11.02.1974
Efri deild: 55. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2090 í B-deild Alþingistíðinda. (1871)

201. mál, kosningar til Alþingis

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Ég taldi rétt að leggja hér örfá orð í helg, vegna þess að ég get skýrt hv. deild frá, hvar á vegi er stödd framkvæmd eins þeirra atriða, sem hv. 6. þm. Reykv. drap á, sem sé vandamál þess fólks, sem fallið hefur út af kjörskrá, vegna þess að það hefur flutt af einhverjum ástæðum aðsetur til Norðurlanda.

Þetta mál hefur verið tekið upp af Hagstofu Íslands sem skráningarmál og athugað, að hve miklu leyti hægt væri að fyrirbyggja, að menn misstu kosningarrétt sinn af þessum ástæðum með samkomulagi milli Hagstofunnar annars vegar og skráningarstofnana á öðrum Norðurlöndum hins vegar. í síðustu viku beindi hagstofustjóri til mín uppkasti að samkomulagi milli þessara skráningaraðila, þar sem hann telur, að gengið sé eins langt og unnt er til að afstýra því, að menn missi á þennan hátt kosningarrétt, án þess þó að grafa í nokkru undan skráningarframkvæmdinni. Ég fyrir mitt leyti hef yfirfarið þetta uppkast og tjáð samþykki mítt við því og geri mér vonir um, að það fyrirkomulag, sem þar er gerð till. um, komi til framkvæmda í tæka tíð fyrir bæjar- og sveitarstjórnarkosningar á vori komanda. Því miður hef ég ekki við höndina það plagg, sem felur í sér þetta uppkast að samkomulagi, en eftir minni get ég skýrt frá því, að þar er um að ræða fyrst og fremst tvo flokka, sem hingað til hafa verið taldir flytja búferlum, er þeir fluttu aðsetur sitt milli Norðurlanda, en hér eftir yrði ekki talið um búferlaflutning að ræða hvað þá snertir. Þetta eru þeir, sem eru við nám eða starfsþjálfun annars vegar, og hins vegar framfærendur, sem skilja skyldulið sitt eftir í landinu, sem þeir flytja frá og sýnt er, að hyggjast flytja aftur til sama lands.