13.02.1974
Efri deild: 56. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2158 í B-deild Alþingistíðinda. (1934)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir ummæli hv. ræðumanna, hv. þm., í þá átt, að við kunnum að geta dregið býsna merkilegar ályktanir af því, sem gerst hefur þar eystra í máli Solzhenitsyns. Þetta mál vekur óneitanlega hugsanir um það, hvers konar stjórnarfar það muni vera, sem ekki þolir gagnrýni þegna sinna, sem ekki hefur miðað lengra áleiðis í hálfa öld, — áleiðis til þeirra göfugu markmiða, sem einu sinni voru á oddinn sett, en það, að það þolir ekki sínum bestu rithöfundum að skrifa um hamingju þjóðar sinnar og óhamingju bennar.

Á hinu vil ég vekja athygli, að það mun ekki vera einsdæmi, að risaveldi komi á framfæri við ríkisstjórnir, utanríkisráðuneyti, mótmælum vegna ummæla ráðherra um svívirðilegt framferði þessara stórvelda. Þess er skemmst að minnast, þegar gagnrýni Olof Palme forsætisráðherra Svía á svívirðilegu framferði Bandaríkjamanna í Víetnam leiddi til þess, að Bandaríkjastjórn mótmælti sannarlega af næstum öllum kröftum með því að kveðja heim sendiherra sinn frá Svíþjóð.

Jafnframt heils hugar undirtektum mínum undir gagnrýni á framferði Sovétstjórnarinnar gagnvart Solzhenitsyn kemst ég ekki hjá því að láta í ljós beyg minn um það, að áhugi íslenska íhaldsins á ógæfu Solzhenitsyns sé alltengdur áhuga þessa sama íhalds á því, að annað herveldi en Sovétríkin fái að halda áfram óeðlilegri stöðu sinni á landi okkar.