13.02.1974
Neðri deild: 61. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2190 í B-deild Alþingistíðinda. (1956)

Umræður utan dagskrár

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal fúslega verða við tilmælum, ekki aðeins forseta, heldur og sjútvrh., að beina máli mínu til hans, þegar kemur að því máli á dagskránni, sem varðar loðnumál. Hann er mjög áhyggjufullur yfir því, að við munum ekki ræða það mál og þá þessi kannske um leið, þegar að því kemur. En svo mun þó verða, ég skal heita honum því. En þar fyrir utan vil ég aðeins nota þetta leyfi forseta og vil taka undir það með honum sjálfum, að hann er allra manna lýðræðislegastur, þegar kemur að því að leyfa okkur að taka til máls utan dagskrár, enda minnist hann sjálfsagt þeirra tíma, þegar hann var í stjórnarandstöðu og m.a. hæstv. sjútvrh. tók til máls utan dagskrár því nær á hverjum einasta fundi í d. og í Sþ., líklega til þess að hans mjög svo fallega persóna fengist að sjást í sjónvarpi eða koma fram í öðrum fjölmiðlum, því það er meginmál hans nú, þegar hann er að svara mér, að erindi mitt hingað væri til þess að fá mynd af mér í sjónvarpinu. En það er fjarri því, hæstv. sjútvrh., og ég vil gjarnan beina því til sjónvarpsins, að í stað þess að birta mynd af mér, þá kæmu báðir vangar af Lúðvík Jósepssyni í sjónvarpinu fram á mynd, því að þá mundu sjónvarpsáhorfendur sjá, að það er ekki sama andlitið, því að þessi maður kann að tala með tveim tungum, og það er ekki sama tungan, sem talar í hvorum vanga.

Hv. síðasti ræðumaður er alveg einstakur í sinni röð, þegar hann lætur okkur heyra það hér nú, að samningar allir séu í eðlilegum farvegi. Er það eðlilegur farvegur í samningum, að þeir skuli standa mánuðum saman? Það er eðlilegur farvegur, þegar þeir menn ráða ferðinni í málinu, sem hlaupa yfir borðið og semja við sjálfa sig, — það er eðlilegur farvegur, að hans mati. Það er ekki eðlilegur farvegur að mati annarra. Og ég mótmæli því algerlega þeirri furðulegu upphrópun ráðh., að það séu einhverjir menn hér inni, sem óski eftir og stefni að verkföllum. Ég minni hann á það, að bæði ég og aðrir björguðum honum út úr skömm, sem hann var kominn í í sambandi við verkfallsmál á s.l. ári, og það var ekki vegna þess, að við æsktum eftir verkföllum eða gerum það nú.

Auk þess voru alveg furðulegar yfirlýsingar, sem komu fram frá hv. trésmíðnum, hv. alþm. Jóni Snorra, þegar hann álítur, að menn, sem standa hér upp á þingi, séu bara komnir til að tala fyrir sitt stéttarfélag. Menn taka til máls utan dagskrár m.a. vegna þess, að það er vandamál, sem steðjar að þjóðinni í heild og líka máske þeirra eigin stéttum. Og það er enginn vafi á því, eins og hv. 4, þm. Austf. tók fram, að svo er nú, ekki aðeins fyrir sjómenn, heldur og verkamenn, útgerðarmenn og alla þjóðina. En þeir ætla að halda áfram að fljóta sofandi að feigðarósi, þessir menn, og telja, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, að þetta sé allt í eðlilegum farvegi, þó að það sé allsherjarverkfall fram undan, ef ekkert er gert á næstu dögum. Þetta er eðlilegur farvegur þessara nýju háskólamenntuðu verkalýðsleiðtoga, sem eru komnir á þing sem slíkir.