05.03.1974
Sameinað þing: 64. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2487 í B-deild Alþingistíðinda. (2302)

209. mál, smíði eða kaup strandferðaskips

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég get fyllilega tekið undir þessa till. Hún hlýtur að vera hvort tveggja í senn, tímabær og eðlileg. Þessi vetur hefur sýnt og sannað okkur það og kennt okkur ýmislegt um okkar samgöngumál. Hann hefur m.a. sannað það, að þrátt fyrir bætta tækni og stórvirkari vélar getur allt stöðvast engu að síður, þegar vetrarríkið og fannfergið er sem mest. Gildi góðra samgangna á sjó sannast einmitt þá, og þá rekum við okkur á það, að við, þessi mikla siglingaþjóð, búum hér við mikil vanefni og slæma aðstöðu í hvívetna. Ég bygg það t.d., að augu Austfirðinga hafi rækilega opnast fyrir þessari staðreynd nú fyrir jólin, þegar leiðin frá Egilsstöðum til Reyðarfjarðar var í raun og veru ein fær, en þaðan var svo allt ófært, þó að gott skip hefði miklu getað bjargað um alla flutninga og þá sérstaklega fólks milli fjarðanna. Þessi spurning um fólksflutningana er kannske eitthvað utan við ramma þessarar till., því að hér er fyrst og fremst verið að fara fram á skip til vöruflutninga, að því er mér skilst, en kemur engu að síður hér töluvert inn í.

Inn í alla slíka flutninga fléttast auðvitað ótal margt, m.a. hinn gífurlegi kostnaður, sem oft stafar af gagnslitlum snjómokstri í svipuðu tíðarfari og var t.d. á Austfjörðum í vetur. Með góðum samgöngum á sjó væri e.t.v. hægt að losna við eitthvað af þeim kostnaði, sem annars er oft að mestu unninn fyrir gýg. Ég vil þó á engan hátt mæla með því, að slíkar umbætur ættu á nokkurn hátt að draga úr eðlilegri opnun þjóðvega að vetrarlagi.

Ég vildi aðeins í framhaldi af þessu víkja að atríði, sem ég hef nokkuð hugleitt og verið tekið til meðferðar í n., sem ég á sæti i. Það fer auðvitað ekki hjá því, eins og flm. nefndi, að rekstur og starfsemi Skipaútgerðar ríkisins kemur hér inn í varðandi þennan tillöguflutning. Það er hins vegar of langt og ítarlegt og viðamikið til að fara út í það náið. En mig langar til að víkja hér að einu tilteknu atriði. Það má að vísu segja, að þar sé um að ræða grundvallarbreytingu á rekstri Skipaútgerðarinnar. En ég vil rétt aðeins drepa á þetta, þó að þar á móti megi eflaust mæla ýmislegt, sem þarf að vega og meta.

Sú skoðun hefur komið fram, og ég held, að það sé rétt að orðfæra hana nokkuð hér einmitt varðandi þessa till., að hagkvæmt og rétt geti verið að skipta starfsemi Skipaútgerðar ríkisins í tvo sjálfstæða þætti. Þetta yrði nokkurn veginn hugsað á þann veg, að að hluta til væri Skipaútgerðin staðsett á Austurlandi og að hluta til á Vestfjörðum, vitanlega með sinni nauðsynlegu, sjálfsögðu aðstöðu í Reykjavík, þó að auðvitað þurfi stefnan að vera sú, að þangað þurfi a.m.k. Austfirðingar sem minnst að sækja, heldur fái vöru sína beint utanlands frá að sem mestu leyti. Einmitt þetta, svo að ég taki nú Austfirðina sérstaklega, aðalhöfn á Austurlandi með dreifingu á vörum þaðan til nágrannastaðanna, er nauðsyn, og um leið er það öflug röksemd með því, að Skipaútgerð ríkisins hafi þar sitt annað aðsetur og annist dreifingu að miklu leyti. Það má eflaust margt svipað segja um Vestfirðina.

Ég vík að þessu sérstaklega hér vegna þess, að í svokallaðri stofnananefnd hafa þessar hugmyndir um tvískiptingu Skipaútgerðar ríkisins verið ræddar töluvert og fengið þar byr. Ég vil ekkert segja um það, hvort n. muni fara í það að flytja fullmótaðar till. um þetta, en ég reikna þó með því, að hún muni benda mjög sterklega á, að þetta sé hagkvæmt, og leiða þar að rök. Ég tel mig ekki brjóta neinn trúnað, þó að ég minni á þetta hér og minnist á þetta hér, vegna þess að eflaust hefur þetta verið rætt oftar og viðar en í þessari einstöku n. Skipaútgerðin ætti þá að mínu viti um leið að hafa hentugan farkost til flutninga að vetrarlagi, þ.e.a.s. fólksflutninga, og manni sýnist það engin goðgá, allra síst með tilliti til Akranesskipsins fræga, sem hlýtur þó að teljast öllu óþarfara en slíkur farkostur væri fyrir þessa landshluta tvo. A.m.k. sýnist mér, að þessi tillöguflutningur sé eðlilegur og sjálfsagður sem rök eða framhald m.a. af síðustu aðgerðum í skipakaupum okkar.

Fyrr á þessu þingi var flutt till. til þál. um farþegaskip, sem gengi frá Reyðarfirði til Norðurlandanna. Það mál kæmi hér einnig inn í, ef mönnum sýndist, að það væri skynsamlegt að fara þá leið, sem þar var lögð til. Ef sú till. yrði samþ., kæmi það mál inn í þennan rekstur einnig.

Það er því ýmislegt, sem ég held, að mæli með rekstri Skipaútgerðarinnar í þessu tvískipta formi. Hvor þáttur um sig gæti verið um flest sjálfstæður, að öðru leyti en tæki til sameiginlegrar aðstöðu hér í Reykjavík. Stjórn heimamanna að hluta væri líka sjálfsögð, og ég hygg, að það yrði alveg efalaust, að þá yrði betur séð um hagsmuni þeirra byggða, sem eiga að njóta þjónustunnar, en manni virðist stundum, að gert sé.

Ég vík aðeins að þessu hér. Það er eflaust rétt, að bíða þeirra niðurstaðna, sem stofnananefndin leggur til í málinu. Ég sé því ekki ástæðu t.d. til að flytja neina viðaukatill. hér við um sérstaka athugun á þessu breytta rekstrarformi Skipaútgerðarinnar. En ég vil á hinn bóginn taka það fram að lokum, að það er jafnsjálfsagt að mæla með samþykkt till. til að bæta úr brýnni þörf, þó að um leið sé áreiðanlega þörf stórs átaks til að bæta þjónustuna yfirleitt hjá Skipaútgerð ríkisins.