12.03.1974
Sameinað þing: 65. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2708 í B-deild Alþingistíðinda. (2459)

245. mál, öryggisráðstafanir fyrir farþegaflug

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Fsp. hv. 8. landsk. þm. var send til hæstv, dómsmrh., en hann óskaði eftir því, að utanrrh. svaraði fsp., þar sem svo til allt millilandaflug fer um Keflavíkurflugvöll. Að vísu skildi ég spurninguna þannig, að þar væri átt við öryggi á öðrum flugvöllum jafnframt, en ég get ekki svarað fyrir annað en Keflavikurflugvöll, og mun gera grein fyrir því í stuttu máli. Þær upplýsingar, sem ég hef um það að flytja, eru frá varnarmáladeild utanrrn.

1. spurning er: Hvaða öryggisráðstafanir eru gerðar á íslenskum flugvöllum til verndar farþegaflugvélum gegn hættu á flugvélaráni, ferðum hermdarverkamanna og annars slíks?“

Svarið er: Í fyrsta lagi er spurt um ráðstafanir vegna hugsanlegra flugvélarána. Á Keflavíkurflugvelli er fyrir hendi aðstaða til þess að leita á farþegum og í handfarangri þeirra. Við leit á farþegum eru notuð málmleitartæki af viðurkenndri gerð, sem ríkissjóður keypti árið 1972. Þessi búnaður og aðstaða hefur verið notuð reglulega af tveimur erlendum flugfélögum, sem hafa hingað áætlunarflug. Þessi aðstaða er til reiðu fyrir öll þau flugfélög, sem óska að nýta hana. Þetta fyrirkomulag er með svipuðum hætti og í nágrannalöndunum, enda voru á sínum tíma fengnir erlendir sérfræðingar til ráðuneytis um þessi mál. Ekki er leitað í ferðatöskum, nema að gefnu tilefni.

Og í öðru lagi er spurt um ferðir hermdarverkamanna og annars slíks. Mál þessi eru fyrst og fremst í höndum útlendingaeftirlitsins og hinnar almennu löggæslu, sem fá daglega allar upplýsingar um ferðir grunsamlegra aðila frá Interpol eða lögregluyfirvöldum einstakra ríkja. Sérstaklega er samvinna Norðurlandanna mjög náin í þessum efnum. Er þá fylgst með því, að þessir aðilar komist ekki inn í landið.

Önnur spurning: „Geta íslensk yfirvöld annast sprengjuleit í farþegaflugvélum, ef tilefni gefst til?“

Svar: Á Keflavíkurflugvelli hefur það komið samtals fimm sinnum fyrir, að um sprengjuhótun hafi verið að ræða varðandi farþegaflugvélar. Í slíkum tilfellum er fyrsta verk að koma öllum farþegum og handfarangri þeirra út úr flugvélinni. Því næst er flugvélin færð á fyrir fram ákveðinn stað fjarri allri byggð. Ef ástæða þykir til, er allur annar farangur tekinn úr flugvélinni og rannsakaður í viðurvist farþega. Þessi verk annast eigandi viðkomandi flugvélar eða umboðsmaður hans. Jafnframt er leitað í flugvélinni hátt og lágt. Það gerir áköfu flugvélarinnar eða aðrir starfsmenn flugfélagsins, sem gjörþekkja viðkomandi flugvélategund og vita, hvað á að vera á hverjum stað. Reynslan sýnir, að þessi starfsaðferð er vænlegust til árangurs, enda annast íslensk yfirvöld ekki sprengjuleit í flugvélum.

Í þeim tilfellum, þegar um sprengjuhótun hefur verið að ræða, hafa engar sprengjur fundist. Við sprengjuleit hafa þó alltaf verið til kvaddir sprengjusérfræðingar frá varnarliðinu, reiðubúnir til þess að gera sprengjur óvirkar, ef þær kynnu að finnast, og til að rannsaka torkennilega hluti, sem gætu verið sprengjur.

Að endingu skal þess getið, að hinir erlendu fagmenn, sem áður var á minnst, héldu hér námskeið fyrir flugvallarstarfsmenn, löggæslumenn og starfsmenn flugfélaganna, þar með taldar áhafnir. Jafnframt er enn verið að vinna að þessum málum. Ég vil svo aðeins að endingu upplýsa það, að hér á landi eru tveir íslenskir sprengjusérfræðingar. Annar þeirra starfar hjá Landhelgisgæslunni, en hinn hjá lögreglustjóraembættinu í Reykjavík. Þessa menn væri að sjálfsögðu hægt að kalla til að vera viðstadda í stað þeirra varnarliðsmanna eða sérfræðinga þaðan, sem fengnir hafa verið til þess að vera viðstaddir sprengjuleitina. En sem betur fer hefur ekki reynt á sérkunnáttu þeirra, þar eð sprengjur hafa ekki fundist.