05.03.1974
Sameinað þing: 64. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2470 í B-deild Alþingistíðinda. (2288)

18. mál, vinna framhaldsskólanema við framleiðslustörf

Frsm. (Stefán Gunnlaugsson):

Herra forseti. Á þskj. 18 er till. til þál. um vinnu framhaldsskólanemenda við framleiðslustörf á vetrarvertíð. Till. er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta athuga, hvort unnt reynist að haga árlegum kennslutíma í framhaldsskólum á verstöðvum á Suðvesturlandi og annars staðar, þar sem skortur er á mannafla til framleiðslustarfa á vetrarvertíð, þannig, að elstu nemendurnir, sem áhuga hefðu á að sinna framleiðslustörfum í mars og apríl, gætu fengið sig lausa frá skólanámi þann tíma. Verði við það miðað, að námstími þeirra flytjist til á árinu sem því nemur.

Þessi athugun fari fram með það fyrir augum, að reynt verði að leysa úr þeim vanda, er sjávarútvegurinn hefur átt við að etja yfir helstu vertíðarmánuðina vegna skorts á vinnuafli.

Jafnframt verði leitast við, að fjölbrautarskólar geti hið allra fyrsta boðið nemendum upp á námsbrautir, þar sem virk þátttaka í atvinnulífinu, svo sem við fiskveiðar og fiskverkun á vetrarvertíð; sé mikilvægur liður í námi þeirra.“

Allshn. hefur haft þessa till. til meðferðar og hefur leitað umsagnar nokkurra aðila. Í fyrsta lagi var leitað umsagnar Sölusambands ísl. fiskframleiðenda. Í umsögn þess segir, með leyfi hæstv. forseta, um þessa till.:

„Á fundi stjórnar SÍF í dag var umrædd till. rædd, og ákvað stjórnin að mæla eindregið með því, að þáltill. þessi verði samþ. Bent var á það á fundinum til athugunar, að í framkvæmd yrði vinnufríum hagað þannig, að einum bekk í hverjum aldursflokki væri gefið frí í eina viku í einu og að þeim tíma liðnum tæki næsti bekkur við, þar til reynsla væri komin á þessa tilhögun.“

Enn fremur fékk n. umsögn frá Landssambandi ísl. útvegsmanna. Í þeirri umsögn kemur fram, að aðalfundur LÍÚ, sem haldinn var dagana 28. og 30. nóv. s.l., ályktaði um þessa till. og mælti með henni, svo sem orðrétt segir í ályktun þessa fundar, með leyfi hæstv. forseta: „Mælir fundurinn með því, að þessi mál verði til frambúðar könnuð rækilega á grundvelli þáltill. á þskj. 18, sem flutt hefur verið á yfirstandandi Alþingi.“

Í þriðja lagi fékk n. umsögn Landssambands framhaldsskólakennara, en þar segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Stjórn Landssambands framhaldsskólakennara telur sig ekki geta mælt með samþykkt umræddrar till., þar eð af því leiddi veruleg röskun á starfstíma og starfskjörum viðkomandi kennara og þar af leiðandi mismun í starfsaðstöðu. Stjórnin vill hins vegar benda á nauðsyn aukinnar starfsfræðslu í skólum og nánari tengsla nemenda við undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar. Viku til hálfs mánaðar vinna nemenda, skipulögð í hverju skólahéraði af skólanefnd, skólastjóra og kennurum, kemur vel til greina sem liður í skólastarfinu til þess að ná því marki. Ekki ætti að vera þörf á að lengja skólatíma fram á sumarið af þeim sökum.“

Með hliðsjón af þeim umsögnum, sem n. bárust, og til þess að leitast við að mæta að nokkru því viðhorfi, sem kemur fram í þessari síðast töldu umsögn frá Landssambandi framhaldsskólakennara, varð n. einhuga um að leggja til. að orðalagi þáltill. yrði lítillega breytt, og er því brtt. n, svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta athuga hvort unnt reynist að haga árlegum kennslutíma í framhaldsskólum í verstöðvum á Suðvesturlandi og annars staðar, þar sem skortur er á mannafla til framleiðslustarfa á vetrarvertíð, þannig, að þeir nemendur, sem því hefðu áhuga, gætu unnið skólanámsins vegna við slík störf takmarkaðan tíma í mars og apríl.

Jafnframt stuðli ríkisstj. að því, að fjölbrautaskólar geti hið allra fyrsta gefið nemendum sínum kost á námsbrautum, þar sem virk þátttaka í atvinnulífinu, svo sem víð fiskveiðar og fiskverkun á vetrarvertíð, sé mikilvægur liður í námi þeirra.“