19.12.1973
Sameinað þing: 39. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1641 í B-deild Alþingistíðinda. (1495)

1. mál, fjárlög 1974

Félmrh. (Björn Jónsson) :

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir einni lítilli brtt., sem ég flyt á þskj. 307, en hún er um það, að einn liður í till. samvn. samgm. um flóabáta og vöruflutninga hækki, þ. e. a. s. rekstrarstyrkur Djúpbátsins h/f. Fagraness, 25. liður á þskj. 284, hækki úr 5 millj. og 500 þús. kr. í 6 millj. og 500 þús. kr.

Þessi till. er flutt vegna þess, að við nánari athugun í samgrn. á rekstri og hag Djúpbátsins h/f, eftir að kunnugt var um, hverjar till. n. voru, hefur komið í ljós, að sá rekstrarstyrkur, sem lagður er til af samvn., er ekki nægjanlegur. Það er ljóst, að á s. l. ári var halli á rekstri félagsins um 300 þús. kr. umfram afskriftir, og á þessu ári verður hallinn miklu meiri, sennilega nálægt 3 millj. kr. Ástæður fyrir hallanum á s. l. ári voru þær, að ekki var leyft að hækka fargjöld og flutningsgjöld og taxta í samræmi við hækkuð rekstrarútgjöld. Það var a. m. k. ein af aðalástæðunum. Á þessu ári hafa tekjur hins vegar orðið minni en gert var ráð fyrir. Það hafa myndast skuldir, sem nú verður ekki lengur komist hjá að greiða, og eru m. a. vátryggingagjöld skips, slysa- og ábyrgðartryggingar, og nema þær skuldir nokkuð á aðra millj, kr. Þá eru einnig fyrirsjáanlegar hækkanir á rekstrargjöldum næsta ár, aðallega hækkun á olíu og hækkun á launum áhafnar skipsins. Ég tel þess vegna nauðsynlegt, ef á að tryggja þessar nauðsynlegu samgöngur, sem Djúpbáturinn veitir, að hækka rekstrarstyrkinn um 1 millj. kr., og verði það ekki gert, tel ég mikla hættu á og jafnvel víst, að rekstur skipsins muni stöðvast á næstu mánuðum.

Það skal tekið fram, að rekstur þessa skips hefur gengið vel árið 1972, og hef ég ekki heyrt annað en menn væru sammála um, að hagsýni og ráðdeildar hafi jafnan gætt í rekstri þess. Víst er um það, að fyrirtækið, sem hefur gert þennan bát út, hefur ekki geri meiri kröfur en aðrir til ríkisvaldsins um fjárveitingar, því að hækkanir hafa yfirleitt verið mun minni til þessa flóabáts en til annarra, sem sambærilegir gætu talist.

Ég sé ekki ástæðu til. herra forseti, að hafa um þetta fleiri orð, en legg áherslu á, að ég tel fulla nauðsyn, að þessi leiðrétting sé gerð. Með því er ég ekki að gagnrýna afgreiðslu samvn. yfirleitt, ég tel, að hún hafi unnið af mikilli samviskusemi ekki síður nú en áður, þó að ég telji, að þessar litlu leiðréttingar þurfi við, til þess að sæmilega megi við una.