30.10.1973
Sameinað þing: 10. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í B-deild Alþingistíðinda. (200)

1. mál, fjárlög 1974

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég þarf ekki miklu við að bæta þær mörgu ágætu ræður, sem hér hafa verið fluttar af flokksbræðrum mínum um það fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir. Vil ég í því sambandi einnig taka undir margt af því, sem fram kom í ræðu hv. 3. landsk. þm., varaskeifu ríkisstj., en hann mælti hér áðan nokkur varnaðarorð til fjmrh., varaði hann við því, að svo gæti farið, að hann ylti úr stólnum, áður en honum ynnist tími til þess að koma breytingu á skattal. í kring. Í annan tíma hef ég heyrt þennan hv. þm. tala um, að það sé ekkert nema nýtt Kötlugos, sem geti bjargað ríkisstj., og annað í þeim dúr, sem sýnir, hversu samhentur sá stjórnarmeirihl. er, sem núv. hæstv. ríkisstj. styðst við.

En erindi mitt hingað í ræðustólinn var fyrst og fremst að gera nokkuð að umtalsefni einn stærsta lið fjárlagafrv., launaliðinn. Ég vil í því sambandi fara allt aftur til ársloka 1971, er upp kom mjög hatrömm kjaradeila milli opinberra starfsmanna annars vegar og ríkisstj. hins vegar, þar sem opinberir starfsmenn brigsluðu ríkisstj. um lagabrot, kvörtuðu undan því, að ráðh. fengjust ekki til að tala við þá, og þar fram eftir götunum. Þessi kjaradeila ríkisstj. og opinberra starfsmanna fór til Kjaradóms, en það sýndi, hversu alvarleg þessi deila var, að 6100 manns skrifaði undir mótmæli af þessum sökum, áður en yfir lauk. Þau voru orðin 5560 nöfnin á listanum, þegar aukaþing BSRB var haldið í febrúarmánuði 1972. Það, sem þarna bar á milli fjmrh. og opinberra starfsmanna, var kauphækkun um 14% upp að 20 launaflokki, sem ríkisstj. léði ekki máls á, að opinberir starfsmenn fengju. En það sýndi enn fremur alvarleikann og þungann á bak við þessar kröfur opinberra starfsmanna, að svo hljóðandi samþykktir voru gerðar af launamálanefnd aukaþings BSRB í janúarlok 1972, með leyfi hæstv. forseta:

„Þingið ákveður að hefja almenna undirskriftasöfnun meðal starfsmanna ríkis og bæja um land allt til stuðnings þessari sjálfsögðu kröfu og heimild til almennra aðgerða, Þingið samþykkir, að neðan við ályktun þess komi eftirfarandi á undirskriftalistanum:

Við undirritaðir opinberir starfsmenn lýsum yfir fullum stuðningi við framanritaða ályktun og felum stjórn BSRB að beita sér fyrir almennum aðgerðum til að knýja fram viðunandi samninga.“

Enn fremur var samþykkt svohljóðandi till. á þessu sama þingi, með leyfi hæstv. forseta: „28. þing BSRB, haldið 26. og 27. jan. 1972, felur bandalagsstjórn að mynda sér til ráðuneytis nefnd með einum fulltrúa tilnefndum af hverju bandalagsfélagi, er vinni að framgangi þeirra aðgerða, er stjórn BSRB telur sig þurfa að grípa til til lausnar yfirstandandi kjaradeilu.“

Svo alvarlegum augum sem starfsmenn ríkisins litu þessa kjaradeilu á þessum tíma, er auðvitað algerlega út í hött að hugsa sér það, að opinberir starfsmenn muni á þessari stund sætta sig við nokkra kauphækkun, sem er minni en sú hækkun, sem þeir töldu, að ríkisstj. hefði stolið frá sér í árslok 1971, þ. e. um 14%. Og ef sú eina krafa er tekin til greina, nemur það um 1.4 milljörðum á núv. fjárlagafrv. til beinnar hækkunar, einungis sá hluti í launakröfum opinherra starfsmanna, sem þeir telja, að ríkisstj. hafi haft af sér með lögbrotum á árinu 1971.

Í þessu sambandi vil ég minna á, að á árinu 1964 var ákveðinn upp sams konar dómur, kjaradómur, þar sem synjað var um 15% launahækkun til opinberra starfsmanna. En leiðrétting á því náðist í kjarasamningum ríkis- og bæjarstarfsmanna ári síðar.

Ef við höfum hliðsjón af þessu, má fullyrða, að opinberir starfsmenn telja sig eiga þetta inni hjá ríkissjóði, og eru a. m. k. þeir, sem ég hef talað við, sannfærðir um, að ríkisstj. muni verða við þessu, ríkisstj. vinnandi stétta, sem hrósaði sér af því, þegar hún settist í stólana, að hún mundi taka upp miklu nánara og betra samstarf við opinbera starfsmenn heldur en allar ríkisstj., sem áður hafa setið og lofaði meira að segja opinberum starfsmönnum verkfallsrétti. Lítið hefur borið á efndum á því. Hins vegar hefur komið í ljós, að ríkisstj. hefur sagt ýmis ríkisfyrirtæki úr Vinnuveitendasambandinu. Nú væri það afskaplega fróðlegt fyrir alþm. að fá upplýst, hversu mörg þessi ríkisfyrirtæki eru, sem hafa sagt sig úr Vinnuveitendasambandinu. Ég sé ástæðu til að spyrja í því sambandi, hvernig hæstv. fjmrh. hugsar sér að semja við þá verkamenn, iðnaðarmenn eða sjómenn, sem lög um kjarasamninga opinherra starfsmanna ná ekki til, hvort það sé rétt, að við fjmrn. sé nú verið að setja á laggirnar sérstaka stofnun eða sérstaka deild, er eigi að hafa það verkefni með höndum að semja við verkamenn, sjómenn og iðnaðarmenn, sem starfa í þessum ríkisfyrirtækjum, sem ekki eru innan Vinnuveitendasambandsins. Einhvern veginn verður að semja fyrir þetta fólk. Maður getur t. d. hugsað sér, að verkalýðsleiðtogar telji, að nú sé best að byrja á því að semja við ríkisstj., hún hafi tekið þessi ríkisfyrirtæki úr Vinnuveitendasambandinu, af því að Vinnuveitendasambandið sé svo vont, þar sem atvinnurekendur vilji ekkert gera fyrir verkafólkið, og láti nú reyna á það, hvort ríkisstj. vilji. ekki semja betur en vinnuveitendur eru fáanlegir til. Mér t. d. þótti það mjög eftirtektarvert, að vinnuveitendur eru búnir að gera gagntilboð til þess verkafólks, sem vinnur hjá þeim. En hvar er gagntilboð ríkisstj.? Það er fullt af fólki, sem vinnur hjá ríkinu, og hvar er það gagntilboð, sem það hefur fengið, þeir verkamenn, sem þar vinna? Ég hef hvergi rekist á það. Hvað ætlar ríkisstj, að bjóða þessu verkafólki? Felst ríkisstj. á þá kröfu verkafólks og á þá kröfu opinberra starfsmanna, að 35 þús. kr. lágmarkslaun, miðað við vísitöluna eins og hún var í ágústmánuði, séu hæfileg? Eða telur núv. ríkisstj., að 35 þús. kr. mánaðarlaun séu of mikið fyrir það fólk, sem vinnur í fiskvinnu, og það fólk, sem er lægst launað hér á landi? Hvað telur ríkisstj., að séu hæfileg lágmarkslaun?

Þetta er aðalatriðið í allri kröfugerð, bæði kröfugerð BSRB og kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar, að það séu sett ákvæði um einhvern lágmarkslaun. Það væri fróðlegt að fá að vita, hvað ríkisstj. hugsar sér í því, nema það sé kannske tilfellið, að ríkisstj. ætli ekki að láta þá menn, sem vinna hjá ríkisfyrirtækjunum, verkamennina, iðnaðarmennina og sjómennina, fá neinar gagnkröfur. Kannske ríkisstj. ætli ekki að bjóða þessum mönnum upp á neitt. Þeir eiga kannske bara að una því, sem vinnuveitendur vilja skammta þeim. Það getur vel farið svo, að reynslan sýni, að ríkisstj. sé ekki fremur viðmælandi við þetta fólk heldur hún var viðmælandi við opinbera starfsmenn á árinu 1971, í des., og fremur en hæstv. ríkisstj. er nú viðmælandi við þá menn, sem eru í Bandalagi háskólamanna. En þau lög, sem voru sett hér í gær vegna kjaradeilu opinberra starfsmanna, voru sett í trássi við háskólamenn, og hygg ég þó, að Bandalag háskólamanna hafi talið þessa ríkisstj. fremur sína ríkisstj. en margar aðrar, þar sem hún féllst á það með lögum, settum nú í vor, að viðurkenna sérstaklega samningsrétt þeirra og viðurkenna þar með rétt háskólamanna til þess að fá hærri laun en þeir þegnar í þjóðfélaginu, sem ekki eru háskólamenntaðir, því að að sjálfsögðu felst í þessari afstöðu ríkisstj. með lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna ekkert annað en óbein viðurkenning á því, að það eigi að launa menn eftir háskólamenntun, en ekki eftir því, sem þeir gera. Ég lít ekki þannig á, en ríkisstj. gerir það.

Ég vil taka undir það, sem hv. 3. landsk. þm. sagði um skattamálin og ýmsir aðrir. Það er enginn vafa á því, að það er orðin grandvallarkrafa fastlaunamanna í þjóðfélaginu að fá lækkun á beinu sköttunum. Það er það, sem fastlaunamennirnir verða að fá. Það þýðir ekkert að vera að tala um, að menn vilji ekki lækka þessa skatta nema fá eitthvað annað í staðinn. Það hefur einhvern tíma verið talað um sparnað í ríkisrekstrinum, og ég held, að það ættu að vera meiri möguleikar á því að spara núna heldur en nokkru sinni fyrr, þegar fjárl. eru að verða 30 milljarðar. Einhvern veginn er a. m. k. því fastlaunafólki ætlað að komast af, sem fær hæstu tekjuskattana. Það getur ekki lagt á söluskatt eða jafnvirðisskatt eða virðisaukaskatt eða hvað þetta heitir.

Það má hugsa sér ýmsar tölur í sambandi við það, hversu mikið tekjuskatturinn þarf að lækka. Það er a. m. k. alveg ljóst, að hann þarf að lækka það mikið, að fólkið, sem vinnur í fiskinum, hinn almenni launamaður og almenna launakona, telji ekki, að sér sé refsað, þegar það fer út og reynir að bjarga miklum verðmætum, — þeir menn, sem leggja það á sig að vinna fremur en að horfa á sjónvarp, telji ekki, að sér sé refsað fyrir. 55 og 56% skattur af því, sem menn vinna sér inn með berum höndum, erfiðisvinnumenn, er nokkuð stór biti að kyngja. Við getum haldið langar ræður um alls konar hagspeki, marxisma, marxleninisma og hvað þessar vinstri stefnur allar saman heita. En ef þær ganga allar saman út á það eitt og sameinast í þeim eina grunnpunkti að leggja 55% og 56% skatt á næturvinnuna hjá því fólki, sem vinnur í fiskiðjufyrirtækjunum, þá skulu þeir ekki undrast það, þótt ég sé hægri maður, enda höfum við alltaf barist á móti þessum háu beinu sköttum. Og fólkið í landinu finnur, að við vitum betur en vinstri mennirnir, hvað því er fyrir bestu. Við höfum horft á það núna, að hvert stéttarfélagið af öðru, hvert einasta núna, hefur komið fram með kröfuna um lækkun beinu .skattanna. Það er farið að sakna sárlega fyrrv. fjmrh., hv. 2. hm. Norðurl. e. og hv. 5. þm. Reykv. Það var meiri gósentíðin, þegar þeir voru fjmrh. Ég er hræddur um, að það þurfi aðra þriggja tíma ræðu til þess að sanna fyrir þessa fólki, að það hafi orðið skattalækkun, síðan þessi stjórn tók við störfum.

Ég vil svo að lokum aðeins segja það, sem ég álít að sé mjög alvarlegt mál og snýr að strjálbýli landsins, og það er, hvernig hæstv. ríkisstj. stendur að framkvæmdum úti um land. Nú síðast höfum við orðið vitni að því, hvernig staðið er að jarðhitadeildinni, sem er mjög svelt að fé. Ég vil minnast á það í þessu sambandi, að orkuskortur, t. d. á Norðurl. e. er geigvænlegur, og fyrir stað eins og Akureyri nær engri átt á því herrans ári 1973, að það skuli lagt fram fjárlagafrv., þar sem ekki er gert ráð fyrir því, að áfram sé haldið virkjunarrannsóknum í Kröflu. Það er talað um, að það eigi að bora hér og það eigi að bora þar, en borinn á aldrei að komast norður fyrir Holtavörðuheiði. Er þetta byggðastefnan, sem hæstv. fjmrh. boðaði, að stöðva virkjunarrannsóknirnar í Kröflu, sem sýna sig að vera einhverjar hagkvæmustu rannsóknir, sem um getur um á þessu landi? Og það er fleira í sambandi við jarðhitadeildina, sem mætti minnast á sem mjög þýðingarmikið og gagnleg verkefni. Ég minni aðeins á eitt atriði. Er ekki tími til kominn að jarðhitadeild láti nú á reyna og skipuleggi jarðboranir og kanni allar leiðir þannig, að fyrir liggi á næsta ári, hvort unnt sé að grípa til jarðhitans á sambandi við upphitun Akureyrar? Við sjáum hvernig fer um olíuna dag frá degi. Í nágrannalöndum okkar er búið að útbýta skömmtunarseðlum fyrir olíu og bensíni. Á sama tíma og ástandið er þannig, treystum við á dísilolíu á Akureyri til upphitunar fyrir fólkið, og í því hefur orðið vel ágengt. Það er nú búið að tengja Raufarhöfn við Norðurl. e. að öðru leyti, svo að hægt er að nota dísilorkuna á Raufarhöfn til upphitunar á Akureyri og Skagafirði. Mér skilst að á Skagaströnd sé einhver gömul dampmaskína, sem þeir notuðu á síldarárunum þar til framleiðslu. Kannske það verði næsta skrefið hjá hæstv. orkumálaráðh. að leggja línu þangað, gá hvort vélin snúist og sé hægt að ná í nokkur kw. þaðan?