13.03.1974
Neðri deild: 81. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2785 í B-deild Alþingistíðinda. (2513)

259. mál, skattkerfisbreyting

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Þessar umr. hafa nú orðið allmikill talnalestur, og ýmsir hafa reiknað hér mörg merkileg dæmi, þótt hæstv. sjútvrh. gerði meira að því að fullyrða án þess að nefna mjög margar tölur. En málin taka að skýrast í þessum umr., og þar ber hæst að mínu mati, að sérfræðingar ríkisstj. hafa lagt fram nýjar upplýsingar í málinu, frá því að frv. var lagt hér fram. Sérfræðingarnir hafa reiknað út tekjutap ríkissjóðs að nýju vegna þeirra breyt., sem gerðar eru á núgildandi skattal. í frv., og dæmið lítur þannig út hjá þeim, að það er áætlað, að innheimtist, ef frv. verður að lögum, 4100 millj. kr. af tekjuskatti, en skv. fjárl. er áætlað, að innheimtist 5 800 millj. af tekjuskatti einstaklinga. Sem sagt, hið nýja mat sérfræðinga ríkisstj. sjálfrar, sem komið er fram, eftir að frv. var lagt fram á hinu háa Alþ., gerir ráð fyrir því, að tekjutap ríkissjóðs verði ekki eins og í frv. segir, heldur 1700 millj. kr. Við þetta bætist 550 millj. vegna skattafsláttar. Aftur á móti gerir frv. ráð fyrir, að innheimtist í kassann á árinu 1974 söluskattauki að upphæð 2900 millj. til þess að mæta þessu tekjutapi. Það er því orðið ljóst að mati sérfræðinga ríkisstj. sjálfrar, að þetta frv. leggur þyngri byrðar á þjóðina í auknum söluskatti heldur en sem nemur tekjutapi ríkissjóðs á þessu ári.

Hæstv. fjmrh. hefur lagt þunga áherslu á það, að hann verði að fá jafnmargar krónur í kassann af tekjuauka í auknum söluskatti, til jafns við það, sem hann ívilni fólki í tekjuskatti. Hann verði að fá jafnmargar krónur í kassann, skipta á sléttu á árinu. Með þessum nýju upplýsingum, sem fyrir liggja, svo að óyggjandi er, frá sérfræðingum ríkisstj, og ég hygg, að margir þm. hafi í fórum sínum og hæstv. ráðh. líka, er orðið ljóst, að það er jafnvel svo, að sérfræðingar ríkisstj. eru farnir að viðurkenna, að frv. felur í sér heildarskattþyngingu.

Þetta stafar ekki af því, að sérfræðingar ríkisstj. hafi reiknað skakkt, þegar frv. var lagt fram, heldur eru forsendurnar breyttar. Það hefur komið í ljós, að tekjur milli ára hækka ekki um 25–26%, eins og reiknað var með, þegar frv. var lagt fram, heldur um 30%, og það gerir að verkum, að ríkissjóður fær meira fé í kassann, það verður minna tekjutap en reiknað var með, þegar frv. var lagt fram.

Ég hélt satt að segja, að hv. 4. þm. Reykv. ætlaði að segja okkur þetta, þegar hann nefndi nýjar áætlanir, sem lagðar hefðu verið fyrir hv. fjh.- og viðskn. þessarar hv. d. En hann tók einhvern veginn annan pól í hæðina í þessu efni, því að hann fór að tala um, að útkoman yrði verri fyrir ríkissjóð vegna þessara nýju upplýsinga. Það var reiknað með minni tekjuhækkun milli ára í frv. en kemur í ljós vegna nýrra úrtaksathugana, að tekjurnar verða meiri. Ríkissjóður hefði fengið meira í sinn hlut, jafnvel þótt hann hefði gefið fólki eitthvað eftir í sköttum. En hv. 4. þm. Reykv. fann það út af sinni alkunnu snilli í meðferð talna, að útkoman yrði verri fyrir ríkissjóð. Sú aðferð, sem hv. 4. þm. Reykv. beitti í þessari reikningskúnst, var sú, að hann fór allt í einu að tala um álagðan tekjuskatt, — ekki krónur í kassann, eins og hæstv. ráðh. hafði talað um, heldur álagðan tekjuskatt á árinu 1974, hann yrði 7000 millj. kr. skv. nýjustu áætlunum, og þá yrði tapið fyrir ríkissjóð 2100 millj. kr., vegna þess að það væri reiknað með, að frv. gæfi 4100 millj. álagt. Hv. þm., sem vita, hvernig fjárlög eru gerð upp, og ég vænti þess, að flestir þm. geri sér það ljóst, vita, að þetta er rangur reikningur. Fjárl. eru gerð þannig upp, að það er reiknað með því, að eftirstöðvar af tekjuskatti fyrra árs komi inn, síðan er reiknað með því, að hluti af álögðum tekjuskatti yfirstandandi árs komi einnig inn í ríkissjóð. Þannig eru fjárlög gerð upp, og þannig hefur hæstv. ráðh. lagt áherslu á, að dæmið yrði reiknað, þegar metið er, hvort króna kemur á móti krónu í þessu frv. Hann hefur lagt mjög ríka áherslu á það og talsmenn hæstv. ríkisstj., að þannig yrði á málið litið, og meira að segja hefur komið fram hér eins konar tilboð, eins konar uppboðstilboð frá þeim til hv. Alþfl.manna um það, að frv. skuli bara látið gilda til áramóta, vegna þess að þeir hafa lagt svo ríka áherslu á að líta á dæmið þannig, hvað kæmi í kassann á árinu.

Hv. 4. þm. Reykv. gerði sér hins vegar lítið fyrir og reiknaði þetta út á allt öðrum forsendum, og þess vegna kom hann ekki hér upp til að upplýsa okkur um það, hvernig dæmið liti út í raun og veru eftir hinar nýju upplýsingar sérfræðinganna, heldur til þess að fara hér með tölur, sem ég held, að hafi verið villandi fyrir flesta hv. þm.

Það er sem sagt ljóst eftir þessar nýju upplýsingar, að það er ekki ætlun ríkisstj. að taka krónur í kassann í auknum söluskatti fyrir krónur í ívilnun, heldur ætlar hún að taka 1.50–2.00 kr. í kassann í auknum söluskatti fyrir hverja krónu, sem hún ívilnar skattborgurum. Og ég legg áherslu á, að þetta dæmi er byggt á nýjustu útreikningum sérfræðinga ríkisstj., þannig að ég er ekki að fara með staðlausa stafi, heldur tölur beint frá þeim.

Þetta voru dæmin um nýjustu útreikninga sérfræðinganna sjálfra. En það er ekki sögð öll sagan með þeim, og erindi mitt í ræðustól var bæði að undirstrika þetta, sem ég hef hér sagt, og einnig að endurtaka sumt það, sem ég sagði hér við 1. umr. málsins, að vegna skattvísitöluútreikninga hæstv. fjmrh. er í raun og veru líka stórlega ýkt, hver ívilnun felst í þessu frv. Skattvísitalan hækkaði milli áranna 1973 og 1974 um 20.4%. Nú hækkuðu laun skv. nýjustu rannsóknum a.m.k. um 30% milli áranna, og framfærslukostnaður hækkaði líka um nálægt því 30% milli áranna. Ef gömlu lögin hefðu verið vegin og mæld með réttri skattvísitölu, með vísitölu, sem hefði hækkað um 30% í samræmi við þetta, þá hefði álagður tekjuskattur skv. þeim l. ekki numið 7000 millj. kr., heldur nálægt 6000 millj. Á þetta benti ég við 1. umr. málsins, þannig að með þessum skollaleik með skattvísitöluna ýkir hæstv. ráðh. stórlega þá skattívilnun, sem hann telur vera hér á ferðinni. Hæstv. ráðh. svaraði þessum athugasemdum mínum engu í þeirri ræðu, sem hann flutti hér við 2. umr. málsins. Hann hefur kannske gleymt að svara þessu, en kannske hefur það verið af því, að hann flutti sjálfur till., er hann var í stjórnarandstöðu, um það, að skattvísitalan milli ára yrði metin, ef ekki eftir launabreytingum milli ára, þá a.m.k. miðað við framfærslukostnað milli ára. Ég er sem sagt að benda á, að ef hæstv. ráðh. hefði farið að sínum eigin till., þegar hann var í stjórnarandstöðu, þá væri það, sem hann telur sig vera að rétta þjóðinni, 1000 millj. kr. minni skattívilnun en hann vill vera láta. Ég vildi helst, að hæstv. ráðh. reyndi að hrekja þetta með einhverjum rökum og sýndi fram á, að hér væri um rangar ályktanir að ræða. Þær eru það ekki, því að þessi útreikningur er afskaplega einfaldur, að ef miðað er við 20% skattvísitölu, þá ýkir það stórlega þann afslátt, sem talinn er vera með þessu frv.

Ég gat ekki varist brosi, þegar hæstv. ráðh. kom hér upp í stólinn áðan og talaði með lítilsvirðingu um þá verslunarhætti, þegar menn færu þannig að því að hækka verðlag á vöru, til þess að þeir gætu gefið afslátt af henni síðar. Þetta er út af fyrir sig alveg rétt hjá hæstv. ráðh., en þetta er nákvæmlega það, sem hann er að gera. Hann metur sína tekjuskatta á 7000 millj. — tekjuskatta, sem í raun og veru ættu að vera 6000 millj., þannig getur hann bætt við það, sem hann telur vera að slá af, 1000 millj. á afskaplega billegan hátt. Þetta er nákvæmlega það, sem kaupmenn gera, þegar þeir hækka vörur fyrst og slá svo af þeim.

Ég sagði áðan, að sérfræðingar ríkisstj. hefðu reiknað dæmið rétt í bæði skiptin á þeim forsendum, sem þeir höfðu, bæði þegar þeir reiknuðu með 25–26% hækkun milli ára í launum og eins þegar þeir reiknuðu með 30%. Og þeir reikna líka í frv. rétt, þegar þeir hafa það sem forsendu, að skattvísitalan hækki einungis um 20.4% á milli áranna. Þá reikna þeir líka rétt á þeirri forsendu, sem þeim er gefin. En það er bara röng forsenda.

Það er önnur ástæða fyrir því, að það er afskaplega örðugt í raun og veru að meta þetta dæmi ríkisstj., króna fyrir krónu, komna í kassann, annars vegar tekjuskattslækkun og hins vegar söluskattshækkun. Hin einfalda ástæða er sú, að það er slík verðbólguþróun í landinu, að það er í raun og veru vart hægt að gera sér í hugarlund frá einum tíma til annars, hvað hvert söluskattsstig gerir. Til þess að renna stoðum undir þetta skal ég aðeins minna á það, hvernig söluskattur og aðflutningsgjöld hafa verið metin fyrir 1974, fyrst í fjárlagafrv., síðan þegar fjárlög voru afgreidd og svo nú síðar, þann 10. mars eða svo. Söluskatturinn, miðað við 11%, var talinn mundu gefa ríkissjóði í tekjur árið 1974 5 930 millj. kr. í fjárlagafrv. Um áramótin var hann hins vegar talinn gefa ríkissjóði 6 702 millj., en nú 10. mars er hann talinn gefa 7880 millj. M.ö.o.: 11% söluskattur er metinn á aðeins fárra mánaða millibili tæplega 2 milljörðum hærra núna heldur en hann var metinn, eins og ég sagði, fyrir nokkrum mánuðum. Sama er að segja um aðflutningsgjöldin, að á nokkurra mánaða millibili er gert ráð fyrir því, að þau gefi ríkissjóði um 1100 millj. kr. meiri tekjur en ella. Þarna er um að ræða, að söluskattur og aðflutningsgjöld hafa verið hækkuð, áætlun þeirra hefur verið hækkuð á aðeins 2–3 mánuðum fyrir árið 1974 um 3000 millj. kr. Og ástæðan er ofur einföld. Sérfræðingar ríkisstj. hafa ekki við að breyta forsendum útreikninga sinna vegna þeirrar óðaverðbólgu sem ríkir. Og ég spyr: Hvað telur hæstv. ráðh., að söluskattsstigið geri á ársgrundvelli, ef það verður gerð um það áætlun t.d. í sept. í haust? Ætli það verði ekki svolítið meira en 800 millj. á ári? Það eru ekki nema 3–4 mánuðir síðan það var talið gefa 620 millj. kr., ef ég man rétt. Þess vegna er það að reikna þetta út þannig, að ríkissjóður fái krónu fyrir krónu í þessu dæmi, afar erfitt, og það er erfitt á aðeins annan veginn. Nú vita menn nokkurn veginn, hvaða tekjur menn höfðu á s.l. ári, og menn vita nokkurn veginn upp á krónu, hver breyting á tekjuskatti s.l. árs verður. En menn vita sáralitið um það, hvað hvert söluskattsstig gerir í innkomnar tekjur í ríkissjóð það sem eftir er af þessu ári, ég tala nú ekki um næsta ár.

Ástæðan fyrir þessu er einfaldlega sú, að það hefur ríkt og ríkir enn slík óðaverðbólga í landinu, að allar áætlanir um söluskattsstofn, um aukningu innflutnings verða úreltar, um leið og blekið er þornað á þeim pappír, sem þær eru skrifaðar á.

Ég vil þá aðeins víkja að því, sem hæstv. sjútvrh. kom inn á í umr. áðan. Hann talaði hér langt mál og hafði hátt og sagði margt athyglisvert. Eitt af því, sem mér fannst athyglisvert hjá hæstv. ráðh., var það, að hann reyndi að afsanna það, að á valdatíma núv: hæstv. ríkisstj. hefði ríkt nokkuð meiri verðbólga en fyrr á árum. Og til þess að sanna þetta mál sitt seildist hæstv. ráðh, svo langt, að hann miðaði við verðlag frá því í nóv. 1970. Og maður gat ekki annað skilið en það væri allt honum að þakka, hvað verðlag hefði verið frá nóv. 1970 og fram að því, að hæstv. núv. ríkisstj. kom til valda. Þegar hæstv. ráðh. fór þannig að til þess að reyna að styðja sitt mál, datt mér í hug, hvort hann vildi reyna á einhvern hátt að framlengja valdatíma sinn aftur í tímann. Þessi talnakúnst, sem kom fram hjá hæstv. ráðh., er alveg furðuleg, því að hann sem sagt tekur hluta af viðreisnartímabilinu og bætir honum við það tímabil. sem hæstv. núv. ríkisstj. situr að völdum, og reynir með þeim talnakúnstum, að fá út, að verðlag á þeim tíma, sem hæstv. núv. ríkisstj. hefur setið, hafi ekki hækkað meira en á ákveðnum tíma, sem viðreisnarstjórnin sat. Hér er um fráleita útreikninga að ræða. Ég vil aðeins í sambandi við þetta minna á það, að framfærsluvísitalan hækkaði allt viðreisnartímabilið að meðaltali 11% á ársgrundvelli. Árið 1972 hækkaði hún um 12.8%, en 1973 um 28.9%, og bjartsýnustu spár um 1974 eru a.m.k. 30% hækkun á framfærsluvísitölunni. Það er að vísu svo, þegar hæstv. ráðh. fara með svona mál eins og hæstv. sjútvrh. hér og eru að rembast við það hér á hinu háa Alþ. að reyna að sýna fram á svona dæmi eins og hann gerði, halda því fram, að verðlag hafi ekki farið meira hækkandi á síðustu árum en áður, að þá í raun og veru hitta þeir sig sjálfa fyrir, því að allur almenningur í landinu finnur þetta og skilur. En ég vildi aðeins koma inn á þetta og sýna fram á, hversu fráleitur þessi talnaútreikningur hæstv. ráðh. var.

Út af því frv., sem hér er til umr., vil ég aðeins endurtaka það, af því að það eru ýmsir, sem eru komnir, sem ekki voru við, þegar ég hóf mál mitt, að kjarni málsins er sá, að sérfræðingar ríkisstj. hafa lagt fram nýjar tölur í þessu máli, það eru komnar fram nýjar upplýsingar, eftir að kjarasamningarnir voru gerðir, eftir að samkomulagið var gert við ríkisstj. og eftir að frv. þetta, sem hér er til umr., var lagt fram. Þessir útreikningar sýna í stuttu máli, að tekjuskattsívilnunin, sem í frv. felst, er ekki nema 1700 millj. kr. á innheimtugrundvelli, þ.e.a.s. það koma 1700 millj. kr. minna í tekjuskatt í kassann heldur en gert er ráð fyrir fárl., ef þetta frv. verður að lögum. Þetta stendur í skýrslu, sem sérfræðingar ríkisstj. hafa látið frá sér fara. Til viðbótar þessu kemur skattafslátturinn, sem er 550 millj. En á móti þessu stendur enn óhaggað, að sérfræðingar ríkisstj. sjálfir hafa áætlað, að inn heimtist 2 900 millj. kr. í söluskatt til áramóta. Þetta er sá kjarni, sem við okkur þm. blasir. Þetta eru nýjar upplýsingar, sem fram hafa komið, síðan frv. var lagt fram. Ég fæ ekki betur séð en hæstv. ríkisstj. eigi þann einn kost að viðurkenna þetta og lagfæra þetta frv., ef hún heldur áfram uppteknum hætti um að vilja knýja frv. í gegn. Þá standa ekki bara orð stjórnarandstöðunnar um það, að hún ætlar að knýja í gegn með þessu aukna skattpíningu á þjóðina, heldur orð sérfræðinga hennar sjálfrar.