17.12.1973
Neðri deild: 43. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1502 í B-deild Alþingistíðinda. (1366)

71. mál, lögheimili

Félmrh. (Björn Jónsson) :

Herra forseti. Þetta frv. er stjfrv. og er komið frá hv. Ed., þar sem það hefur verið samþykkt einróma, eins og það var lagt fram, með einni minni háttar breytingu. Aðalefni frv., sem felst í fyrri mgr. 2. gr., varðar fyrst og fremst Vestmanneyinga vegna afleiðinga þeirra náttúruhamfara, sem þar dundu yfir á s. l. vetri. En þetta meginefni frv. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði laga þessara“, — þ. e. a. s. laga um lögheimili, — „er þeim, er lögheimili áttu í Vestmannaeyjum að kvöldi dags 22. jan. 1973, leyft að telja sig til lögheimilis í Vestmannaeyjum fram til 1. október 1974, þótt þeir dveljist utan Vestmannaeyja, nema þeir tilkynni dvalarstað sinn sem lögheimili með sérstakri tilkynningu.“

Það má segja, að þetta frv. sé flutt í tengslum við og raunar í beinu framhaldi af frv., sem áður hefur verið til meðferðar hér á hv. Alþ., um breyt. á l. um tilkynningar aðsetursskipta. En sú breyting, sem er meginefni þessa frv., hefur tvenns konar þýðingu. Í fyrsta lagi varðar þetta álagningu útsvara á árinu 1974 og hefur það í för með sér fyrir Vestmannaeyjakaupstað, að hann fær að njóta gjalda þess fólks, sem í land hefur flúið, þótt það teljist þar til bráðabirgða, og hygg ég, að allir séu sammála um, að Vestmanneyingum muni ekki af þessu veita til þess mikla uppbyggingarstarfs, sem í Eyjum þarf að framkvæma. Það kann að virðast, að þetta gerist að sumu leyti á kostnað annarra sveitarfélaga, þar sem Vestmanneyingar hafa fyrst og fremst sest að í verulegum mæli, en þá er líka á það að líta, að því hafa fylgt ýmsir kostir fyrir viðkomandi byggðarlög, m. a. aukið vinnuafl og enn fremur bygging Viðlagasjóðshúsa, sem væntanlega munu leysa húsnæðisþarfir þeirra, og verða jafnframt gjaldstofn að einhverju leyti til viðkomandi sveitarfélags. Einnig þýðir þessi breyting það, að Vestmanneyingar, sem dveljast til bráðabirgða í landi, munu hafa kosningarrétt í Vestmannaeyjum í næstu sveitarstjórnarkosningum, sem fram eiga að fara í maí á næsta ári, og verður að teljast eðlilegt, að það sé ekki hindrað af löggjafans hálfu, að Vestmanneyingar njóti þessa réttar, þó að þeir dveljist í landi til bráðabirgða, en meginhluti þessa fólks mun að öllum líkindum flytja aftur til Eyja. Virðist því ekkert eðlilegra en það með kosningarétti sínum geti haft áhrif á það, hvernig bæjarfélaginu verði stjórnað næstu 4 árin.

Enn má svo geta þess, eins og minnst er á í grg. frv., að verði þetta frv. að l., verður um minni röskun að ræða á högum Jöfnunarsjóðs en ella hefði orðið. Það verður að vísu að reikna með því, að það verði allmikið framlag úr Jöfnunarsjóði vegna fólksfækkunar í Vestmannaeyjum, þ. e. a. s. vegna þeirra, sem hafa tilkynnt aðsetursskipti með sérstakri tilkynningu, eins og ákveðið er í l. um tilkynningar aðsetursskipta. En ef lögheimili væru eingöngu í þessum tilfellum látin ráðast af dvalarstað, þá mundi það leiða til þess, að í þeim sveitarfélögum, sem fyrst og fremst hafa hýst Vestmanneyinga, mundi verða um fólksfækkun að ræða, þegar þeir flyttu til baka. Allt þetta mundi valda óeðlilegri og óæskilegri röskun á greiðslum úr Jöfnunarsjóði, a. m. k. næstu tvö árin, þannig að allt virðist bera að sama brunni, að þessi ákvæði, sem ég hef nefnt, séu fullkomlega eðlileg og sjálfsögð, og vona ég, að um það verði ekki neinar deilur.

Í leiðinni hefur svo verið gerð lítils háttar breyting, sem felst í 1, gr. frv., að ósk Hagstofunnar, sem er þess efnis, að fólk, sem hefur húsnæði til sumardvalar eða hliðstæðrar tímabundinnar dvalar í öðrum sveitarfélögum en það dvelst í að jafnaði, geti aldrei talist eiga heimili í fleiri sveitarfélögum en einu samkv. ákvæðum fyrri mgr. Þessu ákvæði er ætlað að koma í veg fyrir óeðlilega talda lögheimilisbúsetu, sem oft er reynd og jafnvel af annarlegum og skattalegum ástæðum. En þessi breyting er flutt að mjög eindreginni ósk Hagstofunnar.

Eins og ég sagði áðan, var frv. breytt lítillega í hv. Ed. Fresturinn til að skila sérstakri tilkynningu um dvalarstað var upphaflega í frv. ákveðinn 1. júní, en réttara þótti, að fengnu áliti bæjarstjórnar Vestmannaeyja og Hagstofunnar, að framlengja þetta til 1, okt. 1974, þar sem sérstaklega væri von til þess, að allmargt fólk mundi flytja til Eyja síðla næsta sumars.

Ég hef ekki fleiri orð um þetta, herra forseti, en legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. félmn.