06.03.1974
Efri deild: 71. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2550 í B-deild Alþingistíðinda. (2339)

190. mál, útflutningsgjald af loðnuafurðum

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Það er rétt aðeins til að leiðrétta það, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði nú síðast. Hann virðist alveg hlaupa yfir það í þessari yfirlýsingu, þar sem hann segir: „Hækki olíuverð frá því, sem miðað er við um áramótin, umfram það, sem fiskverðshækkun, annar tekjuauki eða létting gjalda fyrir útgerðina getur staðið undir með eðlilegum hætti, þyrftu að koma til ráðstafanir.“ Auðvitað er það skiljanlegt mál, að þegar búið er að lýsa því yfir, að reiknað sé með því, að sanngjarnt sé, að útgerðin búi við sams konar rekstrarafkomu og þarna var lögð til grundvallar, verður að gera ráðstafanir, ef olíuverðið helst t.d. óbreytt og enginn tekjuauki kemur til. En ef það kemur tekjuauki til, þá getur farið svo, að það þurfi ekki að gera neinar ráðstafanir. (Gripið fram í.) Vissulega getur það átt sér stað. Sumar afurðirnar hafa hækkað umfram það, sem gert var ráð fyrir í áætlunum um áramót. (Gripið fram í: En önnur útgjöld útgerðarinnar?) Það var búið að reikna með því. Það hefur ekkert komið af útgjöldum hjá henni nú, sem ekki var reiknað. með í áætlunum um áramót. Hitt er annað mál, að það er alveg ómögulegt að segja um það, hvaða grundvöllur verður fyrir rekstrinum, þegar kemur fram á sumar. Því er auðvitað fjarstæða að tala um, að það sé búið að slá því föstu, að það verði að afla einhverrar tiltekinnar fjárhæðar.

Sannleikurinn er sá, að útvegsmenn mundu ekki fallast á það í dag, þó að þeim væru jafnvel boðnar 300 millj. kr. Þeir mundu segja, eins og þeir sögðu um áramótin: Við verðum að láta gera upp dæmið, hvernig það stendur. Það getur líka komið til þess, að það hafi orðið svo miklar launabreytingar í landinu á þessu tímabili, sem við getum ekki enn sagt um, hvað verða miklar, að það hafi grundvallandi breytingar í för með sér á launagreiðslum útgerðarinnar. Það þýðir ekki að miða aðeins við olíuverðið, heldur afkomuna hjá útgerðinni.

Það er sem sagt þetta, sem liggur fyrir, að gert er ráð fyrir því að reyna að tryggja útgerðinni seinni hluta ársins hliðstæða afkomu og á fyrri hlutanum. Þá verður að taka tillit til þeirra tekna, sem útgerðin þá býr við, og þeirra útgjalda, sem hún þá stendur frammi fyrir. En það er ekki með neinu móti hægt að segja um það á þessu stigi málsins hversu mikill vandi þetta verður. Það er um allt of marga óvissa liði að ræða. Hitt er rétt, að það hefur verið við það miðað að reyna að tryggja útgerðinni svipaða afkomu seinni hluta ársins og fyrri hluta ársins. Mér þykir það satt að segja furðulegt, ef einhver er, sem ekki. viðurkennir, að það sé eðlilegt.