28.02.1974
Sameinað þing: 62. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2429 í B-deild Alþingistíðinda. (2235)

417. mál, athuganir á Sandárvirkjun

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 399 eftirfarandi fsp. til hæstv. iðnrh. varðandi athuganir á Sandárvirkjun í Þistilfirði. Fsp. hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Hefur verið athugað, hvort virkjun Sandár í Þistilfirði kynni að vera heppileg sem einn liður í lausn á raforkumálum á austanverðu Norðurlandi miðað við þær aðstæður, sem nú hafa skapast í orkumálum almennt, og það ástand, sem þar ríkir?“

Það hefur lengi verið áhugi á virkjun Sandár í Þistilfirði í Norður-Þingeyjarsýslu. Fyrst mun hafa verið gerð áætlun um þessa virkjun árið 1949 af Bárði Daníelssyni verkfræðingi. í lögum nr. 65 frá 8. maí 1956, 4. lið, er heimild til að virkja Sandá í Þistilfirði til raforkuvinnslu í allt að 2900 hestafla orkuveri og einnig til að leggja frá því aðalorkuveitu til Þórshafnar og Raufarhafnar eða til að leggja aðalorkuveitu frá Laxárvirkjun um Norður-Þingeyjarsýslu. Þrátt fyrir þessa heimild og væntanleg áform, sem þá hafa verið uppi um Sandárvirkjun eða að leggja línu frá Laxárvirkjun til Norður-Þingeyjarsýslu, var hvorugt gert á næstu árum, enda tók þá við tímabil í virkjunarmálum, sem nefna mætti dísilstöðvatímabil eða dísilstöðvastefnu viðreisnarstjórnarinnar sálugu, þannig að Raufarhöfn og Þórshöfn fengu sínar dísilstöðvar og sátu með það rafmagn þar til fyrir 2–3 árum, að fyrst kom lína frá Laxárvirkjun austur yfir Reykjaheiði til Kópaskers og Raufarhafnar, en nú á nýliðnu ári var það fyrst, að Þórshöfn var tengd við orkuveitukerfið. Línur þessar, sem liggja eins og landi háttar þvert á aðalvindátt á Norðurlandi, hafa þegar orðið fyrir bilunum. Þar er ákaflega mikil ísingarhætta, og reynsla er fyrir því, að línum, sem liggja þvert á norðanáttina, er ákaflega hætt við sliti af völdum ísingar.

Árið 1969 voru hugmyndir um Sandárvirkjun endurvaktar og vaknaði áhugi á því að taka þær til athugunar. Þá voru eldri áætlanir dregnar fram í dagsljósið, og munu hafa verið gerðar kostnaðaráætlanir á vegum Rafmagnsveitna ríkisins og borinn saman kostnaður eða hagkvæmni þess að virkja Sandá eða leggja línu frá Laxá. Línan hefur orðið ofan á, eins og raun ber vitni. Þess má geta, að þá var áætlað, að virkjanir, sem hugsanlegar voru í Sandá, mundu kosta frá rúmlega 20–40 millj. kr. á þess tíma verðlagi. En á þeim tíma reiknuðu yfirmenn orkumála með því, að Laxá yrði fullvirkjuð. Einnig voru orkuspár allar aðrar og lægri þá heldur en reyndin hefur orðið.

Nú hafa viðhorfin enn breyst verulega. Tímabundinn orkuskortur er á Norðurlandi, orkan er orðin verulega dýrari og þá sérstaklega dísilorkan, og truflanir hafa orðið á línum, eins og ég hef áður getið. Og í vetur hafa menn fengið reynslu af því víða um landið, að náttúruhamfarir hafa gert mönnum orkuna alla miklu ótryggari. Því hugsa menn miklu meira til þess, að það muni vera hyggilegt að hafa um fleiri kosti að velja í orkuöflun, og er m.a. vegna þessa, sem ég hef rakið nú, verulegur áhugi meðal héraðsmanna um, að athugað verði nákvæmlega, hvort Sandárvirkjun gæti ekki átt rétt á sér. Þó að aðalstefnan eigi sjálfsagt að vera sú að virkja stórt, vegna þess að það er að jafnaði ódýrast, er alls ekki sagt með því, að litlar virkjanir geti ekki átt fullan rétt á sér, eins og t.d. Sandárvirkjun, þar sem staðarval er þannig og tíma getur verið þannig háttað, að þær falli vel inn í heildarvirkjunarmyndina.