13.02.1974
Efri deild: 56. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2165 í B-deild Alþingistíðinda. (1938)

119. mál, skipulagslög

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér ræðir um, kemur frá Nd., þar sem það var samþ. eins og það liggur fyrir þessari hv. d. Félmn. d. hefur fjallað um frv. Ég vil í örfáum orðum geta um efni þess.

Eins og kunnugt er, fjalla skipulagslög frá 1964 um Skipulagsstjórn ríkisins og um verkefni þau, sem þessari stjórn er falið að inna af höndum. Í þessum lögum er m.a. ákveðinn sérstakur tekjustofn til að standa undir þeim kostnaði, sem leiðir af skipulagsstjórn. Það er svokallað skipulagsgjald, sem er 3% af brunabótamati nýbygginga. Árið 1972 námu þessi gjöld röskum 13 millj. kr.

Skipulagsstjórn ríkisins hefur haft yfirumsjón með skipulagsmálum hvarvetna í landinu og unnið að skipulagi, eins og kostur hefur verið á hverjum stað og eins og mannafla þeirrar stofnunar hefur verið háttað hverju sinni. En einstök sveitarfélög hafa í vaxandi mæli sýnt hug sinn til þess, að skipulagsmál séu einnig unnin að einhverju leyti á vegum sveitarstjórna, og svo er um mörg sveitarfélög, að skipulagsvinna hefur verið á hendi þeirra, en undir yfirstjórn Skipulagsstjórnar ríkisins. Reykjavíkurborg sjálf hefur mjög með sitt skipulag að gera, en þó undir yfirumsjón Skipulagsstjórnar ríkisins.

Það er fyrir löngu vitað, að Skipulagsstjórn ríkisins hefur engan veginn haft á að skipa þeim mannafla, sem nauðsynlegur er til þessara verka. Skipulagsskyldir staðir eru orðnir fjöldamargir víðs vegar um land, og þeim fjölgar stöðugt, svo sem eðlilegt má kalla. Þær auknu kröfur, sem eru gerðar á hendur sveitarfélögum og Skipulagsstj. ríkisins um vinnu í þessu efni, gera að sjálfsögðu ráð fyrir því og krefjast þess, að auknar séu þær tekjur, sem renna skulu til þessara mála, og er fyrir löngu vitað, að Skipulagsstjórn ríkisins hefur haft alveg sérstakan áhuga á að hafa sem mest samstarf við sveitarstjórnir að þessu leyti og vill ætla þeim mikið svigrúm að störfum í þessari grein.

Það frv., sem hér er á ferðinni, gerir ráð fyrir því, að auknar verði tekjur til skipulagsmála, þannig að ríkissjóður greiði a.m.k. sem nemur helmingi skipulagsgjalda innheimtra á árinu og það renni beint til þessara mála. Í Nd. virðist enginn ágreiningur hafa ríkt um þetta mál. og eins var í félmn. þessarar hv. d. Hún hefur shlj. samþykkt að mæla með framgangi frv., þó með einni breytingu, þ.e. að í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir, að lögin öðlist gildi 1. jan. 1974, en af skiljanlegum ástæðum þarf hér breytingar við, og hana gerir n. í sínu nál., að orðalag 2. gr. verði: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“