23.01.1974
Efri deild: 49. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1735 í B-deild Alþingistíðinda. (1625)

169. mál, námslán og námsstyrkir

Auður Auðuns:

Herra forseti. Ég hafði í minni fyrri ræðu við þessa umr. óskað álits hæstv. menntmrh. á ákveðnum atriðum frv. Ég skal ekki að svo stöddu fara fleiri orðum um það atriði, sem varðar mat á efnahag foreldra eða fósturforeldra námsmanna, þegar um er að ræða A- eða B-lán, en það var varðandi vaxtahæð, vexti af B-lánum, sem ég hafði spurt hæstv. ráðh. um, hvaða rök lægju til þess mismunar, sem þarna væri um að ræða. Það er fjarri mér sannarlega að vilja auka greiðslubyrði námsmanna af námslánunum, en ég get hins vegar ekki fundið rökin fyrir þessum mismun á vöxtum af A-lánum og B-lánum. Og í ræðu hæstv. ráðh. gat ég ekki fundið, að kæmu fram rök fyrir honum. Nú er að vísu í grg. með frv., bls. 12, í niðurlagi 1. mgr. þar, sagt:

„Er talið rétt að stilla vöxtum af B-lánum í hóf til þess að draga ekki um of úr þeim jöfnuði, sem á að felast í þessum málum.“

Þessi skipting í A- og B-lán er, eins og öllum er ljóst, hugsuð sem jöfnun á aðstöðu manna, meðan á náminu stendur. Þegar námi er lokið, þá fæ ég ekki betur séð en samkv. frv. séu leiðir til þess að jafna aðstöðumun manna til að greiða lánin, — leiðir, sem felast í því að dreifa greiðslum, afborgunum af lánunum á mismunandi langan tíma. Ég hef sem sé ekki fundið fullnægjandi rök fyrir þessum vaxtamismun. En ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta eða um önnur atriði frv., vegna þess, eins og ég áður sagði, að ég mun hafa aðstöðu til þess að skoða það nánar og ítarlegar í n. og kynna mér viðhorf þeirra, sem þar yrði talin ástæða til að fá umsagnir hjá um efni frv.