18.12.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1541 í B-deild Alþingistíðinda. (1409)

393. mál, vextir og þóknun lánastofnana

Fyrirspyrjandi (Björn Pálsson) :

Herra forseti. Það er ekki tími til að fara ítarlega út í fsp. þessa. Ég hef leyft mér að leggja hér fram fsp. í nokkrum liðum viðvíkjandi því, hvort vaxtahækkun sú, sem ákveðin var s. l. vor, hafi verið gerð með samþykki ríkisstj., og í öðru lagi, hvort bankamrh. álíti, að Seðlabankinn geti ákveðið hækkun og lækkun vaxta án samþykkis ríkisstj., enn fremur fsp. um, hvaða vextir eru nú í bönkum og stofnlánasjóðum, og í fjórða lagi, hvort viðskiptabönkum sé heimilt að taka þóknun auk vaxta og stimpilgjalds, er þeir kaupa víxla. Þetta liggur allt fyrir, og ég veit, að hæstv. bankamrh. skilur þetta allt saman vel, og ég þarf ekki að fara að útskýra þessa liði.

Á æskuárum viðreisnarstjórnarinnar var það ákveðið að flytja vald til að ákveða vexti og eins gengi frá þinginu og upp í Seðlabanka. Þeir voru stórtækir á þeim árum og hækkuðu vextina. (Gripið fram í.) Jæja, upp eða niður, það skiptir engu máli, út í Seðlabanka væri líklega réttast að hafa það, en það skiptir ekki máli. En þeir hækkuðu víxilvexti upp í 12% þá og hækkuðu vexti stofnlánadeilda úr 4½% í 6½%, að ég ætla. Við héldum margar og stórar ræður um þetta í stjórnarandstöðunni. Ég var náttúrlega dvergur hjá þessum risum, eins og hæstv. sjútvrh. eða bankamrh. núv. og núv. forseti Sameinaðs þings, þeir höfðu aðallega orð fyrir okkur á þeim árum. En eitthvað var ég að segja líka, og við vorum allir sammála um, að þetta væri óhæfuverk og óhæft fyrir atvinnuvegina. Nú veit ég, að af því að þessir menn eru góðum gáfum gæddir, þá muna þeir þessar ræður sínar og ég þarf ekki að lesa þær upp, enda hef ég engan tíma til þess.

Nú skeði það fyrir s. l. áramót, að gengið var lækkað um 10%. Ég ætla nú ekki að vera að deila á Alþb.-mennina fyrir það og ekki heldur flokksbræður mína, því að þeir réðu þessu ekki, þeir voru knúðir til þess af litlum flokki, sem er kallaður Samtök frjálslyndra og gengið var lækkað um eitthvað 10–12%, og ég fór þá heim heldur en vera að greiða atkv. með þessari vitleysu. En hvað sem því líður var þetta gert. Nú vitum við það, að eitt, sem þeir í Seðlabankanum kunna, er að lækka gengi, og þeir eru yfirleitt fljótir að því. Eins og þið vitið, fjölgar krónunum, þó að þær minnki, þegar gengi er lækkað. Þá fást fleiri krónur fyrir afurðabirgðirnar í landinu, og ríkisstj. lætur Seðlabankann hirða þetta, þannig að atvinnuvegirnir geta ekki fengið þar fleiri krónur, krónurnar bara minnkuðu. Það eru tvær hliðar á þessu máli, og ég deildi víst einhvern tíma um þetta.

En nú skeði það aftur, góðu heilli, að ríkisstj., sem var nauðgað til að lækka gengið fyrir áramótin, hækkaði gengið aftur snemma á þessu ári. Þá skildist mér, að það væri eðlilegt, að atvinnuvegirnir fengju þessa aura aftur, sem hefðu verið hafðir af þeim. Þó að það standi ekki á þessu þskj., langar mig til að fá upplýsingar um það hjá hæstv. bankamrh., af því að ég veit, að hann er glöggur og lítur vel eftir þjónum sínum, hvað hafi verið gert við þetta fé, hvort það sé geymt niðri í Seðlabanka og hvort meiningin sé að skila þessu fé.

Ég varð mjög hissa og ánægður í vor, þegar átti að hækka gengið, og var búinn að láta það álit mitt í ljós við forsrh. a. m. k. oftar en einu sinni. Hins vegar var ég alveg hissa á vaxtahækkun allt í einu. Þið getið lesið ykkur til gamans ræðurnar, sem haldnar voru af okkar hálfu, þegar vextir voru hækkaðir. Ég skil ekki þetta hjá Seðlabankanum. Það er engin ákveðin regla fyrir, hvernig honum dettur í hug að hafa þetta. 1960, held ég, að það hafi verið, var gengið lækkað geysilega mikið, þá hækkuðu þeir vextina mikið, upp í 12½%, það átti að vera til að örva sparifjársöfnun. 1973 hækkaði gengið, og þá hækkuðu líka vextirnir, þannig að það virðist ekki vera nein ákveðin formúla fyrir því, hvenær eigi að hækka vexti og hvenær ekki.

Nú vil ég leyfa mér að benda bankamrh. á það, og veit ég náttúrlega, að hann gerir sér það alveg ljóst, að það eru tekin þarna 10% af útflutningsverðmæti vörunnar. Svo er gengið hækkað aftur. Á þennan hátt eru fyrirtækin, sem eiga þessar vörur, féflett og það um stórfé, og um leið er stórlega þrengt að þeim með vaxtahækkuninni. Og menn vita, hvernig fyrirtækin hafa farið, t. d. iðnaðarfyrirtækin. Pétur Pétursson, ég veit ekki, hvort hann er nú hér, gæti svarað fyrir Álafoss, ætli það fyrirtæki hafi ekki tapað jafnvel svo að skiptir tugum millj. á þessum ráðstöfunum, vaxtahækkuninni? Og svo hirða þeir þetta. Ég býst við, að það sé vel geymt, en það er ekki búið að skila því. Sú lækkun, sem varð í krónutölu á afurðunum, skipti samvinnufélögin í heild upp undir 150 millj., og svo heldur þetta náttúrlega áfram með vaxtahækkuninni, og fyrir fyrirtækin í landinu er þetta stórfé. Ég hef það ekki í höndunum nákvæmlega, efi ég gæti trúað, að það yrði svona milljarður eða jafnvel meira. (Forseti hringir.) Ég spyr nú svo sjaldan, að það er óhætt að lofa mér — (Forseti: Ég held ekki, að hv. þm. þyrfti lengri tíma en aðrir til að segja meiningu sína.) Já, en þeir, sem vita mikið, þurfa langan tíma.