missirin. Þar er ekki við starfsmenn útvarpsins að sakast, heldur hið nýja útvarpsráð, hina pólitísku yfirstjórn þessarar stofnunar. Þeir menn, sem skipa meiri hl. útvarpsráðs, virðast telja það verkefni útvarpsins helst og mest að innræta í stað þess að kynna, að prédika í stað þess að upplýsa. Það er haft eftir einstökum útvarpsráðsmönnum, að þeir hyggist framfylgja menningarstefnu ríkisstj. Þeir telja sig fulltrúa ákveðinna skoðana. Fyrir vikið hefur útvarpið glatað trausti og fengið það yfirbragð að vera tæki til hlutdrægs áróðurs, en ekki fjölmiðill ólíkra skoðana.

Í þessu sambandi er vert að benda á, að ekki er einvörðungu við útvarpsráð eitt að sakast eða meiri hl. þess. Alþingi kýs útvarpsráð hlutbundinni kosningu, þannig að þar veljast menn eftir valdahlutföllunum í þinginu hverju sinni. Sams konar pólitískur meiri hl. myndast í útvarpsráði og á þingi og í ríkisstj. Flokkarnir velja gjarnan dygga stuðningsmenn sína, sem líta á það sem hlutverk sitt að gæta hagsmuna síns flokks og sinnar stefnu. Árangurinn verður sams konar pólitískur metingur og á sér stað í þingsölum og verður reyndar síst minni, þegar í meiri hl. útvarpsráðs skipast menn, eins og nú, sem boða trú sína af ákafa, en ekki forsjá. Ég er þeirrar skoðunar, að hér ætti miklu fremur að snúa dæminu við, vegna þess að útvarpið á ekki að vera verndari þeirra, sem ráða í þjóðfélaginu, ekki tæki valdstjórnarinnar. Það á, eins og aðrir óháðir fjölmiðlar, að vera gagnrýnið, vakandi afl, veita aðhald, og umfram allt ætti stjórnkerfið eð tryggja, að slíkur fjölmiðill væri ekki viljalaust verkfæri viðkomandi ríkisstj.

Þetta geri ég að umtalsefni vegna þess, að hér er um að ræða grein á sama meiði og þetta frv. fjallar um. Þetta er spurningin um, hvar valdið í þjóðfélaginu liggur og hvernig það er notað. Stjórnmálaflokkarnir eru í vasandi mæli gagnrýndir vegna þess, hversu allsráðandi þeir eru í þjóðfélaginu. Ef vel á að vera eru flokkarnir lifandi hreyfingar, samtök fólksins í landinu, og það er í sjálfu sér ekkert ranglæti í því fólgið, að fólk fái áhrif og mannaforráð í samræmi við styrkleika síns flokks. En á sama tíma verða flokkarnir að átta sig á, að það er af sú tíð, að allir Íslendingar, sem kosningarétt hafa, séu flokksbundnir eða vilji binda sig á klafa einstakra stjórnmálastefna. Sá hópur fer stöðugt stækkandi, sem stendur utan stjórnmálaflokkanna, en gerir engu að síður kröfu til áhrifa og atbeina í þjóðlífinu. Þetta fólk vill, að tillit sé tekið til þess og að losað sé um þá samtengingu sem stjórnmálaflokkarnir hafa beint og óbeint gert með sér á öllum stigum stjórnsýslunnar. Í þessu sambandi er rétt að taka fram, að það er engin lausn að stofna nýja stjórnmálaflokka. Við sáum reynsluna af stofnun SF, sem hafði það efst á stefnuskrá sinni að ráðast gegn nefndri samtryggingu. Allir vita, hver hafa orðið örlög þess flokks hvað þetta snertir.

Nú er ég síður en svo að gera lítið úr þessum flokki sérstaklega, en ég vil einfaldlega benda á, að það, sem fólkið vill, er ekki endilega nýir flokkar, heldur meiri víðsýni af hálfu þeirra flokka, sem fyrir eru. Fleiri flokkar skapa aðeins aukinn glundroða og fleiri aðila, sem þurfa að komast að, og það eru því stjórnmálaflokkarnir sjálfir, sem þurfa að laga sig að hinum breyttu viðhorfum. Þessi viðhorf verða stjórnmálaflokkarnir að taka til rækilegrar og skjótrar athugunar, ef þeir eiga ekki að einangrast og hljóta sömu örlög og dönsku stjórnmálaflokkarnir. Við eigum að opna fleiri leiðir til áhrifa fyrir allan almenning, hvort sem hann kallast stétt, hagsmunahópur, neytendur, borgarar eða einfaldlega almenningsálit. Hvað útvarpið sjálft snertir getum við gert það m. a. með því að kjósa í almennum kosningum fulltrúa í útvarpsráð, stuðla að frjálsari útvarpsrekstri og með því að losa í meira eða minna mæli þau reyrðu bönd, sem hafa verið á Ríkisútvarpinu og rekstri þess undir yfirstjórn stjórnmálaflokkanna. Þetta frv. hefur þetta að markmiði og er flutt í þessum anda.

Ég fyrir mitt leyti vildi stuðla að mun frjálsari útvarpsrekstri en þetta frv. gerir ráð fyrir, en ég tel eftir atvikum skynsamlegt að stíga það skref ekki að fullu í þessum áfanga. Því er lagt til, að sveitarfélög fái heimild til staðbundins útvarpsrekstrar. Með þeirri heimild fengist nokkur reynsla af útvarpsrekstri annar en Ríkisútvarpsins sjálfs, og mætti þá draga lærdóm af þeirri reynslu. Till. samrýmist svo og þeim valddreifingarhugmyndum, sem stjórnmálamenu segjast í orði kveðnu a. m. k. fylgja. Við getum ekki dreift valdi, nema því fylgi nokkur ábyrgð, og annaðhvort treystum við fólkinu eða ekki. Allt hjal um valddreifingu er marklaust, ef öll völd og lokaákvarðanir eru áfram í opinberum stofnunum ríkisvaldsins með aðsetur í höfuðborginni. Hér fer saman að draga úr einkarétti ríkisins og efla sjálfsforræði og sjálfstraust þeirra, sem búa í strjálbýli víðs vegar um landið.

Ríkisútvarpið með staðsetningu í höfuðborginni hefur tvímælalaust ýtt undir og magnað þann hugsunarhátt, að flest í þjóðlífinu snúist um Reykjavík, þar sé vettvangur atburðanna og veröldin standi annars staðar kyrr. Fólkið fær nánari og betri fréttir af atburðum og hinu daglega lífi í Reykjavík heldur en af atburðum úr sinni heimabyggð. Staðbundnar útvarpsstöðvar ættu því að geta bætt hér verulega úr. Þær eiga að þjóna því hlutverki að miðla fréttum og frásögnum úr héraði, að veita þjónustu fyrir fyrirtæki og einstaklinga, að tengja landshlutann eða sveitarfélagið og þjappa fólkinu saman um hagsmuni sína og áhugamál.

Í einstökum byggðarlögum eru gerðar heiðarlegar tilraunir til að gefa út vikublöð, sem eð einhverju leyti eiga að gegna því hlutverki, sem hugmyndin um staðbundið útvarp er byggð á, en enginn vafi er á því að rekstur útvarpsstöðvar yrði mun ódýrari, hentugri og árangursríkari, enda þótt útvarpsstöð yrði engan veginn til þess að koma í staðinn fyrir blaðaútgáfu.

Mér er tjáð, að setja þurfi upp stúdíó og senda, sem numið gæti einhverjum stofnkostnaði, en ekki óyfirstíganlegum, ef þetta frv. kæmist til framkvæmda. Hér réðu að nokkru staðhættir. En stofnkostnaður ætti ekki að þurfa að fara yfir 2–3 millj. kr. í landshluta eins og t. d. Norðurl. e. Til rekstrar stöðvar þyrfti ekki meira en 1–2 menn, og færi slíkt eftir sendingartíma.

Í grg. er farið nokkrum orðum um tekjumöguleika slíkrar útvarpsstöðvar, og skal það ekki endurtekið hér. En ég vil undirstrika, að ég tel það ástæðulausan ótta, að tekjur Ríkisútvarpsins mundu skerðast af þessum völdum. Það er þvert á móti sannfæring mín, að Ríkisútvarpið hefði gott af þeirri takmörkuðu samkeppni, sem af minni staðbundnum stöðvum leiddi. Í því sambandi vil ég vekja athygli á þeim fjörkipp, sem hljóðvarpið tók, þegar sjónvarpið hóf útsendingar.

Þegar rætt er um einkarétt Ríkisútvarpsins og útvarpsstöðvar á Íslandi, er óhjákvæmilegt að víkja að þeirri útvarpsstöð, sem rekin hefur verið hér á landi um árabil við hlið Ríkisútvarpsins. Þar á ég við hljóðvarps- og sjónvarpsstöðina á Keflavíkurflugvelli. Þar hefur hljóðvarp verið rekið, frá því að varnarliðið kom til landsins, og sjónvarp allnokkru áður en íslenska sjónvarpið hóf starfrækslu. Hvort tveggja náði eyrum og augum velflestra hér á Reykjavíkursvæðinu, hvort heldur þeir tilheyrðu þessu varnarliði eða ekki. Það var að mínu viti reginhneyksli, að það skyldi viðgangast að varnarliðssjónvarpið væri hér eitt um hituna í allmörg ár. Það var í hæsta máta óviðeigandi og ósamboðið sjálfstæðri þjóð, þegar erlent hermannasjónvarp fékk, óátalið og stjórnlaust, að hafa einokun á því að senda sjónvarpssendingar inn á íslensk heimili. Vel má vera, að efnið hafi verið sárameinlaust og engan veginn tilefni þess fjaðrafoks, sem út af því var gert. En efnið sjálft var ekki heldur tilefni þessa heldur sú staðreynd, að það voru ekki íslendingar, heldur erlendir aðilar, sem ákváðu og réðu því, hvað birtist í þessum fjölmiðli, og það án þess að íslendingar hefðu nokkuð til viðmiðunar eða samanburðar. Það væri rétt eins og Pravda hefði eitt blaða, innlendra og erlendra, aðstöðu á Íslandi til blaðaútgáfu, og engin önnur blöð fengjust út gefin eða seld á sama tíma. Slík aðstaða er að sjálfsögðu ósamrýmanleg fullveldi einnar þjóðar, hvað þá sjálfsvirðingu hennar.

En með tilkomu íslenska sjónvarpsins breyttust þessar aðstæður. Nú rekum við Íslendingar okkar eigið sjónvarp, framleitt af okkur sjálfum handa okkur sjálfum. íslenska sjónvarpið er okkar staðbundna, en sjálfstæða stöð, Íslendinga, rétt eins og í þessari till. er gert ráð fyrir sjálfstæðum og staðhundnum útvarpsstöðvum í einstökum landshlutum. Svo framarlega sem við gefum út okkar eigin blöð, rekum okkar hljóðvarp og sjónvarp, verðum við að treysta því, að slíkir fjölmiðlar höfði til íslensku þjóðarinnar og tali hennar máli. Við stöðvum ekki rekstur erlendra fjölmiðla, né heldur ráðum við það hvort Íslendingar lesa erlend blöð eða hlusta á erlendar útvarpsstöðvar. Þar verður fólk að fá að velja og hafna og ráða sér sjálft. Þess vegna eru forsendur fyrir andstöðu gegn Keflavíkursjónvarpinu breyttar með tilkomu íslenska sjónvarpsins. En það er svo aftur matsatriði hvers og eins, hvort hann telur enn ósamrýmanlegt fullveldinu og þjóðerninu, að varnarliðsstöðin sé rekin, en það er ekki lengur forsenda eða röksemd, að sú stöð sé ein og allsráðandi á Íslandi.

Fjölmargir hafa haldið áfram baráttunni gegn Keflavíkursjónvarpinu, þrátt fyrir tilkomu íslenska sjónvarpsins. Að því hafa staðið menn úr öllum flokkum, bæði til vinstri og hægri. Einn stjórnmálaflokkur, Alþbl., lét málið sérstaklega til sín taka, meðan hann lék lausum hala í stjórnarandstöðu, og þá var helst að heyra af hálfu þess flokks, að varnarliðssjónvarpið væri höfuðsynd gegn íslenskri menningu. Svo undarlega hefur brugðið við, að eftir að Alþbl. tók sæti í ríkisstj. hefur hvorki heyrst hósti né stuna úr þeirri átt varðandi varnarliðssjónvarpið og reyndar alls ekkert frá stjórnarliðinu yfirleitt. Að vísu hafa örfáir einstaklingar, með meiri hluta útvarpsráðs í broddi fylkingar, haldið uppi andófi, en hér á Alþingi hefur ekki verið minnst á þetta mál frekar en það sé ekki til. Fram hefur komið í blöðum, að þegar ráðh. eru spurðir, vísa þeir hver á annan, og málinu er flækt í umræðum um það, hvort rekstur varnarliðsstöðvarinnar sé í samræmi við íslensk lög. Málið er komið í hnút vegna þess, að ekki virðist liggja ljóst fyrir, hvort stöðin sé lögleg samkvæmt íslenskum lögum eða ekki. Og helst er að skilja á þögninni og aðgerðaleysinu, að ríkisstj. og andstæðingar Keflavíkursjónvarpsins séu dús við þá niðurstöðu, að rekstur þessarar stöðvar sé samrýmanleg íslenskum lögum, ella hlytu ráðandi stjórnvöld að láta málið til sín taka og stöðva ólöglegan rekstur útvarpsstöðva erlendra aðila hér á landi.

Ef íslensk lög heimila rekstur útvarpsstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli, sú ályktun er dregin og menn komast að þeirri niðurstöðu, hvað þá með einkarétt Ríkisútvarpsins til útvarpsrekstrar á Íslandi? Allt er þetta á huldu. Sannleikurinn er sá að varnarliðssjónvarpið er búið að vera pólitískt feimnismál um langan tíma, og e. t. v. hefur nærgætnin gagnvart þessu sjónvarpi náð hámarki, eftir að núv. ríkisstj. tók við völdum. Það er staðreynd, að helmingur þjóðarinnar hefur, ef hann óskar þess, aðstöðu til að horfa á þetta sjónvarp, án þess að þær útsendingar hafi í raun og veru verið viðurkenndar af íslenskum stjórnvöldum. Ég hef fyrir satt, að um 20 þús. sjónvarpstæki hér á þéttbýlissvæðinu séu búin út til móttöku á útsendingum varnarliðssjónvarpsins. Og svo er verið að tala um, að Keflavíkursjónvarpið sjáist ekki eða megi ekki sjást.

Eitt er víst, að það er borin von, að núverandi stjórnvöld taki hér af skarið. Það er hins vegar fróðlegt rannsóknarefni, bæði pólitískt og menningarlegt, reyndar félagslega líka, hvernig þetta mál hefur gengið fyrir sig. Það hefur þróast og orðið eð slíkum veruleika, að jafnvel þeir, sem harðast börðust gegn Keflavíkursjónvarpinu, treysta sér ekki lengur né geta, að því er virðist, stöðvað það. Persónulega horfi ég ekki á þetta sjónvarp og hef haft samúð með þeim, sem gegn því hafa talað, sennilega vegna þess, að ég er eins og fleiri fullur af þjóðernislegum hleypidómum. En ég tel þýðingarlaust og vonlaust, eins og nú er komið málum, að tala um að loka Keflavíkursjónvarpinu. Þetta umrædda sjónvarp er orðið svo útbreitt, orðin slík staðreynd, að við því verður ekki hróflað úr þessu. Baráttan gegn slíkum sjónvarpsstöðvum er sennilega einnig orðin tímaskekkja vegna tækniþróunar og gervitungla, sem munu gera okkur kleift innan örfárra ára að fylgjast með flestum sjónvarpsstöðvum heims.

Herra forseti. Að nokkrum árum liðnum mun vart verða um það að ræða, að ríkið hafi einkarétt á útvarpsrekstri yfirleitt. Kemur þar hvort tveggja til, að tæknin mun leysa þann einkarétt af hólmi, og eins hitt, að almenningur mun einfaldlega ekki sætta sig við það fyrirkomulag til lengdar, að einhverjir pólitískir alvitringar segi til um það, hvað fólk eigi að horfa eða hlusta á. Sú þróun er óhjákvæmileg. Ef stjórnmálaflokkarnir laga sig ekki að þeirri þróun, munu völdin verða af þeim tekin, hvort sem þeim þykir það ljúft eða leitt. Svo framarlega sem Íslendingar bægja frá sér lögregluríki einræðis og öfgastefna, verður frjáls útvarpsrekstri hinn sjálfsagðasti hlutur, áður en við snúum okkur við. Þetta frv., sem ég er hér að gera grein fyrir og hef leyft mér að bera fram, er aðeins lítið skref í áttina til þeirrar þróunar.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til að að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.