14.02.1974
Sameinað þing: 56. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2201 í B-deild Alþingistíðinda. (1981)

148. mál, byggingasvæði fyrir Alþingi, ríkisstjórn og stjórnarstofnanir

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Flutningur þessarar þáltill. á sér einkum tvenns konar orsakir. Í fyrsta lagi er illt til þess að vita, hve æðsta stjórn landsins, Alþingi og ríkisstjórn, býr við lélegan húsakost. Ástæðan til þessa er þó hvorki ráðdeildarsemi í meðferð opinbers fjár né ónógur vilji til úrbóta af hálfu æðstu ráðamanna, hvorki nú né á undangengnum árum, heldur hitt, að vafist hefur fyrir, hvar ætti að setja niður nýjar byggingar Alþingis og ríkisstj. Í öðru lagi er það framtíð gamla miðbæjarins í Reykjavík, sem rekur flm. til að flytja þessa till. Við höfum horft á það eins og aðrir landsmenn, að reynt er að troða nýjum og nýjum stórbyggingum, veglegum höllum úr stáli og gleri, niður í þessa litlu kvos, sem afmarkast af tjörn og höfn og lágum holtum til austurs og vesturs. Fyrst var það ráðhúsið mikla, síðan stjórnarráðshús og seinast seðlabankahöll. Og í öllum tilvikum hefur komið upp mjög megn andstaða gegn þessum áformum með þeim afleiðingum, að allt er í óvissu, hvar þessum byggingum verður valinn staður.

Við, sem till. þessa flytjum, teljum eðlilegast, að Alþ. og ríkisstj. taki þessi mál loksins föstum tökum og láti rannsaka, hvort helstu stofnunum ríkisvaldsins verði til frambúðar ætlaður staður í núverandi miðbæ Reykjavíkur með þeim miklu breytingum og skipulagsvandamálum, sem það mun hafa í för með sér, eða hvort ekki sé gæfulegast, að tekið verði af skarið um það, að hér í gamla miðbænum sé ekki rúm fyrir þessar stofnanir og hyggilegast sé því að velja þeim nýjan og rúmbetri stað. Í þessu skyni er lagt til, að Alþ. kjósi 7 manna mþn., sem hafi náin samráð við skipulagsyfirvöld við gerð tillagna.

Þegar rætt hefur verið um byggingu stjórnarráðshúss, hafa fyrst og fremst þrjár hugmyndir heyrst um staðarval. Í fyrsta lagi hefur heyrst sú hugmynd — eða heyrðist sú hugmynd öllu heldur, að byggð yrði nokkuð aflöng bygging á bak við gamla stjórnarráðshúsið við Lækjartorg. Í öðru lagi heyrðust hugmyndir um, að byggingin yrði stærri en á svipuðum slóðum og mundi teygja sig yfir Bankastrætið. Í þriðja lagi var hugmyndin að reisa stjórnarráðshús á svokallaðri Bernhöftstorfu, þ.e.a.s. sunnan megin við Bankastræti. Þessar hugmyndir allar eru afleitar, fyrst og fremst vegna þess, að verið er að reyna að troða niður stórhýsi, sem þarfnast rúmgóðs umhverfis og bílastæða, á stöðum, þar sem bersýnilega er ekkert pláss fyrir þess háttar hús.

Nú væri ekki úr vegi að spyrja, hvers vegna ekki hafi verið bent á betri stað, — stað, sem hefði meira rými. Ég held, að svarið sé ósköp einfaldlega það, að mönnum hafi fundist, að ef farið yrði að velja stjórnarráðshúsi stað t.d. í væntanlegum nýjum miðbæ sunnan við Miklubraut og austan við Kringlumýrarbraut, þá væri stjórnarráðshúsið í allt og mikilli fjarlægð frá Alþingi og öðrum byggingum ríkisstofnana. Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, er það greinilega ofarlega í hugum æðimargra, að mikið hagræði fylgi því, að þessi tvö hús, alþingishús og stjórnarráðshús, séu nærri hvort öðru. Að sjálfsögðu er það ekkert skilyrði, að svo sé. Það er að sjálfsögðu hægt að byggja þessi hús í allmikilli í jarlægð hvort frá öðru. En ég held, að það dyljist engum, að að því væri þó mikið hagræði, að þau væru nærri hvort öðru.

En þá er spurningin sú, hvar sé helst að finna rúmgott og glæsilegt byggingarsvæði fyrir þessar stjórnarstofnanir, þessar mikilvægustu stofnanir. Ég held, að það fari ekkert á milli mála, að ýmsir staðir geti komið þar til greina, og ég tel ástæðulaust að hafa uppi fullyrðingar um það á þessari stundu, hver staðurinn sé heppilegastur, enda er það einmitt tilgangur till., að þetta verði nánar skoðað. Ég vil þó aðeins mínna á það svæði, sem ég nefndi áðan, væntanlegt nýtt miðbæjarsvæði í Reykjavík sunnan við Miklubraut og austan við Kringlumýrarbraut, þar sem hallar niður í Fossvoginn. Þessi staður er ágætur að flestra dómi, held ég, og óvíða í borgarlandi Reykjavíkur er glæsilegra útsýni en einmitt þaðan. Aðrir staðir geta aftur á móti komið til greina, og fer þá eftir því, hversu framsýnir menn vilja vera, gera ráð fyrir miklum vexti borgarinnar á komandi áratugum. Ef menn miða við þarfirnar að nokkrum áratugum liðnum, er ekki ósennilegt, að eðlilegasta svæðið kynni að vera austan við Elliðaár, jafnvel austur við Rauðavatn.

Byggðin umhverfis höfuðborgina, tveir kaupstaðir og tvö fjölmenn sveitarfélög, Hafnarfjörður, Kópavogur, Seltjarnarnes og Mosfellssveit, allt er þetta að verða nokkuð samfelld byggð. Núv. miðbær er hins vegar úti á nesi, og ég held, að mönnum sé að verða æ ljósara, að það er ekki sérlega hyggilegt að stefna að því í framtíðinni, að vaxandi umferð og umsvifum sé einungis beint út á þetta þrönga nes, og hyggilegra sé því að velja miðbæjarsvæði, sem sé meira miðsvæðis.

Það fer ekkert milli mála, að höfuðborgarsvæðið þarf nýjan miðbæjarkjarna. Um þetta hefur verið lengi talað, og þó er í raun og veru allt í óvissu, hvernig til tekst með þennan margumtalaða miðbæjarkjarna Reykjavíkurborgar sunnan við Miklubraut og austan við Kringlumýrarbraut. Til þess að það geti orðið að veruleika, er áreiðanlega ekki vanþörf á því, að ríkisvaldið taki þátt í því ásamt Reykjavíkurborg að velja stórbyggingum stað á þessu svæði. En mér skilst, að opinberar stofnanir hafi fram að þessu verið nokkuð tregar að flytja sig á þetta svæði eða sem sagt velja sér stað á þessu svæði til frambúðar. Þar við bætist, að ég held, að okkar kynslóð ætti að vara sig á því að taka fljótfærnislegar ákvarðanir um örlög gamla miðbæjarins í Reykjavík og fara að fórna merkum byggingum frá liðnum tíma eða valda óþörfum náttúruspjöllum á þessu fornhelga svæði, heldur væri það öllu frekar skylda okkar að varðveita gamla miðbæinn sem miðstöð verslunar og þjónustu og leyfa byggðinni á þessum slóðum að þróast fremur hægt og af fyllstu varkárni.

Eins og mörgum alþm. er kunnugt, hefur það gerst, eftir að þessi þáltill. var flutt, að hæstv. forseti Sþ. hefur snúið sér til þingflokkanna með till. þess efnis, að hugmyndasamkeppni fari fram um húsnæði fyrir Alþingi á þinghúslóðunum hér við Tjörnina og um skipulag þessa svæðis í framtiðinni, og e.t.v. gerir hann betri grein fyrir þeirri hugmynd hér í umr. á eftir, ef honum finnst ástæða til. En ég vil taka það skýrt fram, að flm, þessarar till. eru að sjálfsögðu ekki svo ákafir talsmenn þess, að Alþingi verði valinn nýr staður, að þeir geti ekki hugsað sér, að hugmyndasamkeppni af þessu tagi fari fram. En þá telja þeir um leið óhjákvæmilegt, að aðrir staðir verði skoðaðir samtímis. Það er áreiðanlegt, að enn eru margir, sem ekki vilja endanlega útiloka þann möguleika, að Alþingi geti verið á þeim slóðum, sem það hefur verið í eina öld, og sjálfsagt er að skoða það ag sjá, hvað kæmi út úr hugmyndasamkeppni af þessu tagi, enda er till. okkar ekki um annað en það, að rannsókn fari fram á því, hvar hugsanlegt væri að velja þessum stofnunum nýjan stað.

Í sjálfu sér skiptir auðvitað ekki öllu máli, hvort mþn. fær málið til meðferðar, sérstök n., eða þinghúsnefnd hefur það áfram til umfjöllunar. En ég vil þá mínna sérstaklega á það, að till. okkar fjallar um fleiri hús er alþingishúsið. Hún snertir sem sagt byggingarsvæði fyrir helstu stofnanir ríkisins, og ég held, að það sé alveg ljóst, að það er í almesta lagi, að Alþingi gæti rúmast hér í miðbænum, og vandamálið verður þá jafnbrýnt varðandi aðrar byggingar. Aðalatriðið er, að ef slík hugmyndasamkeppni fer fram, verði ekki frá öndverðu einblínt á þennan eina stað.

Að lokum vil ég aðeins segja það, að hvar svo sem Alþingi verður valinn staður til frambúðar, er að sjálfsögðu ljóst, að það verður á núverandi höfuðborgarsvæði, ekki hvað síst vegna þess, að til þess að Alþingi og ríkisstj. gæti verið annars staðar, þyrfti breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins, og ég hef ekki trú á því, að jafnvel þeir, sem hefðu hug á því, að Alþingi væri annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu, mundu hafa kraft í sér til þess að knýja í gegn breytingu af því tagi á stjórnarskipunarlögum. Aftur á móti er ljóst, að sú stefna á vaxandi fylgi að fagna, að stjórnarstofnunum ríkisins sé almennt dreift meir um landið en gert hefur verið, og þess vegna hefur flm. þótt eðlilegt að taka það atriði um leið inn í till. Bæði til þess að koma í veg fyrir þann misskilning, að um sé að ræða stjórnarstofnanir almennt, og til þess að Alþingi staðfesti þá stefnu, að stjórnarstofnunum sé meira dreift um landið en gert hefur verið, er sem sagt að því vikið í þáltill. og því slegið föstu, að ríkisstofnunum, sem ekki eru háðar æðstu stjórn landsins í daglegum störfum sínum, verði í framtiðinni valinn staður í þéttbýliskjörnum úti um land utan höfuðborgarsvæðisins.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þessa till., en vil leyfa mér, herra forseti, að leggja til. að að lokinni umr. verði henni vísað til hv. allshn.