05.03.1974
Sameinað þing: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2465 í B-deild Alþingistíðinda. (2281)

226. mál, leiga og sala fasteigna

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir svör hans og fyrir hinar jákvæðu undirtektir, sem í þeim fólust. Ég játa, að mér var ekki fyllilega ljóst, að sala fasteigna heyrði ekki undir sama ráðh. og leiga fasteigna, en þetta mun rétt vera, og ég vil þá aðeins beina til hæstv. dómsmrh., að hann taki þessa þáltill., sem var vísað til ríkisstj. í fyrra, til sérstakrar athugunar.

Ég vil sérstaklega fagna því, að hæstv. félmrh. lýsti sig hlynntan því, að sett yrðu ákvæði um hámarksleigu íbúðarhúsnæðis. Ég get hins vegar viðurkennt og er honum fyllilega sammála um, að skipulag það, sem tíðkaðist um þessi mál um og eftir síðustu heimsstyrjöld, var ekki sérlega skynsamlegt til eftirbreytni, enda varð það nánast sjálfdautt. Þá var reynt að binda hámarksleigu við ákveðna upphæð í l., miðað við fermetrafjölda, og síðan settar upp sérstakar n., sem áttu að sjá um framkvæmdina. Mér virðist, að allt hafi þetta skipulag verið með nokkuð óskynsamlegum blæ, enda mun það ekki hafa reynst vel. Ég hef talið hins vegar, að það væru til aðrar leiðir í þessum efnum, og væri t.d. sjálfsagt og eðlilegt að miða húsaleigu við fasteignamatsverð. Má vera, að þetta hafi ekki verið ýkjaraunhæft á sínum tíma. Þetta er að verða fyllilega raunhæft í dag, eftir að komið er nýlegt fasteignamat, og einmitt nú liggur fyrir þinginu frv. um fasteignamat, sem væntanlega verður að lögum á þessu þingi. Ég tel, að eftirlitið ætti t.d. að vera fólgið í því, að allir húsaleigusamningar skyldu stimplast hjá opinberum aðila og þannig væri fengið nokkurt eftirlit með því, hver leigan væri, þótt ég viðurkenni hins vegar, að auðvitað er hægt að brjóta öll lög.

Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja um þetta mál frekar, en ég vil sem sagt endurtaka, að ég er hæstv. ráðh. þakklátur fyrir jákvæðar undirtektir hans.