18.12.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1536 í B-deild Alþingistíðinda. (1399)

392. mál, tafir á lagningu rafmagns á sveitabæi

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Ég hef vísað þessari fsp. til Rafmagnsveitna ríkisins og fengið svo hljóðandi svar:

„Með bréfi hv. rn., dags. 29. 11. 1973, er óskað umsagnar um svo hljóðandi fsp. Jónasar Jónssonar alþm.: „Hefur skortur á efni, svo sem spennum, valdið töfum á því, að hægt væri að tengja bæi við samveitu, sem fyrirhugað var að fengju rafmagn á s. l. sumri eða hausti, og ef svo er, hverju sætir slíkt?“ Af þessu tilefni vil ég leyfa mér að taka þetta fram:

1. Á árinu 1973 var gert ráð fyrir að rafvæða um 260 býli og aðra staði í sveit. Til þessara framkvæmda þurfti að byggja um 560 km af háspennulínum og setja upp um 230 spennistöðvar.

2. Tafir á framkvæmdum hafa verið af neðan greindum sökum: Stólpar, sem afgreiðast áttu í júní frá Finnlandi samkv. samningi, voru ekki afgreiddir fyrr en í ágúst vegna verkfalla þar í landi. Spennar frá Bandaríkjunum, sem áttu að afgreiðast í sept., okt. og nóv., 60 talsins í hverjum mánuði, samkv. samningi, eru ókomnir enn þá, en 80 eru væntanlegir nú um miðjan des. Efni og vinnuflokkum, sem ætlað var til framkvæmda sveitarafvæðingar, þurfti um tíma að ráðstafa til lagningar línu vegna viðlagasjóðshúsa víðs vegar um landið. Þannig var t. d. einn slíkur vinnuflokkur um mánaðartíma við byggingu línu til viðlagasjóðshúsa í Keflavík.

Því miður hafa framangreindar ástæður orðið til seinkunar á lúkningu sveitarafvæðingarinnar fyrir árið 1973, en Rafmagnsveiturnar munu, eftir því sem kostur er, reyna í vetur að vinna upp nefndar tafir.

Valgarð Thoroddsen.“