18.12.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1555 í B-deild Alþingistíðinda. (1426)

398. mál, framkvæmd sveitarafvæðingar á Austurlandi 1973

Fyrirspyrjandi (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Fsp. minni á þskj. 193 vil ég fylgja úr hlaði með aðeins örfáum setningum.

Þegar ég varð þess áskynja, að margir þeirra rétt um 100 sveitabæja á Austurlandi, sem leggja átti rafmagn til frá samveitum á þessu ári samkv. þriggja ára áætluninni, fengju ekki rafmagn fyrir áramót, ákvað ég að bera fram þessa fsp. Á Alþ. í fyrravetur tókst ágætt samstarf um fjáröflun til sveitarafvæðingarinnar. Ég átti þá sem formaður fjh.- og viðskn. Nd. þátt í því í fullu samráði við iðnrh. og rn. hans og Rafmagnsveitur ríkisins, að lántökuheimild vegna rafvæðingar sveitanna í framkvæmdaáætlun ríkisins var hækkuð úr 40 millj. í 110 millj. kr., og það þótti þá, á útmánuðum, líkleg fjárhæð til að mæta kostnaði, ásamt þeim 50 millj. kr., sem veittar voru til þeirra hluta í fjárl. Nú þykist ég einnig hafa fylgst töluvert með því, hvernig framkvæmdastjóri Rafmagnsveitna ríkisins á Austurlandi hefur, að því er mér virðist, lagt sig allan í framkróka um að þoka framkvæmdum áleiðis nú í sumar. Mér er einnig kunnugt um, að síðsumars fengu Rafmagnsveitur ríkisins vinnuflokk, að sunnan einhvers staðar, til að leggja línu um syðsta hreppinn á Austurlandi, sem rafvæða átti í sumar, þ. e. a. s. Geithellnahrepp. En þrátt fyrir þetta verður niðurstaðan sú, að framkvæmdum þessum verður hvergi nærri lokið, a. m. k. ekki á Austurlandi, fyrir áramót. T. d. í Álftafirðinum, þ. e. Geithellnahreppnum, var aðeins búið að reisa, að því er mér skilst, og strengja að nokkru um það bil helming línunnar, og var byrjað þar á þeim endanum, sem fjærst liggur orkugjafa.

Þar sem hvort tveggja er, eins og ég sagði áðan, að Alþ. hefur sýnt fullan vilja á því að fjármagna sveitarafvæðinguna, svo að hún gæti fram farið með þeim hraða, sem þriggja ára áætlunin kveður á um, og svo hitt, að þeir, sem nú lenda í bið mót von sinni, una því að sjálfsögðu illa, þá fannst mér ástæða til að biðja hæstv. orkumálaráðh. að upplýsa hér og nú, hvað töfunum veldur. Ég tel mjög æskilegt, allra hluta vegna, að það liggi fyrir eins ljóst og verða má.