27.02.1974
Neðri deild: 70. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2392 í B-deild Alþingistíðinda. (2186)

242. mál, gjald til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana

Jónas Árnason:

Herra forseti. Maður heyrir æðioft bull hér í þessum sal. Það er ekki alltaf sams konar bull. Stundum er það skemmtilegt bull. Að mínum dómi er hv. þm. Pétur Sigurðsson sérfræðingur í skemmtilegu bulli. En honum fatast stundum, og þá getur orðið úr þessu. leiðindabull.

Hann byrjaði ræðu sína hér áðan á þeirri fullyrðingu, að sjónvarpsmenn, sem komu hingað í gær, hefðu verið hér á mínum vegum, enda hafi ég sést tala við þá, ég hefði jafnvel verið að fikta við apparötin hjá þeim, til þess að þau hittu á sjálfan mig, þegar þau yrðu sett í gang. Það er rétt, að ég vék mér að þessum sjónvarpsmönnum og spurði sí-svona: „Hefur íhaldið aftur hringt og látið vita, að nú eigi að fara upp utan dagskrár?“

Það skeði nefnilega tvo daga í röð, að sjónvarpsmenn voru hér niður frá með myndavélar, og það var sagt rækilega frá framsöguræðu hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur, þegar hún fór upp utan dagskrár út af ræðu, sem flutt var úti í Stokkhólmi. Það var ljósmyndari og tilheyrandi. Og þetta skeði í tvo daga í röð. Og ég er ekki í neinum vafa um það, að sjálfstæðismenn hringdu, og hvernig sem þeir hafa orðað þetta, þá hefur það leitt til þess, að þetta fólk kom hingað niður eftir. Þess vegna spurði ég í gær: „Hvað? Ætlar íhaldið enn þá einu sinni upp?“ Þetta var nú ástæðan til þess, að ég talaði við þessa sjónvarpsmenn.

Ég skil satt að segja ekki, hvað veldur þessum aths., margendurteknu aths. í þessum dúr hjá hv. þm. Pétri Sigurðssyni varðandi mig. Ég virðist verka afskaplega „inspirerandi“ á manninn, — svoleiðis jafnvel að oft, þegar ég er að tala, hleypur andagiftin með hann í gönur, hann er alltaf að gripa fram í. Stundum hefur þetta gengið svo langt, að mér hefur komið í hug maður einn á togara, sem þessi gamli sjómaður hefur kannske heyrt um. Hann hafði viðurnefnið „Lásagleypir“. Hann talaði afskaplega mikið. Hann var alltaf talandi, grípandi fram í fyrir öðrum mönnum. Einu sinni fór hann til ljósmyndara. Þegar ljósmyndarinn var búinn að stilla á hann vélinni, þá dokaði hann við, smellti ekki af strax, heldur sagði: „Vilduð þér ekki gjöra svo vel að loka á yður munninum eitt andartak, svo að maður geti séð, hvernig þér eruð í framan.“