22.01.1974
Sameinað þing: 44. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1718 í B-deild Alþingistíðinda. (1612)

175. mál, vegagerð

Fyrirspyrjandi (Bjarni Guðnason) :

Herra forseti Ég þakka hæstv. samgmrh. fyrir svörin. Þau eru sjálfsagt samin af vegamálastjóra eða skrifstofunni þar, svo að þarna koma, eins og oft vill verða, fram ólík sjónarmið.

Það hefur t. d. vakið athygli mína, að Sverri Runólfssyni hefur gengið illa að fá staðfestingu hjá Vegagerðinni á því, að hún ætlaði að láta honum í té ýmis vegavinnutæki, sem nauðsynleg væru í samvinnu við þessa hrærivél, sem hann hefur. Mér skilst, að þetta hafi staðið í þófi og verið óljóst nú um nokkuð langt skeið og hafi fyrir 10 dögum tæpum á fundi með þessum aðilum, Vegagerðinni og svo Sverri og nokkrum mönnum með honum, verið loksins staðfest af hálfu Vegagerðarinnar, að hún væri fús að láta honum í té slíkar hjálparvélar. Þetta þóf hefur staðið, held ég, í 1–2 ár. Í raun og veru, ef maður stendur utan við þetta, horfir á þetta, þá fyllist maður undrun á því, hversu þessi atriði virðist ganga seint. Síðan hef ég komist að raun um það, að Vegagerðin virðist ekki eiga neina ýtu. Hugsa sér það: Vegagerð ríkisins á enga ýtu! Það væri kannske vert að athuga þá hlið málsins, vélaeign Vegagerðarinnar, og hversu einstakir aðilar hagnast á Vegagerðinni. En það er önnur saga.

Það, sem ég vil leggja sérstaka áherslu á, er, að þessi aðferð Sverris verði í raun og veru reynd. Það hefur nefnilega komið fram í blaðaskrifum hjá yfirverkfræðingi Vegagerðarinnar, að hann telur mjög líklegt, að aðferð Sverris sé nýtileg, a. m. k. hér á söndunum sunnanlands, og ef svo er, þá er sýnt, að það má vel spara, kannske ekki aðeins millj., heldur hundruð millj., ef þetta reynist eins og Sverrir Runólfsson telur.

Ég hygg, að það væri sjálfsagt af Vegagerðinni að taka frumkvæði í þessu, gera sjálf verklýsingu fyrir Sverri Runólfsson. Ég veit ekki betur en þegar var gerð tilraun með olíumöl á Svínahrauni, þá þyrfti enga verklýsingu. Ég sé, að í sambandi við tæki, erfiðleika að fá þau, erfiðleika að fá verklýsingu og annað, sé meira og minna tregða í kerfinu í raun og veru að kanna þessa aðferð.

Það vill oft verða svo, að þegar ráðherrar setjast í stólana, verði þeir málsvarar embættismannakerfisins. Svo eru til aðrir ráðherrar, sem taka málin í sínar hendur og leysa í skyndi. Ég vil nú mælast til þess við núv. samgrh., að hann rísi upp úr kerfinu, rísi upp úr stólnum og taki þessi mál í hendur sér og rannsaki þau skjótlega. Það vantar þarna örfá tæki, verklýsingu. Er ósköp einfalt og að koma þessu á laggirnar. Mér sýnist nefnilega, að þarna sé tregða embættismannakerfisins meiri en svo, að við það sé unandi, að ekki sé eitthvað gert. Þar með er ég ekki að segja, að þessi aðferð Sverris Runólfssonar muni reynast hentugri eða betri en aðrar, um það vil ég engan dóm fella. Hins vegar virðist mér furðulegt, hvernig að öllum þessum málum virðist staðið. Ég hygg, að hér eigi einhverja sök á sú tregða, sem ríkir í viðkomandi embættisskrifstofu.