12.02.1974
Sameinað þing: 53. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2126 í B-deild Alþingistíðinda. (1901)

203. mál, úthlutun viðbótarritlauna

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ástæða til þess, að þessar fsp. eru fram bornar, er sú, að sú úthlutun, sem var á viðbótarritlaunum fyrir árið 1972, hefur sætt mikilli gagnrýni og m.a. verið kölluð handahóf og flaustursverk í blaðagrein eins af forustumönnum Rithöfundasambandsins. Ég minni á það, að þegar á sinum tíma var tekin ákvörðun um það á Alþ. að leggja fram fé til styrktar rithöfundum og höfundum vísinda- og fræðirita, var á bak við það mikill áhugi hér á hinu háa Alþ., og þá var það ekki hugsað þannig, að með þessu væri verið að koma á fót nýjum listamannalaunum í því formi, sem þau hafa verið og veitt eru á öðrum lið fjárl., þar sem lagt er listrænt mat á verk höfundanna. Það hefur þess vegna komið allmikið á óvart nú við úthlutunina, að einn af nm. hefur talið sér skylt að leggja einhvers konar mat á þau verk, sem um er sótt, og hefur talað um alvarlega rithöfunda í því sambandi. Er mér raunar óljóst, hvort t.d. maður eins og Þórbergur Þórðarson geti fallið undir þá skilgreiningu að vera kallaður alvarlegur rithöfundur. Í einni blaðagrein, sem rituð hefur verið um þetta efni, er komist svo að orði, að n., sem úthlutaði, hafi tekið sér 5 daga til þess að vinna þetta verk, að lesa rit 121 höfundar og vinsa úr 54 verðuga, eins og þar segir. En það hefur nú verið leiðrétt af einum nm. og sagt, að dagarnir hafi ekki verið 5, heldur 20, og er það út af fyrir sig ánægjuefni.

Ég vil benda á í þessu sambandi, að eftirtaldir höfundar gáfu ekki út bækur á árinu 1972, en hafa þó fengið viðbótarritlaun: Einar Bragi, Erlingur E. Halldórsson, Steinar Sigurjónsson, Nína Björk, Stefán Hörður Grímsson, Vilborg Dagbjartsdóttir. — Höfundar, sem ég hins vegar sakna, en gáfu út bækur á árinu 1972, eru: Guðmundur Böðvarsson, Kristján frá Djúpalæk, Ingólfur Kristjánsson, Hjörtur Pálsson, Gunnar Dal. Ég nefni einnig Helga Hálfdánarson, og ástæðan er sú, að einn þeirra fyrrnefndu, Erlingur E. Halldórsson, hlaut viðbótarritlaun fyrir verk, sem var flutt í Ríkisútvarpið, að ég ætla, eða á leiksviði. Ég álít, að ef einhver maður eigi skilið að fá viðbótarritlaun fyrir verk sín á því sviði, þá sé það Helgi Hálfdánarson, sem ekki var þarna á meðal. Og ég bendi sérstaklega á hann í því skyni, að það er borin von, að maður eins og hann fáist til þess að taka við slíkum launum, ef farið er að veita þau í einhvers konar virðingarskyni eða til þess að leggja eitthvert mat á hlutina. Ég vil enn fremur benda á, að það olli mér miklum vonbrigðum, að maður eins og Oscar Clausen, fræðaþulur í góðri merkingu þess orðs og snjall stíllisti, skyldi ekki vera meðal þeirra manna, sem fengu viðbótarritlaun. Hann er löngu þjóðkunnur fyrir mannúðarstörf, m.a. í Fangahjálpinni en þar hefur hann gerst málsvari mildara réttarfars og mannlegs viðhorfs, — mér liggur við að segja bróðurlegs, — gagnvart refsiföngum. Oscar er nú 87 ára að aldri. Ég kalla það sorgleg mistök, að þessi maður skyldi hafa gleymst á s.l. ári, og átti hann það sannarlega ekki skilið.

Fsp. þær, sem ég ber fram eru svo hljóðandi: „1. Hvað er áætlað, að söluskattur af bókum hafi numið miklu árin 1970, 1971 og 1972?

2. Hvaða ástæður lágu til þess, að úthlutun fjár samkv. 102 999 61 í fjárl. fyrir árið 1973 var látin ná til þriggja ára, en ekki eins?

3. Verður miðað einvörðungu við árið 1973 við úthlutun fjárins í ár, eða verður höfundum gefinn kostur á að sækja um viðbótarritlaun vegna bóka útgefinna 1972?“