05.03.1974
Sameinað þing: 64. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2474 í B-deild Alþingistíðinda. (2292)

182. mál, kostnaðaráætlanir við stjórnarfrumvörp

Flm. (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Ég hef árætt að bera hér fram till. til þál. um kostnaðaráætlanir við stjórnarfrumvörp. Þessi þáltill. hljóðar svo með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að beina því til ríkisstj., að frumvörp, sem fela í sér ný útgjöld fyrir ríkissjóð, séu ekki lögð fram án þess, að þeim fylgi rækilegar kostnaðaráætlanir.“

Í raun réttri þarf ég ekki að fylgja þessari þáltill. úr hlaði með mörgum orðum, því að öllum þm. er fyllilega ljóst, hvað hér er um að ræða. Það hefur komið mér alveg sérstaklega á óvart sem þm. og hef þó ekki nema 2–3 ára reynslu, hversu stjórnvöld varpa hér inn í þingsalina frumvörpum, sem hafa bersýnilega kostnað í för með sér, án þess að gerð sé nein áætlun um hann. Að vísu fylgir sumum frv. lausleg áætlun, öðrum nokkuð rækileg, en þau eru ekki fá, þar sem ekki er hirt um að gera grein fyrir, hvað það kostar ríkið eða almenning, ef viðkomandi frv. verður að lögum.

Þetta er að sjálfsögðu blöskrunarefni, og beint tilefni til þess, að ég lagði þessa þáltill. fram, var frv. til l. um Félagsmálaskóla alþýðu, 178. mál þessa þings og er á þskj. 305. Það er lagt fram af félmrn. Þar er gert ráð fyrir, að stofnaður sé nýr skóli, nefndur Félagsmálaskóli alþýðu, og greiðist allur kostnaður við hann úr ríkissjóði, þar með talinn byggingarkostnaður skólahúss. Í grg. með frv. segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Áætlun um stofnkostnað og rekstrarkostnað skólans liggur ekki fyrir nú. Ef frv. þetta verður að lögum, mun félmrn. gera áætlun um kostnað vegna skólaus og hlutast til um, að fé verði varið til hans í fjárl. samkv. áætlun rn.“

M.ö.o.: þingheimi er boðið að samþykkja stofnun nýs skóla, rekstur nýs skóla, án þess að hafa hugmynd um, hvað það muni í reynd kosta Alþ. og almenning.

Þetta frv. kom til umr. í Ed. fyrir skömmu, og ég sá þá í Alþingistíðindum, að ekki einn einasti þm. hafði séð ástæðu til að kynna sér eða athuga, hvað þetta frv. mundi kosta, og enginn hafði hreyft aths. við frv. í sambandi við þennan frágang.

Nýlega var frv. flutt hér í hv. Nd., sem heitir: Frumvarp til laga um tryggingadóm. Það er 198. mál. Þar er ætlunin að setja á laggirnar tryggingadóm, sem er nýmæli í lögum, og segir í 26. gr. þessa frv.: „Kostnaður vegna tryggingadóms greiðist úr ríkissjóði.“ En hvað kostar þessi tryggingadómur? Það virðist ekki skipta svo ýkjamiklu máli.

Þannig mætti tína til fjölda frv. af hálfu ríkisstj., þar sem ekki er talin ástæða til að gera þingheimi grein fyrir því, hvað frv. muni koma til með að kosta, ef það verði að lögum. Þetta tel ég með öllu óviðunandi, og eins og sakir standa í fjármálum ríkisins ætti það að vera skylda þm. að sjá til þess, að frv. af þessu tagi fengju ekki afgreiðslu. Og svo er hinn angi málsins, hvort ríkisstj., sem situr við völd, getur í raun og veru leyft sér svona vinnubrögð. Ég hygg, að þetta hafi tíðkast mjög lengi á Alþingi Íslendinga, sérstaklega vegna þess, að meirihlutastjórnir hafa setið við völd, þ.e.a.s. stjórnir, sem hafa stuðst við meiri hl. þm. og ekki haft þá ástæðu til að gera sér grein fyrir því, hvað hlutirnir kostuðu. En það skiptir ekki máli, hvort ríkisstj. styðst við meiri hl. alþm. eða minni hl. Þetta eru nauðsynleg vinnubrögð, að kostnaður sé kannaður hverju sinni við þau frv., sem lögð eru fram.

Að sjálfsögðu koma fram önnur frv., t.d. þmfrv., sem hafa kostnað í för með sér. Ég vil ekki gera jafnmikla kröfu til þmfrv., vegna þess að einstakir þm. hafa miklu verri aðstöðu til þess að meta kostnað, og eins hitt, að það er alls ekki tryggt, að slík þmfrv. fái fljóta afgreiðslu, heldur munu þau flest detta út fyrir einhvers staðar á leiðinni gegnum þingið. Hitt er miklu alvarlegra, þegar frv. ríkisstj. eru lögð fram, því að nær alltaf er þeim tryggður fyrir fram þingmeirihluti.

Hér er líka um að ræða að sýna alþm. nokkra virðingu. Ég tel, að það sé virðingarleysi gagnvart alþm. og Alþ. sem stofnun að leggja fram frumvörp af þessu tagi. Og svo er það hin hliðin, þ.e.a.s. að ríkisbáknið, eins og við vitum, þenst út, og kann ég ekkert orð yfir þá útþenslu. Mig brestur orð yfir hana. En einhvern tíma kemur að því, að Alþingi Íslendinga þarf að fara að beita sér gegn þessari útþenslu og miklu fremur fara að taka í taumana og skera ýmislegt niður.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Ég vænti þess, að stjþm., sem hafa engar áhyggjur af efnahagsástandinu, leggist nú ekki á þetta mál og láti það sofna í n. Ég hygg, að þetta sé almennt skynsemisatriði, og ég veit, að þm. hafa nokkuð sæmilegt brjóstvit, þannig að ég treysti því, að þessi till. til þál., sem hér er lögð fram, fái skjóta og góða afgreiðslu í þinginu.