25.02.1974
Neðri deild: 66. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2330 í B-deild Alþingistíðinda. (2097)

240. mál, neyðarráðstafanir vegna jarðelda á Heimaey

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. 1. flm. þessa frv. sagði, að þetta frv. þarf að ganga fljótt í gegn, það þarf að verða að lögum og staðfest fyrir næstu mánaðamót.

Út af fyrir sig er ekki ástæða til þess að fara mörgum orðum um þetta frv. Það skýrir sig sjálft. Hv. alþm. eru minnugir þess, að fyrir rúmlega ári tók Alþ. ábyrgð á vissum atriðum í sambandi við náttúruhamfarirnar í Vestmannaeyjum. Ábyrgðin var staðfest með l. um Viðlagasjóð 7. febr. 1973. Með stofnun Viðlagasjóðs sameinaðist Alþ. um það að gera ráðstafanir til, að allir landsmenn tækju þátt í því að bæta tjónið í Vestmannaeyjum og eiga þátt í uppbyggingarstarfi þar, eftir því sem í mannlegu valdi stæði. Viðlagasjóður hefur fengið fé samkv. l. frá Alþ. og gjafir frá innlendum aðilum og erlendis frá, mjög myndarlegar gjafir, eins og oft hefur verið vitnað til, sérstaklega frá nágrönnum okkar og frændum á Norðurlöndum.

Það er ekki unnt að gera sér grein fyrir ýmsum atriðum enn sem komið er, en þó er vitað, að Viðlagasjóð vantar fé til þess að geta staðið við þær skuldbindingar, sem gefnar voru, um leið og sjóðurinn var stofnaður.

Frv. það, sem hér er til umr., er flutt af fulltrúum allra þingflokka. Er lagt til að framlengja í eitt ár helming af Viðlagasjóðsgjaldi, sem lögfest var með stofnun Viðlagasjóðs. Er gert ráð fyrir, að það nemi um 750 millj. kr. á ársgrundvelli. Þá er tekið fram í grg. með frv., að fjár verði aflað í Viðlagasjóð á árinu 1975, ef þörf krefur. Gert er ráð fyrir, að Seðlabankinn veiti fyrirgreiðslu, eftir því sem þörf er á, til þess að greiðslur úr Viðlagasjóði geti farið fram með eðlilegum hætti. Til mála kom að innheimta til ársloka 1974 2% Viðlagasjóðsgjald eða framlengja I. til næstu áramóta, eins og lög um Viðlagasjóð nú eru. Hefði það gefið í tekjur til næstu áramóta um 1150 millj. kr. 1% viðlaga sjóðsgjald í 12 mánuði auk tolltekna og söluskatts af Viðlagasjóðshúsum gefur í heildartekjur yfir 1200 millj. kr. Með því að innheimta áfram 2% Viðlagasjóðsgjald hefði verið unnt að greiða upp fyrr skuld Viðlagasjóðs við Seðlabankann, sem mun vera um 700 millj. kr., eins og nú er. En þess ber að geta, að Viðlagasjóður átti óinnheimtar tekjur, 1409 millj. kr., sem voru gjaldfallnar um áramót og gjaldfalla til aprílloka. Það er þess vegna víst, að Viðlagasjóður fær mikið fjármagn í kassann nú um þessar mundir og þá sérstaklega eftir að þetta frv. hefur verið lögfest og ráðstafanir gerðar til, að sveitarfélögin greiði það, sem þau skulda Viðlagasjóði. Þess vegna er 2. gr. þessa frv. nauðsynleg, og hún tryggir, að Viðlagasjóður fái það, sem sveitarfélögin hafa haldið hjá sér fram að þessu.

Það er ekki vitað, hvernig gengur að selja Viðlagasjóðshúsin. Það fer vitanlega eftir því, hvernig greiðsluskilmálarnir verða og hvaða verð verður á húsunum, en af eðlilegum ástæðum hefur stjórn Viðlagasjóðs ætlað sér að fá kostnaðarverð fyrir húsin. Líklegt er, að það megi takast, ekki síst vegna þess, að húsaverð fer nú hækkandi með hverjum mánuði sem líður. En það er vitanlega nauðsynlegt að veita lán og greiðsluskilmála á þessum húsum í samræmi við það, sem gerist yfirleitt með húsasölur.

Tolltekjurnar og söluskattstekjurnar af Viðlagasjóðshúsunum koma ekki inn fyrr en eigendaskipti verða, eins og hér var tekið fram áðan. Er talað um, að Seðlabankinn veiti nauðsynlega fyrirgreiðslu, til þess að ekki þurfi að verða tafir á greiðslum úr Viðlagasjóði, og er það nauðsynlegt. Er ekki ástæða til að ætla annað en Seðlabankinn verði fús til að gera það, þar sem yfirlýsing Alþingis liggur fyrir um, að Viðlagasjóði verði séð fyrir nægilegum tekjum. Ef þetta 1% dugir ekki og aðrar ráðstafanir, sem gerðar verða, þá verður séð fyrir að afla fjár á næsta ári. Út á þá tryggingu mun Seðlabankinn lána, og get ég sagt það hér, að ekki er ástæða til annars en að sú fyrirgreiðsla verði innt af hendi reglulega og að þeir, sem bætur eiga að fá eða greiðslur úr Viðlagasjóði, geti fengið þær með eðlilegum hætti og án þess að dráttur verði á því.

Það er ánægjulegt til þess að vita, að Alþ. er sammála um að halda áfram á þeirri braut, sem mörkuð var með I. um Viðlagasjóð 7. febr. á s.l. ári. Alþ. er sammála um að afla þess fjár, sem þarf til þess, að uppbyggingu í Vestmannaeyjum verði hraðað. Alþ. er sammála um að gera þær ráðstafanir, sem þarf til þess, að greiðslur til Vestmanneyinga verði inntar af hendi með eðlilegum hraða. Þess skal getið, að á morgunverður lagt fram frv. til l. vegna innflutningsgjalda og söluskatts af Viðlagasjóðshúsum til þess að tryggja, að þau gjöld gangi til uppbyggingar í Vestmannaeyjum. En það er rétt, sem hv. 1. flm. þessa frv. sagði áðan, að það hefur verið talað um að blanda ekki umr. um það mál inn í umr. um þetta frv., því að það gæti tafið afgreiðslu málsins. En það gefst tækifæri til þess að ræða það, þegar það frv. verður lagt fram.

Nú munu vera um 3 þús. manns fluttir til Vestmannaeyja aftur, og er ánægjulegt til þess — að vita, að unnið er að endurreisnarstarfinu í Vestmannaeyjum af fullum krafti. Og til þess að það megi verða með fullum hraða, má ekki vanta fjármagn, og er engin ástæða til að ætla, að svo verði. Þetta frv. er liður í því að tryggja, að ekki verði fjármagnsskortur við uppbyggingarstarfið.

Tolltekjur og söluskattur af Viðlagasjóðshúsum er einnig liður í þessu máli. Fyrirgreiðsla Seðlabankans með yfirlýsingu Alþ. um fjáröflun áfram, ef nauðsyn krefur, tryggir allar nauðsynlegar greiðslur til hlutaðeigandi aðila, þótt kostnaðurinn verði meiri en áætlanir sýna.

Þegar hugsað er um náttúruhamfarirnar í Vestmannaeyjum, munu flestir vera þakklátir. Margir hafa lagt fram fé og starf, sem ber að þakka og meta. Og fyrir ári var útlitið dökkt og margir reiknuðu með því, að Vestmannaeyjar yrðu ekki í framtíðinni byggðar. Það hefði orðið mikið tjón fyrir íslenska þjóðarbúið, ef verstöðin í Vestmannaeyjum hefði lagst niður. Nú er unnið í Vestmannaeyjum af fullum krafti. Nú er loðna unnin þar, og þar er ekkert verkfall. Það er gott til þess að vita, að Vestmannaeyjar munu áfram eiga stóran þátt í því að auka tekjur íslenska þjóðarbúsins. Það er ástæða til þess að óska Vestmanneyingum til hamingju með uppbyggingarstarfið og þann sýnilega árangur, sem nú er að fást í sambandi við það. Og þjóðin öll mun njóta góðs af því, hversu vel hefur tekist, þrátt fyrir slæmt útlit vegna hamfaranna í Vestmannaeyjum. Uppbyggingarstarfið í Vestmannaeyjum er hafið. Það verður ekki héðan af tafið. Alþ. mun standa við sínar skuldbindingar gagnvart Vestmanneyingum, og er ánægjulegt til þess að vita, að samstaða er um það í hv. Alþingi.