19.12.1973
Sameinað þing: 39. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1645 í B-deild Alþingistíðinda. (1497)

1. mál, fjárlög 1974

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Ég vil aðeins í sambandi við þá till., sem hv. síðasti ræðumaður mælti hér fyrir, gera örstutta grein fyrir því, á hverju sú ákvörðun ríkisstj. byggist, að ekki skyldi stefnt að byggingu sögualdarbæjar á þjóðhátíðarárinu.

S. l. vetur skrifaði ég formönnum allra þingflokka bréf í samráði við þjóðhátíðarnefnd, þar sem ég lagði fyrir þá tvær spurningar. Hin fyrri var sú, hvort þeir væru því samþykkir, að efnt yrði til þjóðhátíðarhalds á Þingvöllum. Hin önnur var sú, hvort þeir væru samþykkir því, að stofnað yrði til byggingar sögualdarbæjar. Það þótti sjálfsagt þrátt fyrir fyrri ráðagerðir af hálfu Alþ. að leita til Alþ. með þessar spurningar vegna þessara framkvæmda, því að ljóst var, að þær mundu kalla á fjárveitingar. Þingflokkarnir fengu langan tíma til umhugsunar, en síðan kvaddi ég formenn þingflokkanna á minn fund og reyndar tvisvar sinnum og bar þessar spurningar þá upp við þá og leitaði svara við þeim. Fyrir mitt frumkvæði var í raun og veru breytt þeirri tilhögun, sem hafði verið hugsuð í sambandi við þjóðhátíðarhald á Þingvöllum, þar sem þjóðhátíðarnefnd hafði upphaflega gert ráð fyrir tveggja eða þriggja daga hátíðarhöldum, var nú miðað við eins dags hátíðarhöld. Þessum spurningum svöruðu formenn þingflokkanna á þá lund, að þeir mæltu með eða gátu fallist á eins dags hátíðarhöld á Þingvöllum, nema hvað formaður eins þingflokksins hafði fyrirvara um það, að í hans flokki væru um þetta skiptar skoðanir.

Þegar svo kom að síðari spurningunni, um það, hvort efnt skyldi til byggingar sögualdarbæjar, vildi enginn af formönnum þingflokkanna mæla með því, nema hvað formaður þingflokks Sjálfstfl. lét þess getið, að í þeim flokki hefðu verið skiptar skoðanir um þetta og að mér skildist a. m. k, helmingur þm, þar verið með byggingu sögualdarbæjar, en þó af þeim, sem með voru, verulegur hluti á þeim grundvelli, að sögualdarbærinn væri byggður í Reykjavík. Þegar þessar upplýsingar lágu fyrir, tók ríkisstj. þá ákvörðun, sem frá mun hafa verið sagt á sínum tíma, að það skyldi stefnt að þjóðhátíðarhaldi á Þingvöllum í einn dag, en ekki átt við byggingu sögualdarbæjar.

Ég vil aðeins láta þetta koma fram, til þess að það sé ljóst, á hverju ákvörðun ríkisstj. byggðist. Hún byggðist á þessu viðhorfi, sem þá kom fram af hálfu þingflokkanna, en ekki á því, að ríkisstj. út af fyrir sig væri andstæð byggingu sögualdarbæjar.

Það var að vísu svo í fyrravetur, að það reis nokkur alda, — einkennileg alda, vil ég segja, — sem ekki virtist geta hugsað sér, að Íslendingar minntust 1100 ára byggðar í landi sínu. En þær raddir eru nú hljóðnaðar, sem betur fer. Ég hygg það vel farið og fulla ástæðu til, að þjóðin minnist með veglegum og myndarlegum hætti þess, að hún hefur þrátt fyrir ýmislegt, sem á dagana hefur drifið, lifað 1100 ár í landinu. Ég tel þetta mál allt í raun og veru og forustu í því hafa frá öndverðu verið hjá þinginu. Það er Alþ., sem tók fyrst ákvarðanir um þetta efni, og ég tel eðlilegt, að það hafi forustu um það. Þess vegna er það, að ef meiri hl. þm. vill samþykkja þá till., sem nú hefur verið borin fram um byggingu sögualdarbæjar, þá hef ég síður en svo nokkuð á móti því. Það verður að vísu sjálfsagt alltaf óráðin gáta, hvort sá bær, sem byggður kann að verða, verður nokkuð Ifkur þeim bæjum, sem menn hafa búið í á sinni tíð. Það er í mínum huga algert aukaatriði. Ef bærinn verður myndarlegur og til sýnis, geta menn gert sér í hugarlund, að svona hafi verið búið þá.

Ég vil út af fyrir sig alls ekki mæla á móti þessari till., en hef aðeins talið rétt að rekja aðdragandann að því, að ákvörðunin um þetta efni var tekin á þá lund eins og gert var. Og ég vona, að hér sé alveg nákvæmlega rétt skýrt frá um það efni.

Ég ætla ekki að fara að tala hér almennt um fjárl. Ég ætla aðeins að segja það, að vissulega geta menn litið misjafnlega bjartsýnum augum á framtíðina. En hitt væri kannske ástæða til að hugleiða, ef þær kynslóðir, sem hafa lifað í þessu landi frá upphafi, mættu nú eiga sinn fulltrúa í þingsalnum og segja frá reynslu sinni, hvað þeir mundu segja um árið, sem við kveðjum senn. Mundi það verða þeirra vitnisburður, að þjóðin hefði á þessu ári varla haft til hnífs og skeiðar? Ég held ekki. Ég held, að hverjum augum sem við lítum á framtíðina, þá sé það argasta vanþakklæti og skömm að viðurkenna ekki, að við höfum haft hér gott og gjöfult ár.