19.12.1973
Neðri deild: 50. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1678 í B-deild Alþingistíðinda. (1541)

102. mál, veiðar með botnvörðu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelgi

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það eru aðeiðs örfá orð. — Hv. 4. þm. Austf. hafði ekki mikið álit á fiskveiðilaganefndinni. Það voru ekki heldur mín orð, að sú n. eða þær niðurstöður, sem hún hefur komist að, væru heilagar. Eigi að síður varði hún þó löngum tíma og fyrirhöfn í að kynna sér afstöðu manna víðs vegar um land og komst að vissri niðurstöðu, sem hún lét á þrykk út ganga. Þessi sami hv. þm. spurði: Hvað hefur breyst frá því í haust? Já, hvað hefur breyst frá því, að þetta frv. var lagt fram? Það skyldi þó aldrei vera það, sem nefna mætti, að það hafa verið gerðir samningar við Breta, og er það kannske m. a. þeirra vegna, sem þeir, sem um þetta mál hafa fjallað, hafa séð ástæðu til þess að færa stóru togarana nær landinu, m. a. í Kolluál á Breiðafirði? Sannleikurinn er sá, að breiðfirskir sjómenn og útgerðarmenn hafa gengið mjög langt í friðunarátt. Þeir hafa reynt og lagt hart að sér að ná samkomulagi eða samræma skoðanir sínar, og þeim tókst það, eins og ég greindi frá fyrr við umr. þessa máls. En þær till., sem þeir loksins náðu samkomulagi um, hafa nú allar verið stráfelldar eða ekki virtar viðlits í hv. sjútvn. d. Það væri freistandi að ætla, að a. m. k. sumir hv. fulltrúa í sjútvn. hefðu ráðið sig í skiprúm hjá 4. þm. Austf. En það er eins og einn Grundfirðingur sagði, sem kom hingað til Reykjavíkur út af þessum málum: Hvernig er það með ykkur alþm., veitið þið engum umþóttunartíma nema Bretum? Það er vitað mál, að það eru margir smábátaeigendur við Breiðafjörð, sem eiga mjög erfitt með að laga sig að þeim aðstæðum, sem frv. býður upp á í þeirri mynd, sem það nú er.

Ég ætla svo ekki að lengja þessar umr., en vænti þess einungis, að till. á þskj. 306 nái samþykki.