28.01.1974
Neðri deild: 55. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1805 í B-deild Alþingistíðinda. (1669)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég get ekki orðið við tilmælum hv. 7. þm. Reykv., um að lesa hér upp eða gera grein fyrir útfærslu þeirra tillagna, sem hann gerði að umræðuefni. Utanrrh. hefur gert grein fyrir meginefni þeirra — það er rétt — í sjónvarpsþætti, og ég get ekki á þessu stigi farið nánar út í það efni. Það er af þeim ástæðum, að tillögudrög þessi eru hugsuð geta orðið viðræðugrundvöllur við Bandaríkjastjórn, ef samkomulag yrði um það í ríkisstj. Það væri því óviðeigandi og ekki í samræmi við þá háttvísi, sem skylt er að sýna í milliríkjaviðskiptum, að skýra frá þessum tillögudrögum í einstökum atriðum, áður en till. hafa verið lagðar fyrir viðsemjanda, ef til þess kemur, að þær verði lagðar fyrir þá í þeirri mynd, sem þessi drög eru nú í. Ég geri hins vegar ráð fyrir því, að það sé engin fyrirstaða á að fá kvaddan saman fund utanrmn. og að þar geti utanrmn.-menn fengið að sjá þessi drög að umræðugrundvelli. En ég vek athygli á því, að hér er aðeins um að ræða till. að viðræðugrundvelli af hálfu Framsfl. og utanrrh, og um þann viðræðugrundvöll er fjallað í ríkisstj. Till. geta vitaskuld tekið þar ýmsum breytingum og því ekki séð nú, hvernig till. verða endanlega lagðar fram í þeim viðræðum, sem fram fara innan tíðar við Bandaríkjastjórn. Ég get ekki séð, að það sé ástæða til fyrir hv. 7. þm. Reykv. að vera með þá hneykslun, sem mér virtist felast í orðum hans. Vitaskuld felst ekki í fyrirmælunum um utanrmn. að samráð skuli haft við hana eða nein skylda til að leggja samþykktir eða till. eins flokks, sem stendur að ríkisstj., fyrir utanrmn. Hitt er annað mál, hvað gert verður, ef eftir því er óskað.

Ég held, að á þessu stigi sé ekki heppilegt að ræða þessi drög nánar eða ítarlega og það væri í sjálfu sér engum til góðs að fara að skýra þannig frá málefni, sem, er á samningastigi við annað ríki. En ég hef gengið út frá því sem gefnu að utanrmn. verði gefið færi á því að fjalla um till. þær, sem ákveðið verður endanlega af ríkisstj. hálfu að leggja fram sem viðræðugrundvöll.

Það er ástæðulaust að draga fjöður yfir það, að þetta mál er, eins og öllum hv. þm. er auðvitað ljóst, vandasamt mál og vandmeðfarið á margan hátt. Þess vegna geri ég ekki ráð fyrir því, að hv. fyrirspyrjandi áfellist ríkisstj. fyrir að vilja gefa sér góðan tíma til þess að íhuga þetta mál, áður en till. að viðræðugrundvelli eru af hennar hálfu lagðar fram.

Það er auðvitað misskilningur hjá hv. þm., að það sé nokkur vafi um stefnu ríkisstj. í þessu máli. Hún er mörkuð í málefnasamningi hennar. Hins vegar er það svo, að það þarf auðvitað nánari útfærslu á þeim ákvæðum, og það er ekkert sérstakt um slíkar almennar yfirlýsingar, sem eru í stjórnarsáttmálanum. En það er óhætt að segja það, eins og reyndar kom fram í sjónvarpsþættinum af hálfu utanrrh., að í þessum drögum Framsfl. að viðræðugrundvelli felst tvennt: Í fyrsta lagi, að reynt sé að ná því marki málefnasamningsins, sem stefnt skal að, að fast erlent herlið hverfi af Íslandi í áföngum og í annan stað og jafnframt, að staðið sé við þær skuldbindingar, sem á okkur hvíla gagnvart NATO. En það er líka tekið fram í málefnasamningnum, að Ísland muni að óbreyttum aðstæðum taka þátt í NATO, þó að því sé jafnframt lýst yfir, að þar hafi einn stjórnarflokkurinn sérstöðu, sem alkunnugt er, þannig að í þessu, að staðið sé við þær skuldbindingar, sem á okkur hvíla gagnvart NATO, felst skv. þessum drögum það að hér geti verið eftir sem áður og eftir að hið fasta herlið hyrfi af landinu starfsemi, sem gæti verið sá hlekkur, sem nauðsynlegur er talinn í eftirlits- og viðvörunarkerfi NATO.

Ég endurtek það, að ég geri ráð fyrir, að það standi ekki á því að utanrmn, verði kvödd saman og þar sé skýrsla gefin um þessi mál. Ég undirstrika líka það, sem ég sagði, að það er ekki hægt að halda því fram, að það hafi verið gengið á nokkurn hátt fram hjá utanrmn., þó að till., sem samþykktar hafa verið af einum flokki, sem að stjórnarsamstarfinu stendur, hafi þar ekki verið kynntar eða lagðar fyrir nefndina.