12.02.1974
Sameinað þing: 53. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2121 í B-deild Alþingistíðinda. (1894)

406. mál, kennsla í fjölmiðlun í Háskóla Íslands

Fyrirspyrjandi (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Á síðasta þingi flutti ég till. til þál. um kennslu í fjölmiðlun við Háskóla Íslands. Ég sýndi fram á, að á þessu starfssviði eru nú þegar nokkur hundruð störf í landinu og fer fjölgandi. Er þar ekki aðeins um að ræða starfsfólk við blöð, útvarp, sjónvarp og útgáfu, heldur einnig við hvers konar upplýsingastörf og auglýsingastörf, sem fer mjög fjölgandi, oft ýmsar aðrar greinar. Ég sýndi einnig fram á, að Háskóli Íslands mundi geta notað mikið af þeim kennslukröftum, sem hann þegar hefur, við slíka kennslu sem þessa og það mundi ekki verða kostnaðarsamt hvað snertir tæki eða annan búnað að koma slíkri kennslu á fót, miðað við það, sem er í ýmsum öðrum greinum. Ætti því háskólanum að vera tiltölulega auðvelt og ódýrt að koma þessari kennslu á, og mundi það koma að góðu gagni einmitt nú, þegar vöxtur háskólans er örari en nokkru sinni og stúdentahópurinn stækkar með hverju ári, — hið unga fólk leitar sér að lífsstarfi og námsefni í ríkari mæli en fyrr.

Till. þessi fékk góðar undirtektir og var samþykkt sem ályktun Alþingis 30. mars s.l. ár í þeirri mynd, að ríkisstj. var falið að kanna, hvort unnt væri að taka upp slíka kennslu við háskólann. Ég hef því leyft mér að beina þeirri fsp. til hæstv. menntmrh., hvað gerst hafi í málinu, síðan ályktunin var gerð.