18.12.1973
Neðri deild: 47. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1585 í B-deild Alþingistíðinda. (1470)

102. mál, veiðar með botnvörðu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelgi

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég get því miður ekki orðið við þeim tilmælum að fallast á, að frv. verði svo búið afgreitt úr hv. d. Það er að vísu svo, að ég hef áður lýst því yfir, að þetta frv. er með þeim hætti, að því fer víðs fjarri, að ég sé ánægður með það. Það er raunar svo að það byggist á allt öðrum forsendum en ég hefði kosið. Ég vil enn fremur fara eindregið fram á það við hæstv. forseta, að hann fresti þessari umr., af því að hér er fjarstaddur af óviðráðanlegum orsökum sá maðurinn, sem einna mestan áhuga hafði á þeirri breyt., sem tekin var inn af hv. d., en felld í Ed. og varðar undanþágur til veiða í Faxaflóa, og það er hv. 10. þm. Reykv., Pétur Sigurðsson.

Ég vil leyfa mér að bera fram skriflega brtt. við frv., eins og það hljóðar nú. Sú brtt. var borin fram í Ed. og er við 10. gr., þar sem segir svo, með leyfi forseta:

„Ráðh. er heimilt, að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar, að veita eftirgreindar veiðiheimildir í fiskveiðilandhelginni, auk þess, sem annars staðar er getið í lögum þessum.“

Í stað þess að binda umsögnina einvörðungu við Hafrannsóknastofnunina, leyfi ég mér að leggja til, að tillgr. hljóði svo:

„Ráðh. er heimilt að fenginni umsögn Fiskifélags Íslands og Hafrannsóknastofnunarinnar“ o. s. frv.

Við vitum, að í Hafrannsóknastofnuninni eru fiskifræðingar okkar, en á hinn bóginn á Fiskifélag Íslands að vera hinn fiskveiðapólitíski aðili, sá sem að sjálfsögðu gætir sérstaklega hagsmuna útgerðarinnar í landinu. Þá leiðir af sjálfu sér, að óþarft er niðurlag síðustu mgr., þar sem segir:

„Togveiðiheimildir samkv. tölul. nr. 1–8 skulu jafnan vera tímabundnar, og auk umsagna Hafrannsóknastofnunarinnar“ o. s. frv.

Það niðurlag er óþarft, og fyrir því legg ég til, að síðasta mgr. 10. gr. hljóði svo: „Togveiðiheimildir samkv. tölul. nr. 1–8 skulu jafnan vera tímabundnar.“

Eins og ég sagði, fer ég fram á það, að umr. verði frestað. Ég sé ekki, að nein vá sé fyrir dyrum um framgang málsins eftir sem áður. Þetta mál er það margrætt og þaulrætt, að ég á ekki von á því, að um laugar frekari umr. verið að tefla, aðeins að þeim hv. þm., sem mestra hagsmuna hefur að gæta varðandi höfuðbreytinguna, sem fram fór í hv. Ed., gefist kostur á því að láta í ljós skoðun sína nú. Þetta mál, eins og ég segi, hefur verið það þaulrætt, og enda þótt ég sé með örlitlar brtt. við það, þá á það ekki að leiða til þess að verða frv. að neinu fótakefli. Mínar till. eru, má segja, þann veg úr garði gerðar, að frekar er um leiðréttingu að tefla, enda er tekið upp úr síðustu mgr.10. gr., að ráðh., ef honum þykir ástæða til, skuli leita umsagnar Fiskifélagsins. Til þess að taka af öll tvímæli um þetta, er þessu bætt inn í, enda einvörðungu um það að ræða, að þarna sé það niðurnjörvað, að hann skuli einnig leita umsagnar Fiskifélagsins ásamt með Hafrannsóknastofnuninni.

Ég bið hæstv. forseta að taka við hinni skrifl. brtt.