17.12.1973
Efri deild: 42. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1488 í B-deild Alþingistíðinda. (1343)

94. mál, lyfjaframleiðsla

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Þetta mál er á engan hátt stórmál, hæstv. ráðh. Það, sem hefur vakið athygli mína á málinu, er það, hvernig frá því er gengið. Mér sýnist helst, að enginn lögfræðingur hafi komið nálægt því að semja frv. En það er kannske m. a. einn ókostur, að hæstv. ráðh. hafi fallið í þá gildru. En sannast sagna sýnist mér, að eftir því sem ég skoða þetta mál betur, sé það furðulegra.

Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans. Hann hefur mjög skilmerkilega staðfest það, sem ég hélt fram í upphafi, að í rauninni væri ekkert efni í frv., sem ekki væri þegar til staðar, og það eina, sem hér væri um að ræða, væri að veita ríkisstj. heimild til að gerast aðili að fyrirtæki um lyfjaframleiðslu. Þetta er út af fyrir sig allt í lagi að gera. En það er næsta nýstárlegt eð fara að lögfesta hér lög þess félags. Þetta yrði einkafyrirtæki með hlutdeild ríkisins. Og ég veit ekki, hvaða ástæða er til þess að fara að ákveða hér, hvernig þessu skuli skipta í deildir, og annað þess konar, en ekki að fyrirtækið ráði því sjálft. Svo verður mér á að spyrja: Er ætlunin, að þetta verði hlutafélag, eða ekki? Það er talað alls staðar um fyrirtæki. Auðvitað má skilja það á ýmsan hátt, það segir ekki til um, í hvaða formi þetta skuli vera. Sé ætlunin, að það verði hlutafélag, vantar í þetta ákvæði eitt veigamikið atriði, lögfræðilega séð, og það er um atkvæðisrétt og eignaraðild. Hluthafar eru ekki nema tveir. T. d. í ákvæðunum um kísilgúrverksmiðju er tekið fram, að það sé undanþegið hlutafélagalögunum hvað snertir þau ákvæði. Ég veit, að hæstv. ráðh. veit, að til þess að um hlutafélag geti verið að ræða skv. almennum lögum, þurfa aðilar að vera a. m. k. 5 og enginn getur farið með nema 20% atkvæða. Hér er hvergi að því vikið, hér er aðeins talað um fyrirtæki. Það er kannske ætlunin, að þetta verði sameignarfyrirtæki. En satt að segja eru sameignarfyrirtækin ekki allt of föst í reipum, og þannig er þetta kannske.

Ég bið hæstv. ráðh. að skilja þetta alls ekki svo, að ég sé á móti því, að þetta fyrirtæki sé stofnað. Mér finnst bara svo margar hugleiðingar koma upp við lestur á því, sem gera það að verkum, að ég verð frábitnari því, eftir því sem lengra líður, að samþykkja frv., vegna þess að mér finnst, að það þurfi að undirbúa þetta mál betur og gera sér betur grein fyrir því, hvernig það er hugsað. Það getur vel verið, að ég sannfærist betur við aukinn lestur á gögnum málsins. Það kann vel að vera.

Ég er ekki með neina hleypidóma í þessu efni, og eins og ég sagði áðan, er ég síður en svo á móti því, að slíkt fyrirtæki á vegum ríkisins verði sett á laggirnar með hlutdeild annarra framleiðsluaðila með frjálsum hætti. Og þá þarf ekki til þess annað en einfalda heimild Alþingis, að ríkið megi gerast aðill að slíku fyrrtæki að vissu marki, eiga hlut í því, ef það er hlutafélag, o. s. frv. En það þarf ekki að setja lög þess félags inn í lög frá Alþingi, þannig að það þurfi alltaf að breyta þeim, ef mönnum þykir henta að breyta um starfshætti. Að þessu leyti finnst mér þessi II. kafli vera ákaflega óheppilegur, og nánast settur til málalenginga. Ég fæ ekki séð annan efnivið í honum. Þetta mætti ósköp vel gerast með einni einfaldri gr. um heimild til þess, að ríkið gerðist aðili að slíku fyrirtæki með svo og svo miklu hlutafé að framlagi, ef um það yrði nánara samkomulag. Það væri alveg nægilegt.

Ég sé það nú aftur og skal játa, að ég var ekki búinn að lesa nóg í frv. til þess að ég gæti svarað sjálfum mér um það, að það er ekki hugmyndin að leggja niður Lyfjaverslun ríkisins. Þetta finnst mér nánast furðulegt og gerir það að verkum, að ég er enn fjarlægari frv. Ég hefði haldið, að það væri ætlunin að tengja þetta saman í eina heild. Þannig var rætt um málið á sínum tíma, eins og ég gat um áðan, en varð ekki úr því miður, á þeim tíma, þegar ég fór með yfirstjórn lyfjaverslunarinnar. Ég hefði haldið, líka þess vegna, að það hefði verið ástæða til að skoða þetta mál betur, alls ekki til að setja fótinn fyrir það, heldur til að kanna þetta betur. Það er sjálfsagt að veita heimild til þess, að ríkisstj. megi halda áfram þessu starfi sínu og koma þessu á laggirnar, en að ætlunin sé beinlínis, að Lyfjaverslun ríkisins haldi áfram, eins og þarna er tekið fram, get ég ekki skilið. Mikill þáttur í hennar starfi er lyfjaframleiðslan. Hæstv. ráðh. veit, að lyfjaframleiðsla er undirstöðuatriði hennar í rauninni. En mér hefði fundist, að það ætti að skella þessu saman. Og ég hefði viljað beina því til hæstv. ráðh. að íhuga það, áður en frv. gengur lengra, það verður hvort eð er ekki afgr. fyrir jól, hvort ekki væri rétt að nota tímann til að athuga það nánar. Ég efast um, að það þurfi að vera nokkur ágreiningur um málið, eins og hæstv. ráðh. gat um, ef það væri sett í dálítið eðlilegri búning, og ég treysti honum til að hafa forustu um þá málsmeðferð.