13.02.1974
Neðri deild: 61. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2198 í B-deild Alþingistíðinda. (1967)

Umræður utan dagskrár

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara mörgum orðum um málefni mín og vinar míns Guðmundar Daníelssonar. Það getur vel verið, að það séu einhverjir hér í hv. d., sem halda, að okkur komi ekki vel saman. En ég verð að segja, að það er mesti misskilningur. Við erum jafnmiklir vinir og við vorum ég og Guðmundur Daníelsson, og það er ekki satt, að hann hafði verið rekinn frá blaðinu Suðurlandi á s.l. sumri, eins og hv. þm. Jónas Árnason sagði. Ég kæri mig ekkert um að fara að rekja þá sögu, það er okkar mál. hvers vegna Guðmundur Daníelsson hætti, en ekki þingmál, og það hefur ekki valdið neinni misklíð á milli okkar. Þetta get ég nú sagt hér.

Hv. þm. Jónas Árnason var áðan að tala um staurblindu ýmissa manna, þegar minnst væri á hermál eða hersetu. En hver skyldi vera staurblindari heldur en hann, þessi góði drengur, hv. þm. Jónas Árnason, þegar hann talaði um það hér áðan og vildi gefa í skyn, að ýmis önnur sendiráð hefðu sent sendiboða á fund íslenskra stjórnvalda í eitthvað svipuðum erindagjörðum og rússneski sendimaðurinn fór með? Ég held, að hæstv. utanrrh. hafi nú sannað það að mestu, að slíkar heimsóknir í stjórnarráðið eru sjaldgæfar. Að vísu hefur hæstv. utanrrh. ekki verið mjög lengi í stjórnarráðinu, en ráðuneytisstjórinn befur verið þar talsvert miklu lengur, og það var hann, sem tók á móti sendimanninum, og það hefur áreiðanlega verið fyrsta heimsóknin af slíku tagi, sem hann hefur tekið á móti. Það er þess vegna eðlilegt, að bæði hæstv. ráðh. og ráðuneytisstjórinn hafi verið í augnablikinu í vafa um, hvernig við þessu skyldi taka. Og ég vil afsaka það, því að ég er sannfærður um, að bæði hæstv. ráðh. og ráðuneytisstjórinn vita, hvernig ber að taka slíkum sendimönnum og slíkum boðskap, og munu fara örugglega rétt að, næst þegar hann kemur.

Ég held, að Jónas Árnason, hv. þm., verði að afsaka mig. þótt ég efist um, að hann hafi rétta dómgreind á síundum, þegar hann fer að tala um utanríkismál. Mér kemur ekki til hugar annað en það, að hann vill vera góður Íslendingur og hann vill vera réttsýnn, hann vill Íslendingum hið besta. En þegar hann er að jafna saman austrænu stjórnarfari og vestrænu lýðræði, þá er það staurblinda, þá er það rakaleysa, og þegar þessi hv. þm. reynir að verja það, sem ekki er verjanlegt í Rússlandi eða austantjaldslöndum, finnst honum alltaf sjálfsagt í öðru orðinu að afsaka það með því að leita uppi einhverjar misgerðir, sem hafi gerst annars staðar.

Það er nú svo, að misgerðir verða vitanlega alls staðar gerðar, hvernig sem stjórnarfarið er, og þá má alltaf benda á það. En við skulum ekki blanda saman lýðræði og einræði. Munurinn er eins og svart og hvítt. Og hafi hv. þm. Jónas Árnason ekki komið austur fyrir járntjald, ráðlegg ég honum að gera það. Ég hef einu sinni farið þangað, til Austur-Berlínar, til Austur-Þýskalands, og það var fróðleg ferð. Hún sannfærði mig um, hversu mikill munur er á því að búa hér í Vestur-Evrópu við frelsi eða í fangelsinu austan járntjalds, þar sem ferðafrelsi er ekki fyrir hendi, ekki ritfrelsi og ekki fundafrelsi, þar sem fólkið verður alltaf að biðja valdhafana og fá leyfi hjá þeim, hvað það megi gera, og þar sem fólkið lifir í stöðugum ótta og hvíslast á í staðinn fyrir að tala frjálslega.