14.02.1974
Sameinað þing: 56. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2214 í B-deild Alþingistíðinda. (1990)

4. mál, sjóminjasafn

Frsm. (Stefán Gunnlaugsson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft til meðferðar og athugunar þáltill. á þskj. 4 um stofnun sjóminjasafns. Flm. þessarar till eru hv. alþm. Gils Guðmundsson og Geir Gunnarsson. Till. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hefja nú þegar í samráði við þjóðminjavörð undirbúning að stofnun sjóminjasafns. Skal leita eftir samvinnu við Hafnarfjarðarbæ um hentugt landssvæði fyrir slíkt safn, svo og um byggingu þess og rekstur.“

N. leitaði umsagnar hjá tveimur aðilum, sendi till. til umsagnar bæjarstjórnar Hafnarfjarðar og þjóðminjavarðar. Í umsögn frá bæjarstjórn Hafnarfjarðar segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Bæjarstjórn Hafnarfjarðar fagnar fram kominni till. alþm. Gils Guðmundssonar og Geirs Gunnarssonar til þál. um stofnun sjóminjasafns í Hafnarfirði og heitir hentugu landssvæði fyrir safnið. Skorar bæjarstjórn á alþm. að veita till. þessari brautargengi og tryggja nægilegt fjármagn á næstu fjárl.“

Frá þjóðminjaverði barst n. allítarleg umsögn. Hún er mjög fróðleg um allt þetta mál og greinargóð, og ég leyfi mér til upplýsinga fyrir hv. alþm. að lesa nokkrar glefsur úr þessari umsögn, með leyfi hæstv. forseta. Í upphafi þessarar umsagnar segir svo m.a.:

„Mér er næst að ætla, að frv. þetta sé að nokkru leyti runnið frá mínum rótum, því að ég hafði fært þessi mál í tal við annan flm. till., áður en hún var flutt. Vissi ég, að hann hafði áhuga á þessum málum, hafði enda skrifað mikið um farmennsku og sjósókn og einnig um sjóminjasöfn erlendis. Hafði ég hvatt hann til að taka þetta mál að sér, enda þótt ég byggist ekki við, að svo skjótt yrði brugðist við sem raun varð á.

Ég hef um alllangan tíma talað um það við ýmsa aðila, að nauðsyn sé að koma hér upp myndarlegu og vel búnu sjóminjasafni, sem sýni og skýri sjósókn Íslendinga og farmennsku, fiskveiðar, fuglatekju, hagnýtingu rekaviðar og yfirleitt öll þau not, sem landsmenn hafa haft af sjónum þær ellefu aldir, sem þeir hafa búið í landinu. Hef ég oft fundið til þess, að þetta svið minjaverndar og kynningar til almennings hefur ekki verið rætt sem skyldi, og er það því afleitara sem þjóðin á efnahag sinn og tilveru alla undir sjónum komið. Að vísu hefur oft áður verið vikið að stofnun sjóminjasafns og málið meira að segja komist inn á Alþingi áður. En einhvern veginn hefur svo til tekist, að málið hefur dagað uppi hverju sinni, áður en það yrði til lykta leitt. Samt hafa þessar umr. orðið til þess að bjarga ýmsu á safn, sem sjómennskunni tilheyrir, og er þá helst að minnast sjóminjasýningarinnar 1939, er til stóð að koma upp sérstöku sjóminjasafni. Haldin var myndarleg sýning og dregið að margt muna í þessu sambandi, en þá fór eins og áður, að tími var ekki kominn fyrir safnið, en gripir þeir, sem safnað hafði verið, lentu í varðveislu þjóðminjasafnsins.“

Um staðarval safnsins segir svo — með leyfi hæstv. forseta — í umsögn þjóðminjavarðar: „Í þáltill. er gert ráð fyrir, að safnið verði sett niður í Hafnarfirði. Það á sér vissar orsakir, en ein aðalástæðan er sú, að í Hafnarfirði er fyrir hendi mikill áhugi ráðamanna bæjarins á sjóminjasafni og þar reynist vera til margt muna frá útgerð og sjómennsku, enda Hafnarfjörður gróinn útgerðarbær. Hitt veldur þó ekki minnstu, að þar býðst mjög skemmtilegur staður í hrauninu vestan við bæinn, þar sem safnið fær að kalla ótakmarkað rými, bæði fyrir byggingu og útisýningu hluta. Þarna er ákveðið að varðveita óskerta væna spildu af hrauninu, sem er með afbrigðum sérstætt og fallegt, hraunbollar og kvosir, hryggir og gróðurvinjar, niðri við sjóinn, en safnið yrði sett í útjaðar hins friðaða svæðis. Tel ég, að þetta hafi mikið aðdráttarafl ekki síst fyrir erlenda ferðamenn, sem ekki þekkja slíkt landslag. Hafnarmynnið í Hafnarfirði blasir við og siglingar skipa og báta að og frá höfninni svo að segja rétt framan við fjöruna. Mætti innan úr safninu fylgjast með skipaferðum og tengsl við sjóinn yrðu mjög eðlileg og skemmtileg. Mér finnst þessi staður hafa svo margt fram yfir aðra, að tvímælalaust ætti að setja safnið þarna.“

Þjóðminjavörður lýkur umsögn sinni um þessa þáltill. með þessum orðum:

„Ég hef enga aths. við þáltill., heldur styð ég hana til fullnustu og fagna því, að hún skuli hafa komið fram. Leyfi ég mér að leggja eindregið til, að hún verði samþ. og afgreiðslu hennar hraðað svo sem auðið er, þannig að fast land fáist undir fæturna í þessu máli. Þá yrði að öllu leyti auðveldara að ganga í söfnunarmálin og undirbúning safnsins, auk þess sem ýmsir aðilar mundu fúsari að styðja málstaðinn, er þeir vita ákvörðun Alþingis. Áhugi meðal sjómanna og útvegsmanna er mikill og þó ekki síður meðal alls almennings, og veit ég, að málstaðinn á visst fylgi fjölmargra, sem vilja stuðla að stofnun og viðgangi safnsins með gjöfum og annarri fyrirgreiðslu. Væru það mikil vonbrigði, ef málið dagaði enn uppi, og leyfi ég mér að skora á hv. alþm. að veita till. fullan stuðning, þannig að mál þetta megi ná fram að ganga á næstu árum.“

Þannig lýkur umsögn þjóðminjavarðar. Í framhaldi af þessum tveimur umsögnum, sem ég hef gert grein fyrir, varð allshn. einhuga um að mæla með samþykki till.