29.10.1973
Neðri deild: 7. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

28. mál, ábúðarlög

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég er í höfuðatriðum samþykkur þessu frv. og tel eðlilegt að færa l. saman í einn lagabálk, eins og hér er gert, sérstaklega með tilliti til þess, hversu miklar breytingar hafa orðið nú á seinni árum. Ábúðarl. voru endurskoðuð síðast 1961, og síðan þá hefur vitanlega margt breyst. Í gildi eru enn lög frá 1933 og 1951, sem setja, eins og hæstv. ráðh. sagði, mismunandi skilyrði fyrir ábúð. Segja má, að þeim fækki nú óðum, sem sitja í ábúð samkv. l. frá 1933 og þau verki litið nú orðið á framkvæmd í þessu tilliti. En ég held, að það sé heppilegt að sameina lögin í einn lagabálk, og alla vega er það hægara, a. m. k. fyrir ólögfróða menn, að fletta upp í l., eftir að þan hafa verið sameinuð.

En það er eitt í þessu frv. sem ég er ekki samþykkur. Hér er talað um byggðaráð. Byggðaráð eru engin til samkv. l., en það hefur verið útbýtt frv. til jarðal., og þar er gert ráð fyrir, að skipuð verði byggðaráð, eitt byggðaráð fyrir hverja sýslu. Byggðaráði er ætlað það hlutverk að hafa umsjón með framkvæmd ábúðarl. En eins og þetta er í gildandi l., eru það sveitarstjórnirnar, Landnámið og Búnaðarfélagið, sem hafa með þessi mál að gera. Sveitarstjórnirnar vilja áreiðanlega hafa áfram hönd í bagga með því, hvernig fer með ábúð jarða í sveitarfélagi, og það er ekki eðlilegt að ákveða með l. breytingu á því, sem nú er í gildi, án þess að hafa fengið um þetta umsögn sveitarstjórnanna, umsögn Landnámsins og umsögn Búnaðarfélagsins. Ég ætla ekki að gera lítið úr því, að byggðaráð geti gegnt þessu hlutverki. En ég hef sannfæringu fyrir því, að það hefði að mörgu leyti lakari aðstöðu til þess heldur en sveitarstjórnirnar og heldur en Landnámið og Búnaðarfélagið, sem þekkja þessi mál alveg frá grunni og hafa möguleika til þess að ráðstafa jörðum, eftir því sem best verður á kosið, með hagsmuni sveitarfélagsins og þjóðarinnar fyrir augum. Þótt jarðir hafi farið í eyði á undanförnum árum, er það ekki vegna þess, að fyrirkomulagið hvað þetta snertir hafi verið slæmt. Það hafa komið upp vandamál, sem síður hefðu verið leyst, ef eitt byggðaráð hefði átt að hafa eftirlit með þessu, heldur en með því, fyrirkomulagi, sem nú er í gildi.

Ég tel ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta. Ég er í höfuðatriðum samþykkur því, sem er í þessu frv., þegar þetta er undanskilið, og tel því ekki ástæðu til að segja meira um það að svo stöddu, en vildi vekja athygli á þessu atriði, svo að hv. landbn. hafi það til hliðsjónar.