22.01.1974
Sameinað þing: 44. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1714 í B-deild Alþingistíðinda. (1607)

161. mál, endurskoðun olíusölunnar

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Það var í rauninni aðeins eitt atriði, sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda Eggert G. Þorsteinssyni, sem ég sé ástæðu til að víkja að. Hans orð féllu á þá lund, að hann teldi nú sérstaka ástæðu til þess að taka þessi mál til athugunar, svo að sá eini aðili, sem við keyptum olíu af nú, hefði ekki aðstöðu til að herða svo tökin að atvinnuvegum þjóðarinnar, að hættulegt væri. Þetta voru nokkuð furðuleg ummæli. Hv. þm. veit mætavel, að íslensk stjórnvöld kaupa þá olíu, sem keypt er til landsins, með sérstökum samningi við Sovétríkin, en auðvitað geta íslensk stjórnvöld keypt alla olíu til landsins, ef þau vilja, frá hverjum öðrum sem er. Hér er auðvitað ekki um neitt annað að ræða en það, að við höfum kosið og talið okkur það hentugast, við sætum þar við best kjör, að eiga þessi viðskipti við þann aðila, sem við höfum átt við. En auðvitað erum við gersamlega frjáls að því að eiga viðskipti við hvern annan sem er. Þessi aðili hefur því enga aðstöðu til að sýna okkur neina hörku í þessum efnum, enda er alls ómaklegt að segja það í sambandi við viðskipti við þennan aðila varðandi þessa vörutegund. Það er samdóma álit þeirra, sem um þessi mál hafa fjallað, að við höfum notið mjög góðs viðskiptalegs og öryggislega séð að undanförnu af þessum viðskiptum. Ef það væri álit manna hér, að rétt væri að hverfa frá þessum viðskiptum, er algerlega frjálst af okkar hálfu að gera það. Það er sem sagt í höndum íslenskra stjórnvalda.

Það eru allt aðrar ástæður en viðskipti við Sovétríkin um olíumál, sem gera það að verkum, að við þurfum að taka fyrir skipulag olíusölumálanna í landinu. Við þurfum þar að koma á allt öðru skipulagi, sem þjóðinni er miklu hentugra en það, sem við búum við, miklu kostnaðarminna og veitir okkur í mörgum greinum allt annað öryggi en við búum við nú.

Ég vildi aðeins segja þetta í tilefni af þessum orðum hv. fyrirspyrjanda, að það er síður en svo, að við séum í einhverjum fjötrum með olíuviðskipti okkar, þó að sá háttur hafi verið hafður á, sem hafður hefur verið um nokkurt skeið í sambandi við olíukaupin frá Rússlandi.