25.02.1974
Neðri deild: 66. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2339 í B-deild Alþingistíðinda. (2102)

240. mál, neyðarráðstafanir vegna jarðelda á Heimaey

Halldór S. Magnússon:

Herra forseti. Í tilefni af þeim umr., sem hér hafa farið fram um frv. til l. um breyt. á l. um neyðarráðstafanir vegna jarðelda á Heimaey, vil ég taka fram eftirfarandi:

Þingflokkur SF er einróma sammála um nauðsyn þess að tryggja Viðlagasjóði auknar tekjur til þess að standa undir skuldbindingum sjóðsins. Þingflokkurinn var enn fremur samþykkur þeirri aðferð, sem við var höfð í þessu máli, að leitast við að ná samstöðu allra þingflokka um þann vanda, sem við var að etja, á sama hátt og gert var, þegar l. voru sett í byrjun síðasta árs.

Ég vil hins vegar segja, að ég harma það, að ekki skuli hafa tekist samstaða um tillögur um hærri tekjur til handa Viðlagasjóði en raun ber vitni. Ég tel hins vegar, að það loforð, sem gefið er í grg. með þessu frv. um, að ef það fjármagn, sem hér er ákvarðað, að í Viðlagasjóð skuli ganga, nægi ekki, þá verði Viðlagasjóði aflað meiri tekna. Ég tel þetta loforð vera mjög þýðingarmikið og tryggingu fyrir því, að Viðlagasjóður fái þær tekjur, sem hann þarf á að halda til þess að sinna því hlutverki, sem honum er falið. Ég held, að það sé þess vegna ekki ástæða til þess að deila svo mjög um það, úr því sem komið er, hvort það fé, sem ætlað er samkv. því frv., sem hér er til umr., nægir eða ekki, þar sem þess ber að vænta, að treysta megi því vilyrði, sem gefið er í grg. með frv. og þar með standi þingheimur almennt við það, sem heitið hefur verið frá upphafi þessa máls, að sjá til þess, að Viðlagasjóður geti sinnt þeim verkefnum, sem honum hafa með lögum verið falin.