13.03.1974
Efri deild: 77. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2736 í B-deild Alþingistíðinda. (2502)

201. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Samkv. tilmælum hæstv. utanrrh. fyrr í umr. um þetta mál hefur allshn. tekið til athugunar á fundi sínum í gær þær ábendingar, sem utanrrn. hefur að gera varðandi utankjörfundaratkvgr. hjá kjörræðismönnum. Ábendingarnar eru þess eðlis í stórum dráttum að víkja að nokkru frá þeim almennu reglum, sem gilda og hafa gilt um nokkuð langan tíma að því er varðar kjörstjóra, tryggingu með vitundarvottum, og enda nokkru fleiru. Þessar ábendingar höfum við lítillega íhugað og höfum komist að þeirri niðurstöðu, að með ákvæði frv., sem fjalla um utankjörfundaratkvgr., verði náð því nauðsynlega öryggi, sem lengi hefur verið talið, að þyrfti að ríkja í þessu efni. Og það verður að segja eins og er, að íslensk löggjöf um utankjörfundarkjör hefur jafnan verið mjög á varðbergi um, að slíkt kjör færi fram með sem tryggustum hætti. Frjálsleg meðferð um utankjörfundarkjör, ef að henni er stefnt, þarf mjög athugunar og grandskoðunar við og ætið vandséð, hversu langt á að ganga í þá stefnu.

Samkv. frv. er gert ráð fyrir því, að utanrrn. hafi með framkvæmd að gera að því er varðar þetta sérstaka efni, þ.e.a.s. utankjörfundarkjör hjá kjörræðismönnum, sem ekki mæla á íslenska tungu eða skilja ekki íslenskt mál. Og við teljum í allshn., að utanrrn. sé mjög vel ætlandi að halda þannig á, að því er varðar framkvæmd í þessu efni, og sjálfsagt mun við nokkra byrjunarörðugleika að etja, að sjá svo um, að það verði mun færri íslenskir kjósendur erlendis, sem koma því ekki við að geta greitt atkv. við kosningar, ef þetta frv. nær fram að ganga.

Hins vegar þykir okkur miður, ef hæstv. utanrrh. legði mikið kapp á að koma fram breytingum við frv. í þá stefnu, sem hann gat um. En ég geri ráð fyrir því og vænti þess, að svo mikill ágreiningur ríki ekki í þessu efni, að hæstv. ráðh. geti ekki fallist á þessa skoðun okkar í allshn., og þannig verði þá séð, hvernig fer um framkvæmdina. Það má vel vera, að það komi fram, að ýmsir örðugleikar verði á leiðinni, og við þá reynslu má þá styðjast og koma þá fram á sínum tíma nauðsynlegum breytingum.