24.01.1974
Neðri deild: 54. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1773 í B-deild Alþingistíðinda. (1656)

183. mál, stjórnarskipunarlög

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég tel rétt í sambandi við umr. um þetta frv., frv. til breytinga á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands að upplýsa það, að á einum fyrsta þeirra funda, sem stjórnarskrárnefnd hefur haldið, kom fram meðal margra annarra tillagna till. um það, hvort ekki teldist rétt, að Alþ. Íslendinga starfaði í einni málstofu, en ekki tveimur. Ég tel líka rétt, að það komi fram, að þessi till. fékk strax almennar og góðar undirtektir í stjórnarskrárnefnd, og var þar samþykkt að afla umsagna frá nágrannaþjóðum okkar, sem tekið höfðu þegar upp þessa breytingu og mótað sín þjóðþing í einnar málstofu formi, og fá frá þeim upplýsingar um, hvernig þessi nýja tilhögun hefði gefist. Ég hygg, að frá sumum þeirra séu þegar komnar upplýsingar, en beðið er eftir umsögnum frá öðrum okkar nágrannaþjóða um þetta.

Að öðru leyti liggja fyrir hjá stjórnarskrárnefndinni þær till. allar, sem áður hafa verið fluttar á Alþ. Íslendinga til breytinga á stjórnarskránni, og hafa sumar þeirra þegar verið athugaðar allgaumgæfilega. En þetta er mikill fjöldi till., og eru þær allar til athugunar hjá stjórnarskrárnefnd.

Ég hygg, að það sé enginn vafi á því, að menn komi auga á þá ágalla, sem á því eru, að þingið starfi í tveimur málstofum, einkanlega þegar meiri hluti er naumur, en lýðræðisleg stjórn á þó raunverulega rétt til þess að stjórna landinu. Enn fremur eru fallnar brott ýmsar þær forsendur, sem áður voru fyrir tvískiptingu þingsins, og þarf ekki að fara ítarlega út í það.

Þetta frv. fjallar, eins og hv. flm. sagði, um þessa einu breytingu, þ. e. a. s. að þingið verði ein málstofa í staðinn fyrir tvær, og þótt frv. sé í mörgum greinum, er það allt saman afleiðingar af þessari einu efnisbreytingu, eins og hv. flm. tók fram. Ég persónulega get lýst því yfir, að ég er samþykkur þessari breytingu og taldi þó alveg sjálfsagt, að athugun færi fram að vilja stjórnarskrárnefndarmanna til að fá sem gleggsta vitneskju um reynsluna af þessari breytingu hjá nágrannaþjóðum okkar. Stendur sú athugun yfir og gögn þegar að nokkru leyti komin, en önnur væntanleg.